2.2.1997

Námsefni - samanburður við Singapore - háskólastigið

Í vikunni varð það meðal helstu fréttaefna, að Pétur Orri Þórðarson, skólastjóri í Hvassaleitisskóla, skýrði opinberlega frá því, að hann hefði eftir símtal við skóla í Singapore fengið sent þaðan námsefni í stærðfræði og öðrum raungreinum. Ástæðan fyrir því, að skólastjórinn sneri sér þangað er sú, að nemendur frá Singapore stóðu sig best i alþjóðlegri könnun, TIMSS, á kunnáttu í þessum greinum.

Sama dag, 29. janúar, og skólastjórinn birti grein um þetta námsefni í Morgunblaðinu kom þar önnur grein um skólakerfið í Singapore eftir Jón Diðrik Jónsson markaðsstjóra, sem er búsettur þar. Jón Diðrik sagði meðal annars:

"Það er athyglisvert að sjá að upp á síðkastið hefur stjórn Singapore gert sér grein fyrir, að það er ekki hægt að treysta á hagvöxt í gegnum lága skatta og fjárfestingar erlendra fyrirtækja, heldur verði framtíðin að byggjast á hugmyndaauðgi og frumkvæði Singapore búa. Sérstakar ráðstefnur hafa verið haldnar um hvernig hægt sé að breyta skólakerfinu til að auka áhuga og getu í listrænum greinum, félagsfræði og jafnvel sögu (námsgreinum sem voru ekki til umræðu áður)."

Pétur Orri segir meðal annars í sinni Morgunblaðsgrein:

"Grunnbækur okkar í stærðfræði eru frá árunum 1972­1977 og ekki er nóg með að þær séu orðnar gamlar heldur eru þær efnislitlar og ruglingslegar. Við samanburð á grunnbókum fyrir 1. bekk á Íslandi og í Singapore kemur í ljós að mismiklar kröfur eru gerðar til nemenda. Í grunnbók okkar er eingöngu samlagning á tölunum frá 0­5. Í grunnbókum þeirra í Singapore er samlagning og frádráttur á tölunum frá 0­100 og margföldun á tölunum 0­5 og lítils háttar deiling. Á þessu sést hver reginmunur er á þeim kröfum sem gerðar eru til nemenda á 1. skólaári þar og hér. Þessi mikli munur helst síðan í gegnum allt námsefnið.....

Eftir að hafa borið saman kennslubækurnar er ég ekki lengur í vafa um að úreltar námsbækur og styttri skólatími eru meginorsakir lélegs árangurs íslenskra nemenda í TIMSS-könnuninni."

Umræðurnar um skólamálin mörgnuðust frekar en hitt við þessar upplýsingar. Ég tel, að með sama hætti og stjórnvöld í Singapore átta sig á því, að þau þurfa að hverfa frá einsleitni í skólakerfi sínu þurfum við að átta okkur á því, að meiri kröfur leiða til betri árangurs í skólastarfi okkar.

Sjónvarpið tók við mig viðtal um þennan námsbókasamanburð við Singapore og var það sýnt að kvöldi þriðjudagsins 28. janúar. Þar kom ég því sjónarmiði á framfæri, að hér byggðist námsefni á kröfum, sem samdar væru að fyrirsögn sérfræðinga og byggðust á námskrá. Teldi ég, að þessar kröfur væru og litlar og beinlínis niðurlægjandi fyrir kennara og nemendur, að þær væru ekki meiri. Fimmtudaginn 30. janúar barst síðan inn á tölvu mína fréttatilkynning frá Kennarasambandi Íslands, sem byggist á rangfærslum á orðum mínum, ef þau eru skilin á þann veg, að ég hafi verið að vega að kennurum. Ekkert slíkt vakti fyrir mér.

Þá hef ég orðið var við, að menn skýri stöðu námsbóka í stærðfræði hér á þeirri forsendu, að hér skorti fé til útgáfu á nýjum bókum. Tel ég, að slíkar yfirlýsingar þurfi að skoða með fyrirvara, því að málið snýst ekki síður um það, hvaða kröfur menn telja, að eigi að gera til nemenda. Séu það talin uppeldisfræðileg vísindi, að íslensk skólabörn á vissum aldri megi ekki læra nema 5 tölur á einum skólavetri, og þessi vísindi ráða efni námsbókanna, þurfum við ekki að semja nýjar bækur. Þessi vísindi eru kennd við svissneska fræðimanninn Piaget, sem að vísu vill ekki kannast við, að hann hafi sett fram kenningu um það, að börnum sé unnt að skipta þannig á þroskastig eftir aldri. Það er að minnsta kosti ekki gert í heimalandi hans, Sviss, þótt menn hafi verið að gera það hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Til þessara kenninga má meðal annars rekja þau fyrirmæli, sem gefin eru af sumum, að það sé beinlínis óheppilegt að kenna fimm ára börnum að lesa.

