14.1.1997

Fréttamennska - skólasamningar

Í vikuritinu The Economist kveður við nokkuð annan tón í umræðum um Kyoto-fundinn en í íslenskum fjölmiðlum. Þegar þetta er sagt, skal þess jafnframt minnst, að The Economist hefur alla veröldina sem markað og nálgast viðfangsefni sín ekki með hagsmuni heimamarkaðs innan landamæra eins ríkis í huga. Ritið telur lítinn árangur hafa náðst í Kyoto og varar við sjónarmiðum heimsslitaspámanna, þar sem ekki sé unnt að benda á ótvíræðar vísindalegar röksemdir fyrir því, að heimurinn sé að heljarþröm vegna gróðurhúsaáhrifa. Í þessu efni eins og svo mörgum öðrum gengur The Economist á hólm við þau viðhorf, sem einkenna almennt fjölmiðlatalið.

Í Morgunblaðinu, það er í dálkum Víkverja og Velvakanda, hafa orðið nokkrar umræður um hlutverk fjölmiðla. Af hálfu blaðsins hefur því verið haldið fram, að fréttahlutverk þess væri að endurspegla viðhorf viðmælenda sinna og fyrirsagnir ættu að taka mið af þeim. Skoðanir blaðsins komi fram í ritstjórnargreinum þess, það er leiðurum, Reykjavíkurbréfum og Víkverja. Gagnrýnendur blaðsins hafa bent á skyldur þess við lesendur sína, sem felist í því að leggja mat á það, sem viðmælendurnir segja, og ekki sé unnt að ætlast til þess, að öll vitleysa sé á borð borin, ekki síst í fyrirsögnum, sem blaðamenn semja.

Paul Johnson er afkastamikill rithöfundur í Bretlandi og ritar auk þess fasta dálka í blöð. Í The Spectator hefur Johnson margendurtekið síðustu mánuði, að brýnt sé að segja ritstjórum blaða og fjölmiðlamönnum stríð á hendur eins og verkalýðsrekendum á sínum tíma, þegar hann gekk til liðs við Margaret Thatcher til að brjóta vald bresku verkalýðshreyfingarinnar á bak aftur. Tíundar hann ýmis dæmi máli sínu til stuðnings og er ómyrkur í máli um ávirðingar andstæðinga sinna í fjölmiðlaheiminum. Eru allar umræður um þennan þátt þjóðlífsins hér á landi barnaleikur í samanburði við það, sem gerist í Bretlandi. Þar er einnig unnt að kynnast innviðum fjölmiðlanna með því að lesa minningabækur blaðamanna eða ævisögur útgefenda.

Í vikunni fékk ég opið bréf frá Hjálmari H. Ragnarssyni, tónskáldi og forseta Bandalags íslenskra listamanna, vegna samskipta Ríkisútvarpsins við listamenn. Tilefnið er ákvörðunin um að heimila Ríkisútvarpinu að flytja alla starfsemi sína á einn stað í Efstaleiti, þar sem mikið húsrými stendur ónotað. Óttast listamenn, að þetta verði til þess, að RÚV fjárfesti einkum í steinsteypu en leggi minna en góðu hófi gegnir til dagskrárgerðar. Var þessi ótti ítrekaður á fundi, sem ég átti með forystumönnum Bandalags íslenskra listamanna síðdegis föstudaginn 12. desember. Er mikið áhyggjuefni, hve langvinn og djúpstæð reiði hefur grafið um sig meðal listamanna vegna þess sem þeir telja áhugaleysi Ríkisútvarpsins og sérstaklega sjónvarps ríkisins gagnvart íslenskum listamönnum. Helstu rök mín fyrir því, að ríkið standi að rekstri útvarps og sjónvarps, eru þau, að þar sé stuðlað að því að framleiða íslenskt efni fyrir þessa miðla. Afstaða Bandalags íslenskra listamanna bendir ekki til þess, að RÚV sinni þessu verkefni sem skyldi. Þá er einnig kvartað undan jafneinföldum atriðum eins og þeim, að RÚV svari ekki bréfum eða sinni erindum með viðunandi hætti.

