1.3.1997

Þingvallaferð - jafningjafræðsla

Í dag, laugardag 1. mars, fór ég til Þingvalla og sat þar hádegisverðarboð forsætisráðherrahjónanna til heiðurs Lars Emil Johansen, formanni grænlensku landstjórnarinnar, sem hefur verið hér í opinberri heimsókn. Vorum við Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og ritstjóri Alþýðublaðsins, í samfloti, en báðir eigum við sæti í Þingvallanefnd og nutum þess vegna þess heiðurs og ánægju að fara til Þingvalla í þessum erindagjörðum þennan sólfagra og bjarta vetrardag. Hef ég aldrei verið á Þingvöllum í jafnstilltu vetrarveðri - það hreyfðist ekki hár á höfði og hvít mjöllin lá yfir öllu auk þess sem vatnið og Öxará eru undir ís. Er ánægjulegt og fróðlegt að fara með Össuri um þessar slóðir, því að rannsóknir hans á urriðanum í vatninu, sem birtust í bók nú fyrir jólin, hafa gert hann fróðari um margt annað í tengslum við Þingvallavatn.

Við fórum í Þingvallakirkju með Lars Emil og fylgdarliði hans og hlýddum á sr. Heimi flytja honum ávarp og fróðleik um sögu og helgi Þingvalla. Fór ekki fram hjá neinum að hinn grænlenski gestur var djúpt snortinn og flutti hann þakkarræðu til sr. Heimis og lýsti tilfinningum sínum. Síðan tók við skemmtilegur hádegisverður í bústað fosætisráðherra.

Eftir komuna í bæinn skruppum við Rut í Hitt húsið, þar sem því var fagnað, að eitt ár var liðið frá því að Jafningjafræðsla framhaldsskólanema hóf starfsemi sína en Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, er þar í forsvari með framhaldsskólanemum. Í afmæliskveðju, sem ég sendi forráðamönnum Jafningjafræðslunnar, sagði ég, að fátt hefði mér þótt vænna um í störfum mínum sem ráðherra en að geta lagt því lið, að þessi starfsemi kæmist á legg. Er ég sannfærður um, að á þessum vettvangi hefur verið unnið árangursríkt starf til að bægja mörgu ungmenni frá hættu fíkniefnanna.

Eftir stutta heimsókn í Hitt húsið fórum við Rut á listsýningar í Söðlakoti, þar sem Kristín Geirsdóttir sýndi ristur, þaðan í Galleri Ingólfsstræti 8, þar sem Kristján Guðmundsson er með sýningu og loks í Gerðarsafn, þar sem voru sýningar eftir Helga Gíslason, Ásdísi Sigurþórsdóttur og Sólveigu Helgu Jónasdóttur.

Síðan fórum við í Valhöll, þar sem haldið var upp á 60 ára afmæli Hvatar.

Það var því nóg að gera þennan laugardag og á morgun höldum við til Ósló, þar sem efnt er til ráðstefnu um menningarmál á vegum Norðurlandaráðs og þar verða Björku Guðmundsdóttur afhent tónlistarverðlaun Norðurlanda á mánudaginn