9.3.1997

Óslólarferð - Dagsljósumræður - LÍN-frumvarpið

Sunnudaginn 2. mars flugum við Rut til Óslóar, þar sem efnt var til ráðstefnu á vegum Norðurlandaráðs um norræna menningu undir alþjóðlegum þrýstingi, auk þess sat ég ráðherrafund menntamálaráðherra Norðurlandanna síðdegis þriðjudaginn 4. mars og menningarmálaráðherranna að morgni miðvikudagsins 5. mars. Hápunkturinn fyrir okkur Íslendingana í Ósló var þó kvöldið í ráðhúsi borgarinnar 3. mars, þegar Björk tók við tónlistarverðlaunum Norðurlanda við hátíðlega athöfn.

Síðdegis á sunnudeginum sóttum við íslenska messu í Ósló, þar sem séra Jón Dalbú, prestur í Gautaborg, predikaði. Þótti okkur messan bærilega sótt, en heimamenn töldu hana fremur fámenna vegna þess að söfnuðurinn væri að ná sér eftir þorrablót kvöldið áður, þar sem um 450 manns skemmtu sér. Að kvöldi sunnudagsins efndu sendiherrahjónin í Ósló, Eiður Guðnason og kona hans Eygló, til veislu fyrir Björk og fjölskyldu hennar, sem var komin til að samfagna með henni.

Meðal ræðumanna á ráðstefnunni var Federico Mayor, forstjóri UNESCO, og var ánægjulegt að hitta hann og aðstoðarmenn hans aftur og rifja upp minningar úr heimsókn þeirra hingað til lands í apríl 1996, en frásögn af henni má lesa í vikupistli mínum frá þeim tíma hér á netinu. Minntist Mayor þess, þegar ég sýndi honum veraldarvefinn á tölvunni í skrifstofu minni og bað hann síðan að árita ljóð eftir hann, sem var að finna á netinu og ég prentaði út á staðnum. Það kom í minn hlut að hefja almennar umræður um dagskrárliðinn um varðveislu tungunnar undir hinum alþjóðlega þrýstingi.

Daginn eftir var Vigdís Finnbogadóttir í hópi frummælanda á ráðstefnunni, sem fór fram í sal Stórþingsins. Í hádeginu miðvikudaginn 5. mars vorum við Vigdís saman í Rotary-klúbbi Eiðs Guðnasonar, Gimle-klúbbnum í Ósló. Eftir að Vigdís hafði flutt ræðu sátum við fyrir svörum um íslensk málefni. Lars Roar Langslet, fyrrverandi menningarmálaráðherra og þingmaður, sem er nú velmetinn rithöfundur í Noregi, er forseti þessa Rotary-klúbbs á þessu ári, en hann þekki ég frá því að við hittumst fyrst 1970 og hafa leiðir okkar legið oft saman síðan. Ivar Eskeland, sem var frysti forstöðumaður Norræna hússins, er einnig í klúbbnum og sat þennan ánægjulega fund.

Það var komið vorveður á okkar mælikvarða í Ósló, þess vegna voru það nokkur viðbrigði að lenda í skafrenningi og kulda í Keflavík. Var raunar svo hvasst, að vélin komst ekki upp að flugstöðinni og varð að selflytja okkur í rútu upp að byggingunni. Er ég viss um, að sumir útlendinganna hafi verið þeirrar skoðunar, að þeir hefðu lent á Norðurpólnum. Einn þeirra var svo óheppinn, að stormurinn hrifsaði af honum gleraugun um leið og hann kom út úr vélinni.