Listamenn líta á RÚV frá sínum sjónarhóli. Stjórnmálamenn hafa annað sjónarhorn frá sínum starfsvettvangi. Mér virðist sem fréttastofa sjónvarps ríkisins sé að færast að nýju í þann farveg að skipa sér í flokk þeirra, sem gera alltaf kröfur um aukin ríkisútgjöld. Birtist þetta síðustu daga, þegar fjallað hefur verið um afgreiðslu fjárlaga á Alþingi.

Sérstaka athygli mína vakti, að fréttastofa sjónvarps ríkisins sá ástæðu til að birta viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra R-listans, að kvöldi 12. desember um það, hvort hún ætlaði að taka að sér leiðtogastarf fyrir sameinaða vinstrisinna á landsvísu. Sagðist borgarstjóri ekki hafa það í hyggju. Niðurstaðan gat ekki orðið önnur. Þetta var sem sagt ekki nein frétt. Í

Menn þurfa hins vegar ekki að vera miklir sérfræðingar í stjórnmálum til að átta sig á því, hvers vegna þetta viðtal var birt.Tilgangurinn var einfaldlega sá að treysta innviði R-listans. Hann á undir högg að sækja samkvæmt skoðanakönnunum. Framsóknarmenn eru tvístígandi vegna R-listans eftir umvöndunarorð Halldórs Ásgrímssonar á dögunum. Þeir átta sig á því, að R-lista-moðsuðan veikir stöðu Framsóknarflokksins og grefur undan fylgi hans í skoðanakönnunum, um leið og ríkisstjórnin nýtur mikilla vinsælda. Framsóknarmenn vita einnig eins og er, að meðal sósíalista er rætt um Ingibjörgu Sólrúnu sem sameingartáknið, enda hefur Jón Baldvin Hannibalsson eindregið hvatt til stuðnings við hana.

Við þessar aðstæður hafa áróðursmeistarar R-listans komist að þeirri niðurstöðu, að best væri, að í hinum hlutlausa ríkisfjölmiðli kæmi frétt í því skyni að slá á þessar umræður um að Ingibjörg Sólrún yrði fljótlega kölluð til annarra starfa í stjórnmálum, ef R-listinn næði að halda meirihluta sínum í Reykjavík. Gekk það einfaldlega eftir í fréttatíma sjónvarps ríkisins 12. desember 1997.

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins sunnudaginn 14. desember var sagt frá viðskiptum fréttamanns við samgönguráðherra, sem vildi fá ráðrúm til að kynna sér skýrslu Samkeppnisstofnunar um eldsneytissölu á Keflavíkurflugvelli, áður en hann tjáði sig um hana í fréttatíma og sagðist ekki vita til þess, að hún hefði borist samgönguráðuneytinu, þótt frá henni hefði verið skýrt í fjölmiðlum. Hafði fréttastofan þá eftir starfsmanni Samkeppnisstofnunar, að skýrslan hefði verið afhent í samgöngráðuneytinu fyrir hádegi föstudaginn 12. desember. Mátti helst skilja fréttina á þann veg, að gagnrýnisvert væri, að ráðherrann hefði ekki lesið skýrsluna og væri auk þess ekki til þess búinn að ræða hana á laugardegi eða sunnudegi. Er þetta tilefni sérstakrar fréttar? Er hitt ekki aðalatriðið hvað ráðherrann segir, eftir að hafa fengið tækifæri til að kynna sér málið? Að morgni laugardagsins 13. desember birtist í Morgunblaðinu frétt þess efnis, að Samkeppnisstofnun beindi erindi til menntamálaráðuneytisins vegna kæru Brynju Benediktsdóttur leikkonu um setu manna í Leiklistarráði. Hringdu blaða- og fréttamenn í mig vegna þessa þennan laugardag og sagði ég, að ég hefði ekki séð álit Samkeppnisstofnunar og gæti því ekki sagt neitt um það. Myndi ég væntanlega fá álitið eftir helgina. Ekki varð ég var við, að fréttamenn spyrðu starfsmenn Samkeppnisstofnunar um það, klukkan hvað og á hvaða degi þeir hefðu afhent menntamálaráðuneytinu þetta álit um Leiklistarráð eða birtu sérstaka frétt um það.

