6.4.1997

Frumvarpavinna - ritstjóri DT - kvikmyndir

Í vikunni lauk frágangi þeirra frumvarpa, sem koma frá mér fyrir Alþingi á þessum vetri.

Í fjölmiðlum hefur frásagnir af LÍN-frumvarpinu borið hæst, en þar náðist niðurstaða milli stjórnarflokkanna í góðu samkomulagi, eins og ég hef jafnan haldið fram að myndi gerast. Mestu skiptir þar um lækkun endurgreiðslubyrðarinnar og stuðning við námsmenn vegna viðskipta þeirra við baknastofnanir, en engin breyting verður á því fyrirkomulagi, að lán úr LÍN eru veitt eftir á og taka mið af námsárangri. Varð samstaða um þessa niðurstöðu í báðum þingflokkum ríkisstjórnarinnar.

Hér á þessari síðu minni geta menn lesið það, sem ég hef haft um framvindu LÍN-málsins að segja, því að öðru hverju hef ég lýst stöðu þess frá mínum bæjardyrum. Jafnframt hef ég dregið fram ummæli í fjölmiðlum og svokallaðar fréttir þar um málið. Beri menn það saman við niðurstöðuna, ættu þeir auðveldlega að komast að þeirri niðurstöðu, að lausafréttir af gangi mála hafa í meginatriðum verið rangar og spurningar um það, að innan ríkisstjórnarinnar væri annar aðilinn að reyna að brjóta hinn á bak aftur, hafa ekki átt við rök að styðjast. Leitað hefur verið að lausn, sem sættu sjónarmið beggja, og hún hefur fundist. Raunar tek ég eftir því, að Alþýðublaðið, sem var að ýta undir ágreining um málið, hefur ekki enn séð ástæðu til að birta frétt um niðurstöðuna. Sigurdór Sigurdórsson á DV, sem birti tilbúnar fréttir um málið, hefur lítið gert úr niðurstöðunni og ekki leitað frétta hjá mér af henni frekar en fyrri daginn.

Þá hef ég lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um háskóla, þar sem mótaðar eru meginreglur um skólastarf á þessu skólastigi. Hefur þess lengi verið beðið, að slíkar almennar reglur yrðu settar. Hingað til hafa gild lög um hvern skóla og eru þær mismunandi, nú er settur rammi og innan hans verða sett sérlög um skólana. Háskóli Íslands er elsta háskólastofnunin og að mínu mati er laga- og reglugerðarsmíð vegna hans í áranna rás til marks um í hvaða ógöngur menn rata með því, að hafa ráð stofnunarinnar jafnmikið inni í ráðuneyti og á Alþingi. Hin nýja löggjöf byggist á auknu sjálfstæði skólanna, sem lýtur kjörinni stjórn með tveimur fulltrúum skipuðum af ráðherra, stjórn, sem hefur ákvörðunarvald og gerir bindandi tillögu um rektor til ráðherra. Ég hef heyrt, að innan Háskóla Íslands dragi menn í efa réttmæti þess, að ráðherra hafi frumkvæðisrétt að slíkri löggjöf, af því að sú hefð hafi skapast, að lögum um skólann sé ekki breytt nema að frumkvæði hans sjálfs. Annað sé aðför að sjálfstæði skólans. Í mínum huga eiga slík sjónarmið ekki við nein rök að styðjast og síst af öllu eru þau í samræmi við íslenska stjórnskipan. Raunar má segja, að frumkvæði að því að ráðist er í gerð frumvarps af þessu tagi sé frá rektorum og skólameisturum skóla á háskólastigi komið, því að þeir hafa gert sér betur grein fyrir því en aðrir, hve brýnt er að fá slíkar almennar viðmiðunarreglur.

Nú gera raunar 13 skólar kröfu til þess að starfa á háskólastigi hér, þegar til þess er litið, er augljóst, að einn þeirra, þótt elstur sé, getur ekki gert kröfu til þess, að hann hafi sérstöðu við frumvarpsgerð um skólastigið í heild. Á hitt hef ég fallist, að tillögu háskólaráðs, að menntamálaráðuneytið komi með fulltrúum sínum að því að með fulltrúum háskólaráðs að semja sérlög um Háskóla Íslands á grundvelli hinna nýju rammalöggjafar.

Fyrsta frumvarpið um einstakan skóla, sem samið er á grundvelli frumvarpsins um háskóla, er þegar komið fram á Alþingi. Er það um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands, þar sem sameina á fjóra skóla: Fósturskólann, Íþróttakennaraskólann, Kennaraháskólann og Þroskaþjálfaskólann. Í því frumvarpi sjá menn, hvernig unnt er að sníða löggjöf um háskólastofnun að þessum nýja ramma.

Þá hef ég flutt frumvarp um kröfur til þeirra, sem njóta lögverndunar til fullra réttinda sem kennarar á grunn- og framhaldsskólastigi. Þar eru stigin skref í þá átt, sem ég hef boðað undanfarna mánuði, að dregið skuli úr kröfum um nám í uppeldis- og kennslufræði hjá þeim, sem hafa góða fagmenntun, hvort heldur í bóknámi eða verknámi.

