23.3.1997

Mörg lagafrumvörp - sjómannanám - ráðherrabensín

Samkvæmt þingsköpum ber að leggja frumvörp fram fyrir 1. apríl ár hvert til að þau geti hlotið afgreiðslu á viðkomandi þingi. Nú hefur verið samþykkt vegna páskanna, að þessi dagsetning sé 4. apríl og verður að hafa skráð frumvörp í þar til gerða skrá Alþingis fyrir miðnætti þann dag til að mál geti hlotið afgreiðslu á þingi í vor.

Af sjálfu leiðir að þetta kallar á nokkra vinnu í ráðuneytum, því að þar eins og annars staðar hneigjast menn til þess að nýta sér allan þann tíma, sem þeir hafa til að vinna verk sín. Gangur stjórnarfrumvarpa er sá, að þau þarf að fara með fyrir ríkisstjórn, fallist hún á að mál gangi þaðan til þingflokka stjórnarflokkanna, er frumvörpum vísað þangað, sé það samþykkt í þingflokkunum að mál fari fyrir Alþingi, þarf að leita formlegs, skriflegs samþykkis forseta Íslands fyrir framlagningunni, síðan þarf að skrá málið á Alþingi, prenta það og dreifa til þingmanna.

Þau eru því mörg handtökin, sem þarf að vinna, eftir að lagatextinn hefur verið saminn, yfirfarinn og ræddur ásamt greinargerð í ráðuneytum, þar til málið sér dagsins ljós á Alþingi. Síðan ræðst það að sjálfsögðu af mörgu, hvaða örlög málin fá í þingsalnum eða nefndum þingsins, en segja má, að nákvæmasta og efnislegasta yfirferð yfir mál séu í þingnefndunum. Þær leita umsagna frá aðilum, sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta í hverju máli, fara yfir skriflegar athugasemdir sem berast og kalla sérfræðinga á sinn fund. Þótti mér sem þingmanni mest um vert að taka þátt í nefndarstörfunum, því að þar var brugðið bestu ljósi á þau álitaefni, sem hljóta að vakna við hverja athugun á lagafrumvarpi. Þessi þáttur þingstarfanna fer hins vegar fram fyrir luktum dyrum, af skiljanlegum ástæðum frá mínum bæjardyrum séð, og gleyma menn honum oft, þegar þeir ræða um störf þingmanna eða býsnast yfir því, að þeir sitji ekki öllum stundum í þingsalnum. Þá gleymist oft í slíku tali, að alþjóðlegar skyldur þingmanna aukast jafnt og þétt og þeim ber að sinna eins og öðru, sem menn eru kjörnir til.

Í menntamálaráðuneytinu höfum við verið að leggja lokahönd á mörg lagafrumvörp undanfarna daga. Þar má nefna lagabálka, sem þegar eru til meðferðar á þingi um almenningsbókasöfn og bókasafnssjóð höfunda. Einnig er lokið endurskoðun á íþróttalögum og hefur frumvarp að nýjum íþróttalögum verið samþykkt til framlagningar í þingflokki sjálfstæðismanna, en ég vil leggja það fram til kynningar nú í vor, tel ég, að fleiri en eitt þing eða nokkrar vikur á vorþingi þurfi til að brjóta málið til mergjar. Þá hef ég lagt frumvarp til laga um háskóla fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar. Einnig breytingar á þjóðminjalögum og um skýrari reglur um skoðun og mat á því, hvað telst ofbeldisefni í kvikmyndum. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt breytingar, sem lögfesta starfsemi Örnefnastofnunar og tryggja betur úrskurðarvald um örnefni, ef ágreiningur er um slík mál. Loks hafa málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna og breytingar á lögum hans verið ofarlega á baugi og hef ég margsinnis lýst yfir því, að ég muni búa þannig um hnúta, að Alþingi geti tekið afstöðu til málsins nú í vor.

Hið sama má segja um lagafrumvörp og önnur málefni, sem falla undir verksvið okkar stjórnmálamannanna, að aldrei er að vita, hvað af því berst til almennings. Þar eigum við allt undir áhuga fjölmiðlamanna. Er ég þeirrar skoðunar, að fjarlægð þeirra frá stjórnmálaflokkunum valdi sívaxandi þekkingarleysi blaðamanna á því, hvað hæst ber í stjórnmála- og löggjafarstarfi á hverjum tíma. Raunar koma fjölmiðlamenn hvergi að efnislegum umræðum um þingmál, eftir að þingfréttir urðu jafnlosaralegar og nú. Þetta veldur því, að almenningi er ekki veitt nein haldgóð fjölmiðlaþjónusta um löggjafarmálefni. Það eru aðeins ágreiningsmál, sem fara í fjölmiðlaljósið, og þá meðan þau eru ágreiningsefni, ef lausn finnst er oft lítið eða ekkert gert með hana.

Í síðustu viku voru teknar ákvarðanir í menntamálaráðuneytinu um tilhögun á sjómannanámi með nýrri námskrá og verkaskiptingu milli framhaldsskóla. Hefur lengi verið á döfinni að stokka sjómannanámið upp og laga það að nýjum kröfum. Hafa margar nefndir komið að málinu og fjölmiðlar hafa vakið rækilega athygli á því, þegar um það hefur verið deilt. Ég hef ekki orðið var við eins mikla umræðu nú, þegar langþráðar ákvarðanir hafa verið teknar. Skiptir þó ekki minna máli að kynna nýjungar fyrir nemendum, sem hyggja á þetta mikilvæga nám, en segja frá ágreiningi um leiðir til að efla það. Menntamálaráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu um málið.

Í aðalfréttatíma sjónvarpsins var á föstudagskvöld 21. mars birt mynd af hvítum jeppa, sem forsætisráðherra hefur á leigu, með þeirri frásögn, að vegna verkfalls væri bíll ráðherrans orðinn bensínlaus, jeppinn hefði verið leigður og með honum réttur til bensíns á bílaleigunni. Enginn var borinn fyrir þessari frétt, enda líklega erfitt að fá einhvern til að staðfesta sannleiksgildi hennar. Forsætisráðherra hefur oft í vetur verið á leigujeppa til að hlífa sínum venjulega bíl á vetrarferðum, sem hann þarf að fara. Þess vegna ætti engum, sem til þekkir að detta í hug, að hann væri að taka bíl á leigu núnan vegna verkfallsins eða skorts á bensíni. Í einhverju blaði, líklega Degi-Tímanum, var fyrirsögn þess efnis, að ráðherrabílum hefði verið neitað um undanþágu frá bensínsölubanni í verkfalli. Hver neitaði hverjum? spyr ég, því að ég veit ekki til þess að nokkur fyrirspurn hafi verið gerð um þetta mál til einhverrar undanþágunefndar verkfallsmanna. Báðar þessar fréttir sýna mér, að einhverjum þykir það sérstakur tilgangur þessa bensínverkfalls að koma í veg fyrir, að ráðherrar geti notað opinber ökutæki sín. Heldur er það fáfengilegt markmið, því að okkur er ekki meiri eða minni vandi á höndum en öðrum borgurum hér á verkfallssvæðinu, sem þurfa að laga sig að þessum úreltu aðstæðum, sem ganga þvert á allar skynsamlegar leiðir til að bæta kjör sín.