Eftir blaðamannafund um íþróttamálefni miðvikudaginn 10. desember bað blaðamaður DV, KJA, um einkasamtal til að ræða við mig um frumvarp til háskólalaga, sem er til lokameðferðar á Alþingi. Skýrði ég honum frá stöðu málsins og að menntamálanefnd væri að ljúka afgreiðslu sinni. Komið væri til móts við sjónarmið stjórnenda Háskóla Íslands, sem ætti í sjálfu sér að vera fréttnæmt. Þá áréttaði ég, að ekki væri tekin afstaða til skólagjalda í frumvarpinu. Ekki hef ég orðið var við, að DV birti neitt af þessu en á hinn bóginn var þar frétt um málið föstudaginn 12. desember, daginn eftir að álit og breytingatillögur meirihluta menntamálanefndar voru lagðar fram á Alþingi. Er þeirra að engu getið en tekið undir með stjórnarandstöðunni á einhliða hátt.

----------

Fjármálaráðuneytið boðaði til blaðamannafundar fyrir hádegi föstudaginn 12. desember til að kynna nýjar aðferðir við stjórn ríkisfjármála, sem felast í samningum um svonefnda árangursstjórnun. Er málum þannig háttað, að á vettvangi menntamálaráðuneytisis hefur mest miðað í þessu efni og hef ég nú ritað undir slíka samninga við 15 framhaldsskóla og auk þess við Íslenska málstöð.

Inntak skólasamninganna hefur meðal annars verið kynnt þingnefndum við meðferð fjárlagafrumvarpsins á Alþingi og sé ég á álitum nefndanna, að þessi aðferð við að marka skólunum fjárhagsramma nýtur stuðnings þingmanna. Er ég sannfærður um, að þessir samningar verða skólunum lyftistöng, þegar fram líða stundir. Þeir gera meiri og nýjar kröfur til skólameistara og skólanefnda en veita þeim einnig meira svigrúm til að móta skólunum sérstöðu. Aðalsteinn Eiríksson, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, var ráðuneytinu innan handar við gerð reiknilíkansins, sem leggur grunn að fjárhagslegri hlið samninganna. Hann þekkir þess vegna inntak þeirra best og hefur nú riðið á vaðið og samið við einkaaðila um tvo þætti skólastarfsins, það er tölvukennslu og leikfimi. Með þessu nýtir hann fjármuni betur en ella og skapar skólanum jafnframt nýtt fjárhagslegt svigrúm.

Skömmu eftir blaðamannafundinn um árangursstjórnunarsamningana hittumst við Friðrik Sophusson fjármálaráðherra með pennana á lofti í Verslunarskóla Íslands, þar sem við rituðum undir samning menntamálaráðuneytisins við skólann um nýjan háskóla, Viðskiptaháskólann í Reykjavík. Þessi samningur felur í sér, að ríkið skuldbindur sig til að greiða kostnað við ákveðinn fjölda nemenda í hinum nýja skóla og einnig hluta af kostnaði við húsnæði hans. Dugar samningurinn til þess, að kennsla hefst í skólanum næsta haust.

Daginn áður, fimmtudaginn 11. desember, fór ég til Keflavíkur og varð vitni að því, þegar fulltrúar Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sveitarfélaga, verkalýðsfélaga og atvinnurekenda rituðu undir stofnsamning og skipulagsskrá fyrir Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Menntamálaráðuneytið hefur heitið fjárhagslegum stuðningi til að ýta símenntunarmiðstöðinni úr vör. Lít ég á hana sem fyrirmynd fyrir aðra framhaldsskóla, sem vilja láta að sér kveða við endurmenntun og fullorðinsfræðslu.