Dagsljósumræður

Í pistli dagsettum 17. febrúar sl. sagði ég frá því, að vegna ferðar til Grænlands hefði ég ekki þegið boð Stúdentaráðs Háskóla Íslands þann sama dag um að taka þátt í fjölmiðlaleik um kröpp kjör námsmanna og samskipti þeirra við Lánasjóð íslenskra námsmanna og Þjóðarbókhlöðuna. Hefði ég hins vegar séð það í Dagljósi þetta sama kvöld, að eftirherma hefði verið fengin til að koma í minn stað, taldi ég þetta dómgreindarleysi og rökstuddi þá skoðun með þessum hætti með vísan til þess, að á sama tíma og verið var að sýna þennan Dagsljósþátt, var Larry King að ræða við Kay Graham, útgefanda Washington Post, í CNN:

“Á sínum tíma varð Washington Post fyrir gífurlegu áfalli, þegar það var upplýst, að blaðamaður hafði skáldað sögu um örlög ungrar stúlku, sem átti að hafa ánetjast fíkniefnum. Var það ekki síst vegna þeirrar virðingar, sem kona eins og Kay Graham nýtur, að blaðinu tókst að koma í veg fyrir varanlegan trúnaðarbrest. Þegar hún var spurð að því hjá Larry King, hvað henni þætti um Clinton-hjónin í Hvíta húsinu, sagðist hún ekki vilja svara því, þar sem blað hennar væri á hverjum einasta degi að fella dóma um forsetann. Hún vildi ekki taka þá áhættu að veikja traustið á blaðinu með einakummælum sínum. Traust á fjölmiðlum byggist ekki aðeins á því, sem menn lesa, heyra eða sjá í þeim heldur og ekki síst af því hvernig starfsmenn þeirra standa að viðkvæmum störfum sínum. og hvaða trausts þeir njóta sjálfir.

Hér virðast menn hins vegar ekki lengur gera meiri kröfur í þáttum RÚV, sem á væntanlega að taka alvarlega, en svo að þeir sviðsetja með eftirhermum einhverja atburði, sem aldrei hafa gerst og vilja láta líta svo út, sem um raunveruleika sé að ræða."

Síðan hefur þetta atvik verið nokkuð til umræðu og var það meðal annars rætt í útvarpsráði, sem komst einróma að þeirri niðurstöðu, að ekki hafi verið rétt að málum staðið. Verður sú afstaða ráðsins til þess, að í Degi-Tímanum 8. mars ritar Stefán Jón Hafstein leiðara og ræðst að ráðinu og skammar það fyrir að mótmæla því, að gert sé grín að stjórnmálamanni. Þetta sannar enn einu sinni fyrir mér, að menn vita aldrei fyrirfram í hvaða farveg opinberar umræður falla. Raunar hafði Össur Skarphéðinsson komist að svipaðri niðurstöðu í Alþýðublaðinu nokkru fyrr.

Til að leiðrétta misskilning þessara ágætu ritstjóra vil ég segja það afdráttarlaust, að ég hef síður en svo á móti því, að gert sé grín að mér eða örðum stjórnmálamönnum opinberlega. Er það hluti af uppeldi mínu að hafa ánægju af slíku gríni og minnist ég margra ánægjustunda af héraðsmótum og öðrum mannamótum fyrr á árum, þegar ég fór þangað með föður mínum, sem var vinsælt viðfangsefni eftirherma. Er mér sérstaklega minnisstætt hve Karl Guðmundsson hermdi vel eftir.

Nú hefur verið upplýst, að það var ekki Dagsljós, sem stóð að því að fá eftirhermu í minn stað heldur Stúdentaráð Háskóla Íslands. Þetta var síður en svo gert til að grínast að einum eða neinum, heldur var hér um pólitíska aðgerð að ræða vegna kosninga í Háskóla Íslands. Ég ítreka aðeins það, sem ég sagði hér 17. febrúar um mikilvægi þess fyrir fjölmiðla, að þeir glati ekki trausti. Af því sem ég hef lesið um vandaða fréttamennsku er það niðurstaða mín, að fyrir alvörufjölmiðla beri að sýna mikla gát, þegar að því kemur að blanda saman fréttum og skemmtiþáttum. Innan þátta verði að vera skýr skil milli þess, sem er raunverulegt og hins, sem er tilbúið, og það eigi alls ekki að blanda slíku saman. Ég dreg þá ályktun af samhljóða niðurstöðu útvarpsráðs, að þar hafi verið tekin afstaða á þessari forsendu, en alls ekki til þess, hvort gera megi grín af stjórnmálamönnum eða ekki. Þess vegna er það rangtúlkun hjá Stefáni Jóni Hafstein, þegar hann dregur þá ályktun, að útvarpsráð hafi verið að fjalla um gamanþætti, nema skoða eigi leiðara hans sem grín.

