12.1.1997

Kvótaumræður - LR - keppni í skólum

Hið merkilegasta, sem birtist í fjölmiðlum í vikunni, var stutt lesendabréf eftir Jónas H. Haralz í Morgunblaðinu föstudaginn 10. janúar, þar sem hann lét í ljós skoðun sína á kvótakerfinu og umræðunum um það. Fáir hafa meiri reynslu af því en einmitt Jónas að glíma við vanda íslensks atvinnu- og efnahagslífs. Hann hefur það einnig fram yfir marga, að geta litið á þróun mála hér í alþjóðlegu ljósi, því að hann hefur starfað á alþjóðavettvangi án þess nokkru sinni að slíta tengslin við ættjörðina eða missa áhugann á íslenskum málefnum. Þá er hann kominn á þann aldur, að hann hefur ekki neinna annarra hagsmuna að gæta en þeirra, sem felast í því að rökstyðja sannfæringu sína.

Jónas H. Haralz dregur fram tvö meginatriði, sem skipta sköpum, þegar menn ræða gildi kvótakerfisins, það er að til þess var stofnað í því skyni að vernda fiskstofna við landið og stuðla að hagkvæmni í sjávarútvegi. Hvoru tveggja eru grundvallaratriði fyrir þjóð, sem á mest undir svipulum sjávarafla og nýtingu hans. Hann bendir réttilega á, að þessi markmið hafa náðst. Hvar værum við nú, ef fiskstofnar hefðu haldið áfram að minnka vegna gegndarlausrar sóknar með alltof stórum og óhagkvæmum fiskiskipastóli? Hver hefði hagnast á gegndarlausri sókn í sameign þjóðarinnar með miklum tilkostnaði?

Tilefni lesendabréfs Jónasar H. Haralz er stöðugur andróður gegn kvótakerfinu. Davíð Oddsson hefur bent á það, að andstæðingar kvótakerfisins tala alls ekki einum rómi og erfitt er að henda reiður á, hvað þeir vilja í raun og veru. Reykjavíkurbéf Morgunblaðsins, sem birtist hinn 5. janúar, bregður ágætu ljósi á hin ólíku sjónarmið gagnrýnenda kvótakerfisins. Eftir að hafa lesið það átta ég mig síður á því en áður, hvers vegna sérstök gjaldtaka af útgerðinni er helst til sátta í þessu máli, ef menn eru á annað borð á móti kvótakerfinu.

Leyfi ég mér að birta hér aftur, það sem ég sagði um þetta mál í pistli mínum hér á síðunni 3. nóvember sl.:

“Þegar ég er spurður um afstöðu til kvótamálsins, svara ég jafnan á þá leið, að ég styðji það stjórnkerfi í íslenskum sjávarútvegi, sem leiði í senn til þess að fiskistofnar séu verndaðir og veiðar séu stundaðar með hagkvæmum hætti. Tel ég, að með því sé hag þjóðarinnar best borgið til lengdar og með slíku kerfi sé best tryggður arður af fiskveiðum fyrir þjóðarbúið í heild og þannig sé einnig staðinn öflugastur vörður um sameign þjóðarinnar, fiskimiðin.

Ég sé ekki annað en kvótakerfið sé farið að hafa þessi jákvæðu áhrif. Fiskistofnar eru að braggast og arður af fiskveiðum eykst með aukinni hagræðingu. Auk þess eru útgerðarfyrirtæki komin á almennan hlutabréfamarkað og allir geta eignast hlut í þeim, sem vilja. Þannig geta allir keypt kvóta."

Mér sýnist, að næsti þáttur í umræðunum eigi að sumra mati að snúast um réttlætið og stöðu sjómanna og fiskvinnslufólks. Réttlætissjónarmið eiga að sjálfsögðu ávallt að vera í hávegum höfð, á hinn bóginn þarf jafnt að taka á því máli í samskiptum manna í útgerð og fiskvinnslu, hvort sem kvótakerfið er með þeim hætti, sem það er, eða ekki. Ekki stæðu sjómenn og fiskvinnslufólk betur að vígi, ef fiskurinn hefði horfið eða útgerð lagst af vegna óhagkvæmni?

Kvótakerfinu var komið á 1983 vegna aðstæðna, sem þá ríktu. Þar réð kalt mat á hagsmunum. Það á einnig að ráða núna. Bréfkorn Jónasar H. Haralz er að mínu mati þörf viðleitni til að beina umræðunum í þann farveg.

Afmæli LR

Þess er minnst með margvíslegum hætti þessa dagana, að 100 ár eru liðin frá því, að Leikfélag Reykjavíkur kom til sögunnar. Efast enginn um, að það hefur verið mikil lyftistöng fyrir menningarlíf í Reykjavík og um land allt. Sjaldan hefur leiklistarlíf staðið með jafnmiklum blóma og einmitt um þessar mundir. Hvarvetna má sjá þessi merki, meðal annars í fjárlögum ríkisins. Þar er í fyrsta sinn í mörg ár mælt fyrir um fjárveitingar til LR, samstals 25 milljónir í ár og á síðasta ári. Einnig er stuðningur við atvinnuleikhópa aukinn, bæði með því að greiða stofnkostnað við ný leikhús þeirra og með fjárveitingum til einstakra sýninga. Loks hefur lögum um listamannalaun verið breytt á þann veg, að nú er unnt að fá þar starfslaun fyrir leikhópa.

Á sínum tíma hætti ríkið að styðja LR á grundvelli samkomulags milli ríkis og borgar, sem snerti einnig fjárstuðning við Íslensku óperuna. Var þá ákveðið, að ríkið tæki óperuna alfarið að sér en þeir fjármunir, sem borgin hafði notað til stuðnings henni, runnu til LR. Þetta verða menn að hafa í huga, þegar borgarstjóri lætur nú í veðri vaka, að borgarstjórn hafi hækkað fjárveitingar sínar til LR.

Keppni í skólum

Í vikunni voru afhent verðlaun til grunnskólanema vegna framgöngu þeirra í mikli norrænu lestrarkeppninni, Mími. Var frammistaða íslenskra skólabarna til fyrirmyndar.

Ég er þeirrar skoðunar, að ýta eigi undir hvers konar keppni í skólum. Er það ein afleiðing þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, að helst megi enginn skara fram úr öðrum, að frekar lítið er gert úr hlut þeirra, sem standa sig vel.

Í ræðu sem ég flutti við afhendingu verðlaunanna vék ég að þessari skoðun minni.