17.2.1997

Grænlandsferð - gervimennska í RÚV - ballett

Laugardaginn 15. febrúar hélt ég um tíuleytið að morgni dags til Grænlands ásamt nokkrum hópi manna til að taka þátt í hátíðarhöldum í Nuuk, höfuðborg landsins, vegna þess að þar var þann sama dag verið að opna Grænlandshúsið, nýtt menningarsetur, sem að hluta er kostað af Norðurlöndunum öllum. Sinfóníuhljómsveit Íslands hafði haldið þangað á fimmtudagskvöld og var Rut í þeim hópi sem aukamanneskja.

Við sem héldum héðan að morgni laugardagsins vorum í leiguvél frá Íslandsflugi og tók ferðin til Nuuk tæplega þrjá og hálfan tíma, lendum við þar um klukkan 10. 45 á grænlenskan tíma en Grænlandshúsið var opnað klukkan 13.00 og gegndi Sinfóníuhljómsveit okkar mikilvægu hlutverki við þá hátíðlegu athöfn.

Þegar lagt var af stað, bentu veðurhorfur í Nuuk til þess, að ef til vill yrði ekki unnt að lenda þar vegna éljagangs. Yrði völlurinn lokaður var ætlun okkar að fara til Syðri Straumfjarðar í 45 mínútna flugfjarlægð frá Nuuk og bíða þar af okkur veður. Sinfóníufólkið flaug einmitt með leiguþotu Flugleiða til S-Straumfjarðar, en svo stórar vélar geta ekki lent í Nuuk. Var hljómsveitarfólkið ferjað með minni vélum til Nuuk. Komst fyrsti hópurinn strax um kvöldið en helmingur hljómsveitarinnar eða svo gisti í S-Straumfirði. Föstudagurinn var ekki þægilegur til flugs auk þess sem ein af vélum Grænlandsflugs bilaði og þess vegna tókst selflutningur frá S-Straumfirði til Nuuk ekki vel þann dag og heyrðum við ýmsa gesti í Nuuk lýsa langri bið og nokkrum hrakningum. Það var heldur dimmt yfir þegar við komum til Nuuk, en völlurinn þar er stuttur og hangir utan í fjallshlíð, ef má orða það svo. Við sáum niður á sjóinn þegar vélin nálgaðist Nuuk og hélt út fyrir tangann, þar sem bærinn er og sveigði þaðan upp að fjallinu og skreið heilu og höldnu inn á völlinn.

Mikið var um dýrðir í Nuuk þegar Katuaq, Grænlandshúsið, var vígt. Margar ræður fluttar og listamenn komu fram. Má segja, að vígsluhátíðin hafi staðið frá því kl, 13.00 fram að miðnætti, þegar efnt var til flugeldasýningar. Athyglisvert var, að annars vegar komu fram norrænir menn og afhentu húsið formlega stjórn þess og hins vegar fólk af innúíta-uppruna, eða af ættboga eskimóa, sem höfðuðu til þess þáttar í menningu Grænlendinga. Er greinilegt að hann er sífellt að styrkjast og frá Nuuk horfa menn ekki síður vestur um haf en austur yfir innlandsísinn, eins og þeir kalla hinn mikla Grænlandsjökul.

Meðal gesta við hátíðina voru menningarmálaráðherrar Danmerkur, Færeyja og Álandseyja auk mín. Sunndaginn 16. febrúar bauð hinn grænlenski starfsbróðir okkar í ævintýralega vélsleðaferð um nágrenni Nuuk. Síðan var hádegisverðarfundur og þá kynnisferð um bæinn undir góðri leiðsögn, meðal annars farið í Dómkirkjuna og sunginn grænlenskur sálur við lagið Hærra minn guð til þín.

Að kvöldi sunnudagsins efndi Sinfóníuhljómsveit Íslands til hátíðartónleika í Katuaq en auk hennar komu þar fram fjórir ungir söngvarar, sem allir eru við nám í Kaupamannahöfn. Var tónleikunum eins og dagskránni daginn áður sjónvarpað og útvarpað beint um allt Grænland, hefur útvarpið þar aldrei staðið að jafnmiklu verkefni og gekk það allt að óskum. Tónleikarnir heppnuðust afarvel og leyndu áheyrendur ekki hrifningu sinni. Er hljómsveitin sannarlega mikils metin í Nuuk en þangað kom hún áður fyrir tíu árum og lék þá í íþróttahúsi. Lá það alltaf ljóst fyrir, að enga hljómsveit aðra vildu menn til Nuuk á þennan mikla og kannski mesta menningarviðburð í allri sögu Grænlands.

Í raun er ekki unnt að gera sér í hugarlund hvílík umskipti verða á Grænlandi með þessu nýja húsi. Þar hefur ekki hingað til verið unnt að horfa á kvikmyndir við hæfilegar aðstæður, hvað þá heldur efna til tónleika, leiksýninga eða sýna myndlist.

