16.3.1997

Utanríkismálaumræður - LÍN

Í nokkra áratugi hef ég tekið að mér að ræða um utanríkismál í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, sem ég tel raunar meðal merkustu þátta í flokksstarfinu. Þetta gerði ég að kvöldi mánudagsins 10. mars. Lýsti ég meðal annars þeirri skoðun minni, að nú skorti mjög á efnislegar umræður um íslensk utanríkismál. Á meðan deilt var um aðildina að NATO og dvöl varnarliðsins þurftu stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn að minnsta kosti af og til að setja sig inn í þessi mál frá íslenskum sjónarhóli. Inn í þær umræður blönduðust almennar umræður um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Á meðan pólarnir voru skýrir í austri og vestri var auðveldara en nú að taka afstöðu og skipa sér í fylkingar, hins vegar töldu menn meira í húfi en nú, ef eitthvað færi úrskeiðis og grípa þyfti til þeirra herja, sem stóðu gráir fyrir járnum hvor andspænis öðrum.

Við þurfum ekki síður nú en þá að skilgreina stöðu okkar í heiminum bæði með öryggi þjóðarinnar í huga og hvernig við viljum koma ár okkar sem best fyrir borð. Um helgina voru fréttir um það, að Boris Jeltsín Rússlandsforseti hefði sagt í finnsku blaði, að Rússar myndu aldrei þola að ríki við landamæri þeirra gengi í NATO. Þetta hlýtur að vekja gamlar og óskemmtilegar minningar hjá Finnum. Þeir voru fljótir að ganga í Evrópusambandið eftir að Sovétríkin hrundu, vildu nýta sér tækifærið, Finnar hafa ekki drgið saman útgjöld til varnarmála, þótt efnahagur þeirra hafi beðið mikið áfalla við það að Sovétviðskiptin hrundu.

Viðhorf okkar Íslendinga til alþjóðasamstarfs hefur gjörbreyst á undaskömmum tíma. Það eitt kallar á endurmat á ýmsum forsendum í umræðum um utanríkismálin og stefnumörkun. Fyrir 20 árum eða svo töldu menn af pólitískum ástæðum nauðsynlegt, að Íslendingar ættu meirihluta í Járnblendifélaginu. Hefðu efnahagslegar forsendur ráðið, hefði niðurstaðan orðið sú, að best væri, að verksmiðjan yrði alfarið í eigu útlendinga eins og Ísal. Nú þegar meirihlutaeignin hverfur úr höndum okkar, vekur það engar deilur.

Þetta dæmi nefni ég til marks um það, að við getum rætt um alþjóðaþátttöku án þess að glíma við fordóma, sem áður leiddu okkur inn á villigötur. Raunar tel ég, að þeir menn, sem nú tala eins og það að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu sé brýnasta viðfangsefnið við mótun íslenskrar utanríkisstefnu séu að leiða okkur inn á villigötur. Tækifærið til aðildar um nokkurt árabil rann okkur úr greipum á árinu 1993. ESB er ekkert að hugsa um að opna aðildardyr sínar að nýju fyrr en eftir 5 til 7 ár og enginn veit nú hvaða kjör nýjum aðilum bjóðast. Þeir, sem vilja láta taka sig alvarlega í umræðum um íslensk utanríkismál, geta ekki talið, að þetta sé brýnasta viðfangsefni í slíkum umræðum.

Álitaefnin í utanríkismálum snúast ekki síst um umhverfisþætti eins og loftmengun, verndun sjávardýra og hvalveiðar. Ef þröngar skorður eru með lagalega binandi hætti settar við útblæstri hefur það áhrif á verð á hreinni orku eins og vatns- og gufuorku. Þessar þröngu skorður hafa einnig áhrif á ákvarðanir um smíði orkufrekra iðjuvera. Hvalveiðar án þess að allra vísindalegra og þjóðréttarlegra krafna sé gætt kynnu að valda því, að við fórnuðum meiri hagsmunum fyrir minni. Á sínum tíma var ég andvígur því, að við gengum úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, lét bóka þá afstöðu í utanríkismálanefnd Alþingis, af því að ég taldi annað illa rökstutt og byggt á þeirri óskhyggju, að fleiri þjóðir sigldu í kjölfar okkar úr ráðinu og það myndi eyðileggjast. Ekkert slíkt hefur gerst, staða okkar er verri eftir en áður að mínu mati. Fyrsta skynsamlega skrefið til að hefja hvalveiðar hefur alla tíð verið það að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið og gera það með þeim fyrirvara, að við mótmæltum banni við hvalveiðum en 1983 samþykkti Alþingi að mótmæla ekki banninu og var það einnig röng ákvörðun miðað við hagsmuni þjóðarinnar.

LÍN


Enn verð ég að segja eitt um fjölmiðlaumræður um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Er það í tilefni “fréttar", sem birtist í DV laugardaginn 15. mars eftir Sigurdór Sigurdórsson. Þar býr hann það til, að ég hafi fyrir jólin lagst gegn því, að flutt yrði frv. um LÍN. Þetta hafi ég gert vegna andstöðu minnar við samkomulag formanna stjórnarflokkanna. Sigurdór hafði að sjálfsögðu ekki fyrir því að reyna að ná sambandi við mig vegna þessarar “fréttar" og ekki virðist hann hafa lesið það, sem ég hef sagt um málið hér á þessum stað. Hefði hann gert, ætti hann að hafa áttað sig á því, að ekkert frumvarp um LÍN hefur orðið til fyrr en nú eftir áramótin og það í ferli, sem byggist meðal annars á tilliti til sjónarmiða, sem komu fram í tillögum námsmanna. Sigurdór veit ekkert um það, hvaða samkomulag var gert fyrir jól eða milli hverra. Hann hefur ekki heldur séð það, sem ég hef sagt um það, að auðvitað hljóti formenn stjórnarflokkanna að koma að því, þegar leyst er úr pólitísku ágreiningsmáli á borð við LÍN-málið, sem olli ágreiningi milli stjórnarflokkanna á síðasta kjörtímabili og í kosningabarátunni.

Ég les frétt Sigurdórs sem hreina áróðursfrétt, þar sem ekki er leitað eftir því sem sannara reynist heldur leitast við að koma illu af stað á stjórnarheimilinu.