20.1.1997

Námskrá - starfsmenntir - MK

Nýlega las ég grein í dönsku blaði, þar sem meðal annars var rætt um menntakerfið í Singapore, en eins og menn vita líklega eftir miklar umræður hér á landi undanfarnar vikur stóðu nemendur þaðan sig best í TIMSS-könnuninnu, það er alþjóðlegu könnuninni á færni grunnskólabarna í raungreinum. Í danska blaðinu var það nefnt til marks um, hve menntun væri mikils metin í Singapore, að þar birtu dagblöð forsíðufréttir um árangur afburðanemenda og því til sönnunar birtist úrklippa af forsíðu blaðs í Singapore með stórri mynd af sigurglöðum nemendum í keppni um góðan námsárangur.

Líklega þætti blaðamönnum í Singapore það stórtíðindi, ef stofnað hefði verið til þess þar að endurskoða námskrár í grunn- og framhaldsskólum og myndu segja nákvæmlega frá því, hvernig að málum væri staðið. Þá gerðu þeir áreiðanlega mikið úr því, ef opnaður væri skóli, þar sem fjárfest hefði verið fyrir milljarð króna í nýrri byggingu, búnaði og tækjum.

Í síðustu viku fór ég, mánudaginn 13. janúar, á fund í Kennarahúsinu við Laufásveg í boði kennarasamtakanna og ræddi við formenn fagfélaga kennara um endurskoðun námskrár grunn- og framhaldsskóla, sem hófst hér fyrir nokkrum mánuðum meðal annars með því að ráðnir voru starfsmenn til að vinna að verkinu eftir auglýsingu í dagblöðum. Í ræðu , sem ég flutti á fundinum með kennurunum lýsti ég stöðu námskrárvinnunnar um þessar mundir og afhenti þeim gögn er lúta að almennri stefnumótun og áhersluatriðum í hinni nýju skrá.

Daginn eftir, þriðjudaginn 14. janúar, sat ég fyrsta fund 18 manna nefndar um starfsmenntun, sem stofnuð er á grundvelli nýju framhaldsskólalaganna. Gegnir nefndin mikilvægu hlutverki samkvæmt lögunum en í henni sitja fulltrúar atvinnulífs, kennara og skólameistara auk fulltrúa menntamálaráðherra. Er brýnt að nefndin verði virk við mótun starfsnáms og við skilgreiningu á því og skiptingu starfsgreina í flokka.

Síðan tók ég þátt í því föstudaginn 17. janúar að opna formlega nýtt verknámshús við Menntaskólann í Kópavogi og í ræðu, sem ég flutti við það tilefni vék ég að þeirri staðreynd, að með öllu væri órökstutt að sérstök aðför hefði verið gerð að menntun af hálfu þessarar ríkisstjórnar eða sérstaklega illa staðið að fjárframlögum til hennar. Síst af öllu ætti þetta við um verknám, nægði í því sambandi að benda á nýja Borgarholtsskólann og nú þetta verknámshús, sem kostaði um einn milljarð.

Nýlega las ég ritsmíð um framtíð okkar á næstu öld. Þar kemst höfundurinn að þeirri niðurstöðu, að hvað sem líði svart- og skammsýni þeirra, sem hæst láta í fjölmiðlum, sýni allar kannanir, að almennt sé fólk bjartsýnt. Þessi bjartsýni ráði sem betur fer meira um framtíðina heldur en svartagallsrausið, því að í tíðarandanum felist auk hennar, að einstaklingurinn sé frjálsari og framtaksamari en áður. Hann láti hvorki stjórnmálmenn né fjölmiðlamenn segja sér fyrir verkum heldur fari sínu fram - og gangi menn til verka sinna af bjartsýni sé framtíðin björt.

Laugardaginn var voru hins vegar stofnuð hér ný stjórnmálasamtök, Gróska, á neikvæðum nótum. Meðal annars þeim, að fylgt sé niðurskurðarstefnu í menntamálum og þar sé ekkert að gerast. Þá sagði formaður Alþýðuflokksins, Sighvatur Björgvinsson, í sjónvarpsviðtali, að á Íslandi byggi fátæk þjóð, erum við þó hópi tíu ríkustu þjóða heims og einnig hinna hamingjusömustu.

Raunar er ævintýralegt að fylgjast með fjölmiðlayfirlýsingum hins nýja formanns Alþýðuflokksins, því að þar stendur ekki steinn yfir steini. Annars vegar segir hann, að mesta eignatilfærsla sögunnar hafi orðið með flutningi kvóta á fárra hendur, sem leiði til þess, að leggja beri mun þyngri skatta á útgerðarmenn, en hins vegar varar hann menn við að fjárfesta í útgerðarfyrirtækjum, af því að þau standi öll á brauðfótum.

Ég ætla þó ekki að hætta mér út of langt út á þessar brautir að sinni, þótt af nógu sé að taka, eins og því, að mér sýndist ég lesa það í blaðagrein eftir hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, að öll helstu blöð heims hefðu tekið afstöðu með veiðileyfagjaldi við Ísland og ekki bæri að taka of mikið mark á þeim, sem væru “embættishagfræðingar". Virtust helstu rökin í þessu máli nú verða orðin þau að nefna til sögunnar blöð og einstaklinga, sem hefðu tekið afstöðu að skapi prófessorsins. Hins vegar kaus hann, að láta þess ógetið, að Morgunblaðið hefur einmitt best bent á það í nýlegu Reykjavíkurbéfi, að í þessu máli er engin ein skoðun uppi um það, hvað felst í þessari gjaldtöku eða hvernig að henni eigi að standa. Lausungin í umræðum um veiðileyfigjaldið fer vaxandi, eftir því sem fastar er knúið á um það, hvað í gjaldtökunni á að felast.