LÍN-frumvarpið

Alþýðublaðið birti um það forsíðufrétt föstudaginn 7. mars, að Stúdentaráð biði enn eftir breytingum á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) og ráðherrar og þingmenn Framsóknar væru ekki aðeins að svíkja námsmenn heldur alla sína flokksmenn að sögn Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, fráfarandi formaður Stúdentaráðs, sem bætir því við, að það sé mér að kenna, að frumvarpið sé ekki komið fram og segir í viðtali við blaðið, að það sé verið “að þvinga Björn Bjarnason upp í pontu, til að mæla fyrir frumvarpinu, og með samtímagreiðslunum inni." Þá segir Vilhjálmur einnig: “Við vitum ekki hvort frumvarpið er tilbúið. Málið virðist standa þversum í hálsinum á Birni." Þá er það enn haft eftir Vilhjálmi, að ég hafi samið eitt frumvarp og annað hafi verið samið að undirlagi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Enn segir Vilhjálmur: “Það er erfitt að meta hvað er satt og hvað er logið af því sem við heyrum." Síðan kemur þetta gullkorn frá Vilhjálmi: “Við höfum setið á strák okkar, í von um að málið kæmi fram það tímanlega að hægt yrði að klára það á þessu þingi, en það eru ekki margir dagar til stefnu eigi það að nást, við bíðum ekki öllu lengur. Við munum beina spjótum okkar að Framsóknarflokknum, það er mikið í húfi að málið klárist á þessu þingi, ef það gerist ekki, nást breytingar ekki fyrir næsta skólaár."

Orðatiltækið “sitja á strák sínum" er skýrt á þann veg, að menn stilli sig um að gera prakkarastrik; haldi aftur af sér.

Ég hallast að því, að forsíðufréttin í Alþýðublaðinu sýni, að ritstjóri þess á stundum erfitt með að sitja á strák sínum, því að eins og lesendur sjá, hefur Vilhjálmur H. Vilhjálmsson enga hugmynd um það, sem hann er að segja og þess vegna er hann ekki sjálfum sér samkvæmur í frásögn sinni.

Hinn 6. janúar síðastliðinn leysti ég nefnd frá störfum, sem hafði frá því í águst 1995 leitast við að ná samkomulagi um breytingar á lögunum um LÍN. Nokkrum dögum síðar barst mér bréf frá fulltrúa námsmannahreyfinganna í nefndinni, þar sem farið var fram á, að þær fengju að koma tillögum sínum á framfæri áður en frumvarpið yrði samið. Gaf ég þeim frest til 6. febrúar til að skila tillögum sínum. Bárust þær í mörgum liðum þann dag. Síðan hefur verið unnið að því að semja lagatextann í menntamálaráðuneytinu og hann hefur lögum samkvæmt verið kynntur fjármálaráðuneytinu til að fá mat þess á því, hver yrði kostnaður ríkissjóðs, ef frumvarpið yrði að lögum. Hér er um tæknilega sérfræðivinnu að ræða um flókið mál. Þegar henni er lokið verður málið kynnt í ríkisstjórn og síðan í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Frumvarpstextinn tekur mið af samkomulagi stjórnarflokkanna, tillögum námsmanna og því markmiði, að færa ákvæði, sem nú eru í reglugerð og úthlutunarreglum inn í lagatexta í samræmi við almennar kröfur um að löggjafinn veiti framkvæmdarvaldinu ekki of víðtækar heimildir.

Hver verður framgangur málsins, eftir að það kemur fram, ræðst meðal annars af því, hvernig við því verður brugðist innan og utan þings. Vil ég ekki spá neinu um það, þótt margir hafi á vörunum, að tími sé til þess kominn að ná sátt um málefni LÍN. Sátt byggist aldrei á því, að allir nái því fram, sem þeir ýtrast krefjast