Ég tel allar þessar umræður um skólamál af hinu góða. Ég tel einnig skína í gegnum þær, að foreldrar og kennarar sætta sig ekki við, að illa sé farið með þann tíma, sem þó er varið til skólastarfs, en mætti vera lengri á vetri hverjum, ef við ætluðum að hafa hann sambærilegan við það, sem almennt gerist annars staðar. Er ég ekki í neinum vafa, að áherslur af þessu tagi, það er um meiri kröfur og markvissara nám, muni setja svip sinn á þá miklu vinnu við gerð nýrra námskráa, sem nú fer fram á grunn- og framhaldsskólastigi. Í samræmi við þær kröfur verðum við síðan að semja námsbækur eða þýða og staðfæra, eins og auðveldlega má gera með bækurnar frá Singapore. Einnig þurfum við að leita samstarfs við þá erlendis, sem framleiða námsefni með öðrum hætti, þýða það og staðfæra. Aðeins á þennan hátt náum við því markmiði að tryggja, að íslenskt skólakerfi sé sambærilegt við það besta, sem gerist. Það, sem ég heyri helst frá foreldrum í ljósi þessara umræðna, er, að þeim finnst illa verið farið með tíma barna sinna í grunnskólum, það heyri til dæmis til undantekninga, að þau þurfi að læra eitthvað heima.

Minnumst þess þó í þessum umræðum, að hvorki stjórnvöld, kennarar né foreldrar hafa síðasta orðið um það, hvaða stefnu unga fólkið tekur að námi loknu, en góð menntun verður þó aldrei af því tekin. Fyrir rúmu ári sat ég fund í Jerúsalem um menntamál og má sjá frásögn frá honum hér á heimasíðu minni. Þar var menntamálaráðherra Singapore. Hann sagði eða réttara sagt hún sagði, að vissulega legðu stjórnvöld mikla áherslu á, að nemendur lærðu raungreinar, tækni og vísindi, í grunnskólum, en þegar kæmi á æðri skólastig væri það lögfræði, viðskiptafræði og læknisfræði, sem drægi flesta að sér eins og áður.

Fimmtudaginn 30. janúar var í hádeginu efnt til fundar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna í Háskóla Íslands, þar sem við Stefán Ólafsson prófessor og Páll Kr. Pálsson, forstjóri Sólar hf, vorum framsögumenn um Nýsköpun - háskóla - atvinnulíf. Eins og oft áður hafði ég nokkuð gagn af því að undirbúa þau fáu orð, sem ég flutti þarna, því að það gaf mér tækifæri til að lesa ýmislegt um þróun háskólanáms hér á landi. Stefnir það í sömu átt og víða annars staðar, að æ færri leggja til atlögu við nám í raungreinum. Þá blasir við, að tengsl skólakerfisins við arðbærasta atvinnuveginn, sjávarútveginn, eru of veik og lítil.

Nokkur orðaskipti urðu um skilgreiningu Stefáns Ólafssonar á atvinnulífi og hlut hins opinbera að því er varðar starfsvettvang háskólamenntaðra manna, en stærstur hluti þeirra starfar í opinberri þjónustu, sem almennt er fremur talin taka af þjóðarauðnum en bæta við hann. Á hitt má með réttu benda, til dæmis í ljósi rækilegrar kynningar í ársbyrjun, að hér eru læknar, sem eru flestir opinberir starfsmenn, orðnir framarlega í verðmætasköpun með rannsóknum sínum og störfum, má þar sérstaklega nefna auglækningar og rannsóknir til dæmis í krabbameinsfræðum. Mest spennandi verkefnið er að sjálfsögðu það, sem Kári Stefánsson stendur fyrir á sviði líftækni, en til þess að hrinda því af stað hefur hann fengið 12 milljónir dollara í áhættufé frá Bandaríkjunum.

Laugardaginn 1. febrúar vorum við Rut á Háskólahátíð, þar sem Sveinbjörn Björnsson rektor fjallaði um nýja tækni og útbreiðslu háskólamenntunar um landið allt. Féllu orð hans á sama veg um þetta mál og gerðist á Alþingi þriðjudaginn 28. janúar, þegar til umræðu var tillaga frá Hjörleifi Guttormssyni og fleirum um um fræðslumiðstöð á háskólastigi á Austurlandi. Ekki tók ég neins staðar eftir því, að sagt væri frá þessum þingumræðum í fjölmiðlum, hins vegar voru ræðu Sveinbjörns að verðleikum gerð skil á baksíðu Morgunblaðsins sunnudaginn 2. febrúar, en blaðið hefur fengið hana senda áður en hún var flutt. Er það kapítuli út af fyrir sig, hvaða mynd almenningur fær af þingstörfum í blöðum, útvarpi og sjónvarpi - sjónvarpið er best, því að það sýnir beint frá fundum fram eftir degi síðdegis og síðan á morgnana, það sem út af stendur daginn áður.