Þegar við héldum heimleiðis frá Nuuk í morgun, mánudag 12. febrúar, var þar 22 stiga frost og tók nokkurn tíma að hita upp flugvélina, sem hafði beðið á flugvellinum. Hún fór þó örugglega af stað klukkan 9.45 að staðartíma og hér lentum við rúmlega 16.00 að okkar tíma eftir þægilegt flug. Hinn kosturinn hefði verið að fara frá Nuuk til S-Straumfjarðar, þaðan til Kaupmannahafnar og heim daginn eftir eða vera fram á miðvikudagskvöld og fljúga heim með sinfóníufólkinu.

Þessi ferð til Grænlands varð meðal annars til þess, að ég ákvað að þekkjast ekki boð Stúdentaráðs Háskóla Íslands um að gerast námsmaður í einn dag eins og það var kallað og var greinilega tengt stúdentaráðskosningunum, sem fram fara í vikunni. Þar sem ég sit heima hjá mér og lít í þáttinn Dagsljós þetta mánudagskvöld sé ég, að RÚV hefur tekið af mér ómakið og fengið eftirhermu, það er mann og líklega viðurkenndan húmorista, sem hefur tekjur af því að þykja fyndinn á annarra kostnað, til að setjast í minn stað í þjáningarstól námsmannsins og síðan taka opinberir embættismenn ásamt tveimur alþingismönnum þátt í einhverjum leikþætti í kringum raunalistann, sem saminn hafði verið á vegum Stúdentaráðs. Ég gaf mér að vísu ekki tíma til að horfa á þennan sérkennilega fjölmiðlaleik, því að ég vildi ekki missa af alvörufréttamennsku á CNN, þar sem Larry King var að ræða við hina merku konu Kay Graham, útgefanda Washington Post, sem hefur nýlega gefið út ævisögu sína og fengið feikilega góðar viðtökur í Bandaríkjunum.

Á sínum tíma varð Washington Post fyrir gífurlegu áfalli, þegar það var upplýst, að blaðamaður hafði skáldað sögu um örlög ungs drengs, sem átti að hafa ánetjast fíkniefnum. Var það ekki síst vegna þeirrar virðingar, sem kona eins og Kay Graham nýtur, að blaðinu tókst að koma í veg fyrir varanlegan trúnaðarbrest. Þegar hún var spurð að því hjá Larry King, hvað henni þætti um Clinton-hjónin í Hvíta húsinu, sagðist hún ekki vilja svara því, þar sem blað hennar væri á hverjum einasta degi að fella dóma um forsetann. Hún vildi ekki taka þá áhættu að veikja traustið á blaðinu með einakummælum sínum. Traust á fjölmiðlum byggist ekki aðeins á því, sem menn lesa, heyra eða sjá í þeim heldur og ekki síst af því hvernig starfsmenn þeirra standa að viðkvæmum störfum sínum. og hvaða trausts þeir njóta sjálfir.

Hér virðast menn hins vegar ekki lengur gera meiri kröfur í þáttum RÚV, sem á væntanlega að taka alvarlega, en svo að þeir sviðsetja með eftirhermum einhverja atburði, sem aldrei hafa gerst og vilja láta líta svo út, sem um raunveruleika sé að ræða. Fyrir skömmu hringdi í mig maður síðdegis á laugardegi og sagði: Ég hringi í þig, af því að ég var að hlusta á þig í beinni útsendingu á Rás 2 rétt áðan. Mér brá og sagðist ekki hafa verið í útvarpinu. Svo rifðjaðist upp fyrir mér, að fimmtudaginn á undan höfðu tveir þáttargerðarmenn hringt í mig og spurt mig um afnotagjöld til RÚV. Hafði þessu símtali verið útvarpað þennan laugardag og sagði hlustandinn, sem hringdi í mig, að það hefði verið búið þannig um hnúta, að hann hefði talið um beina útsendingu að ræða - höfðu dagskrárgerðarmennirinr sett eitthvað á svið til að láta örugglega líta svo út. Leikbrögð af þessu tagi eru ekki til þess fallin að efla traust á neinum fjölmiðli, þau yrðu almennt talin til marks um dómgreindarskort.

Að kvöldi föstudagsins 14. febrúar frumsýndi Íslenski dansflokkurinn tvo nútímaballetta í Borgarleikhúsinu. Var mjög ánægjulegt að vera þar þetta kvöld, en miklar breytingar hafa orðið að undanförnu hjá dansflokknum og nýtt fólk tekið þar við stjórntaumunum. Má segja, að þetta hafi verið fyrsta stórverkefnið alfarið í þeirra höndum.