Loks vil ég geta frumvarps til íþróttalaga, þar sem tekið er mið af því, hvernig viðhorf hafa breyst til stjórnsýslu og hlutverks ríkisins frá því að núgildandi lög tóku gildi 1956. Þá er berlega tekið fram, að það eru Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands, sem koma fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hönd hinna frjálsu íþróttafélaga, en eins og menn sjá til dæmis af fjárlögum eru það þessir tveir aðilar, sem þar eru viðurkenndir, sem fulltrúar hreyfingarinnar.

Ritstjóri DT


Í vikupistli, sem dagsettur er 9. mars 1997, fjallaði ég lítillega um uppnámið, sem varð vegna þess, að í Dagsljósi var á óviðunadi hátt fjallað um hagsmunamál stúdenta skömmu fyrir kosningar til Stúdentaráðs og kallað á eftirhermu í minn stað til að árétta bága stöðu námsmanna. Komst útvarpsráð samhljóða að þeirri niðurstöðu, að þannig ætti ekki að standa að faglegum vinnubrögðum í sjónvarpinu og hið sama hefur raunar komið fram hjá umsjónarmanni Dagsljóss og Hjálmari Árnasyni, alþingismanni Framsóknarflokksins, sem var dreginn inn í þennan misheppnaða leikþátt ásamt Margréti Frímannsdóttur, formanni Alþýðubandalagsins, sem að vísu hefur lent í deilu við Guðrúnu Helgadóttur, fulltrúa Alþýðubandalagsins í útvarpsráði, vegna þess að Guðrún tók þátt í því að gagnrýna þessi vinnubrögð.

Ég geri þetta þetta atvik enn að umtalsefni hér, vegna þess að í vandlætingargrein, sem Stefán Jón Hafstein, ritstjóri Dags-Tímans, ritar í blað sitt laugardaginn 5. apríl, þar sem hann fjallar meðal annars um frægan Spaugstofuþátt laugardaginn fyrir páska segir:

“Biskup kvartaði við útvarpsstjóra sem nú verður að ræða málið á þeim vettvangi sem “harmaði" grínið með menntamálaráðherra á dögunum - sjálfu útvarpsráði. Það ágæta ráð á nú við vanda að etja: ætlar það að harma grín um menntamálaráðherra, en ekki um Jesú Krist? Hversu miklu dýpri verður harmurinn?"

Frá mínum bæjardyrum séð er furðulegt, að maður, sem vill láta taka mark á sér í opinberum umræðum, skuli láta þetta frá sér fara. Útvarpsráð fjallaði ekki um Dagsljós sem grínþátt, enda er hann það ekki, og það var ekki verið að grínast neitt með hagsmunamál stúdenta í þættinum. Fyrrverandi formaður Stúdentaráðs, sem réð eftirhermu í áróðursskyni, vildi hins vegar eftirá láta eins og hann hefði verið að grínast, og það er sú skýring, sem ritstjóri DT slær fram og segir ranglega, að útvarpsráð hafi fjallað um hana.

Með sömu rökum og ritstjóri DT lítur á Dagsljós og áróður í því sem grín ber kannski að skoða það sem framlag hans til grínmenningar þjóðarinnar, að hann ber saman Morgunblaðið og DT í sjónvarpsauglýsingu og kemst að því, að DT hafi vinningin að því lestur varðar.

Kvikmyndir


Síðustu vikur hef ég brugðið mér að sjá nokkrar kvikmyndir, sem er eitt mitt besta ráð til að gleyma stað og stund. Vil ég, að í myndunum sé sterkur þráður, sem nái á manni tökum.

Ég sá hina margverðlaunuðu mynd The English Patient og þótti hún standa undir því lofi, sem á hana er borið. Í enska vikublaðinu The Spectator las ég hins vegar grein eftir hinn heimsfræga spennurithöfund Frederick Forsyth um myndina og þykir honum heldur lítið um hana. Segir, að við El Alamein hafi verið sýnd vitlaus gerð af flugvél, tvíbreitt rúm hafi verið í klaustri og söguþráðurinn sé veikburða. Þá veltir hann því fyrir sér, hvernig á því hafi staðið, að herstjórn Montgomerys hafi ákveðið að flytja bjargarlausan og dauðvona mann eftir Afríkuströnd Miðjaðarhafsins, þaðan yfir til Sikileyjar, þvert yfir hana, í gegnum Calabríu norður fyrir Napólí og Róm að víglínunni í norðurhluta Toscana-héraðs, í stað þess að senda hann með Rauða kross-skipi beint til Bretlands. Hér rek ég ekki meira af þessari forvitnilegu grein, sem minnir á, að menn geta nálgast það, sem fyrir augu þeirra ber, með ólíkum hætti. Verðalaunamyndir fara einnig meira undir smásjá áhorfaandans en aðrar.

Þá sá ég myndina Kolya, um tékkneska sellóleikarann og rússneska drenginn. Þar er svo margt sagt með skemmtilegum en einföldum hætti, að með ólíkindum er. Að geta með þessum einstæða hætti til dæmis brugðið upp andrúmsloftinu í kringum hrun sovéska heimsyfirráðakerfisins er snilldarbragð.

Að minnsta kosti tvær myndir eru nú til sýninga hér, sem lýsa baráttunni á Írlandi og hef ég séð aðra, The Devil's Own. Átti ég von á meiru miðað við það veður, sem gert hefur verið vegna myndarinnar og að þrjú kvikmyndahús sýna hana samtímis.