23.2.1997

Menntamálaumræður - Alþýðublaðið - Logaland - Akureyri

Umræður um menntamál halda áfram. Þriðjudaginn 18. febrúar lagði ég fram nýtt efni í þær, þegar ég efndi til blaðamannafundar með Tryggva Þór Herbertssyni, forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, til að kynna greinargerð Tryggva Þórs um hagrænt gildi menntunar. Í sjálfu sér kemur niðurstaðan ekki á óvart: Betri menntun skilar auknum hagvexti. Aukist menntunarstig þjóðarinnar hækka tekjur hennar og hún styrkir samkeppnisstöðu sína. Fjárfesting í menntun er arðbær fyrir þjóðarbúið en hún er ekki endilega arðbær fyrir einstaklinga, þess vegna þarf að launa menn í samræmi við þá menntun, sem þeir afla sér, að öðrum kosti hvetjum við einstaklinga ekki nógu markvisst til að menntast.

Sídegis fimmtudaginn 20. febrúar tók ég þátt í umræðum í sjónvarpssal fyrir unglingaþáttinn Ó-ið, þar rætt var um innra starf í framhaldsskólunum og vikið að því, hvernig nemendur líta á það. Kom mér á óvart, hve nemendur leggja mikla áherslu á, að réttur kennara til starfa sé ekki verndaður um of, því að nemendur eigi ekki skilið að sitja endalaust uppi með óhæfa kennara, sem starfi aðeins í skjórli æviráðningar.

Þetta sama fimmtudagskvöld fór ég á almennan fund um menntamál á vegum Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi. Þar voru líflegar umræður, því að hið ánægjulega við fundi um mennta- og skólamál er, að allir hafa skoðun á málinu og skólastarf skiptir alla máli.

Síðdegis föstudaginn 21. febrúar var ég um 3 tíma í sjónvarpssal vegna upptöku á umræðuþætti um menntamál, sem sjónvarpað var síðdegis sunnudaginn 23. febrúar. Ég sá ekki útsendinguna. Margir lögðu ýmislegt gott af mörkum til umræðnanna, vonandi hafa þær upplýst einhverja, þótt kannski kæmi þar ekki mikið nýtt fram fyrir kunnáttumenn. Eins og jafnan um þætti af þessu tagi snúast þeir að verulegu leyti um aukinn opinber útgjöld, þar sem ráðherranum er stillt upp við vegg eins og hann hafi frjálsar hendur til að fara ofan í vasa skattborgaranna en vilji ekki gera það. Jafnframt er látið í veðri vaka, að allur vandinn leysist, ef laun kennara hækki. Ástæðulaust er að gera lítið úr afli peninga í þessu tilliti, en það er líka unnt að gera betur án þess að eyða meiri fjármunum.

Alþýðublaðið


Össur Skarphéðinsson hefur tekið til við að setja svip sinn á Alþýðublaðið. Er augljóst, að hann ætlar sér að láta blaðið endurspegla málflutning sinn og áhugamál á Alþingi. Sá ég þetta á forsíðufrétt, sem endurómaði boðskap Össurar í umræðum um frumvarp til laga um Bókasafnsjóð rithöfunda, sem ég kynnti með framsöguræðu á Alþingi þriðjudaginn 18. febrúar. Þá taldi Össur alltof naumt skammtað að hækka fjárveitingar í þessu skyni um tæpar 5 milljónir króna úr, rúmlega 12 í 17 m.kr. Hringir Össur síðan í Ingibjörgu Haraldsdóttur, formann Rithöfundasambands Íslands, sem tekur undir með ritstjóranum og segir á forsíðu Alþýðublaðsins, að þessi hækkun á útgjöldum ríkisisins um 5 m.kr. sé alltof lítil.

Vikupistill minn frá 17. febrúar vakti nokkrar umræður í fjölmiðlum vegna gagnrýni minnar á þá aðferð, sem sjónvarpið og hljóðvarp ríkisins beittu í tveimur tilvikum, þar sem ég átti í hlut. Össur Skarphéðinsson skrifar leiðara í Alþýðublaðið og byggir málflutning sinn á því, að úr því að ég gegni starfi menntamálaráðherra megi ég ekki lýsa skoðun minni á einstökum þáttum í Ríkisútvarpinu á heimasíðu minni. Hann gengur þannig í björg með gömlu flokkssystkinum sínum í Alþýðubandalaginu, þeim Guðrúnu Helgadóttur og Svavari Gestssyni, sem bæði hafa viljað leggja stein í götu þess, að ég notaði þennan ágæta miðil, sem tölvan er, til að nýta mér þau borgararéttindi, sem felast í málfrelsi. Í því efni hefur ráðherrastarfið á engan hátt þau áhrif, að ég megi ekki viðra skoðanir mínar. Ætla ég ekki að láta þessa þrjá ríkis- og forsjársinna segja mér fyrir verkum í því efni. Þá er það alrangt hjá Össuri, að í þessum umrædda pistli hafi ég í fyrsta sinn sest í stól fjölmiðlagagnrýnandans, þetta hefur þvert á móti verið eitt af þeim efnum, sem setja svip á þessa vikupistla mína frá upphafi.

Ég er einn þeirra, sem myndi sakna þess, ef Alþýðublaðið hætti að koma út. Vona ég, að Össuri takist að standa þannig að málum, að blaðið lifi áfram.

Logaland


Um hádegisbilið laugardaginn 22. febrúar hélt ég upp í Borgarfjörð til að taka þar þátt í tveggja tíma umræðufundi í Logalandi um skipulagsmál í hreppunum sunnan Hvítár að Skarðsheiði. Var sérstaklega rætt um menningu og menntun og þó einkum framtíð skólahalds í Reykholti.

Skömmu eftir að ég varð ráðherra í apríl 1995 kom til minna kasta að taka á skólamálum í Reykholti, sem voru í nokkru óefni. Var þá ákveðið að starfrækja þar framhaldsskóla í tvö í tilraunaskyni undir forsjá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Skyldi gerð úttekt á skólastarfinu fyrir lok tímabilsins til að ákveða framhald þess. Hagsýsla ríkisins hefur unnið að þessari úttekt og er meginniðurstaða hennar sú, að ekki séu forsendur fyrir óbreyttum skólarekstri í Reykholti. Skýrði ég frá þessu á fundinum í Logalandi og ræddi framhaldið við heimamenn.

Ég lýsti þeirri hugmynd minni, að hugað yrði að menntastofnun í Reykholti á háskólastigi, sem tengdist með einum eða öðrum hætti nafni Snorra Sturlusonar og höfðaði jafnt til fræðimanna á Norðurlöndunum og Evrópu. Hlaut þessi hugmynd góðar viðtökur á Logalandsfundinum og vænti ég þess, að heimamenn hugi nú að málinu af sinni hálfu og ræði síðan við mig um framhaldið.

Akureyri


Sunnudagsmorguninn 23. febrúar flaug ég norður til Akureyrar til að undirrita með Jakobi Björnssyni bæjarstjóra samkomulag um uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar á Akureyri. Er ætlunin samkvæmt því, að ríkið leggi 50 milljónir króna og Akureyrarbær 100 milljónir króna 1998-2002 til framkvæmda fyrir miðstöðina.

Eftir athöfnina og hádegisverð var mér boðið upp í Hlíðarfjall og fórum við með troðara upp allt fjallið og tókum þar að auki þátt í afhendingu verðlauna á svigmóti unglinga í fjallinu. Kom ég síðan heim með kaffivélinni.