15.12.1996

Fjárlagaafgreiðslan - listamannafundur - bréfaskipti

Síðasta vika einkenndist mjög af því, að nú dregur til úrslita við afgreiðslu fjárlaga. Hefur verið tekið á ýmsum viðkvæmum málum, sem snerta fjárlagaliði menntamálaráðuneytisins og get ég ekki sagt annað en þar miði allt til betri vegar.

Áður en ég lagði fram tillögur ráðuneytisins í sumar um framhaldsskólana og sparnað í rekstri þeirra, kynnti ég hugmyndirnar að sjálfsögðu í ríkisstjórn og einnig fyrir þingmönnum í stjórnarflokkunum, sem koma sérstaklega að menntamálum. Öllum var ljóst, að hér var um viðkvæmt mál að ræða. Kallaði ég einnig á skólameistara þeirra þriggja skóla, sem helst er krafist að spari með því að fjárveitingar eru lagaðar að þeirri starfsemi, sem fram fer innan veggja þeirra.

Hér ætla ég ekki að rifja upp umræðurnar, sem sigldu í kjölfarið. Stór orð féllu og æsingur var víða mikill. Ég sagði, að tillögur ráðuneytisins væru raunhæfar. Kæmu menn fram með rök, sem sýndu fram á annað, væri sjálfsagt að taka tillit til þeirra. Ég væri tilbúinn til viðræðna um allar skynsamlegar leiðir að því markmiði, að hagræði væri sem mest og fjárveitingar í samræmi við raunverulegt starf í skólunum. Eins og menn sjá af því, sem ég hef ritað hér á síðuna undanfarnar vikur, hef ég farið víða um land og rætt þessi mál. Inn í umræðurnar blandast einnig sú ákvörðun að leggja endurinnritunargjald á framhaldsskólanemendur, sem ekki standast kröfur í skólunum.

Í ljósi þeirra umræðna, sem fram hafa farið, tók ég um það ákvörðun fyrir rúmri viku að rita formanni fjárlaganefndar bréf og fara fram á aukna fjárveitingu til framhaldsskólanna, bæði til að styrkja forsendur í rekstri þeirra og einnig til að bæta tölvukostinn hjá þeim. Við aðra umræðu fjárlaga var samþykkt að hækka fjárveitingar til framhaldsskólanna um 30 m.kr. Þá er samþykkt sérstök 4 m.kr. hækkun vegna Hússtjórnarskólans Hallormsstað.

Vegna fjárlaganna hafa farið fram miklar umræður um gjaldtöku af nemendum í framhaldsskólunum. Skólameistarar hafa kvartað undan hömlum á innheimtu efniskostnaðar og nemendur undan endurinnritunargjaldinu. Hvoru tveggja hef ég látið grandskoða og að lokinni athugun lagði ég nýjar tillögur fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, sem samdar eru með vitund skólameistara og fulltrúa Félags framhaldsskólanemenda og koma til móts við þeirra sjónarmið, án þess að leitað hafi verið eftir samþykki.

Þegar ég fór í Raunvísindastofnun háskólans um miðjan nóvember og hlýddi á fyrirlestra vísindamannanna um eldsumbrotin í Vatnajökli kom fram, að fé skorti til að standa straum af aukakostnaði í ár og einnig til að stunda þessar rannsóknir af nægum þunga næstu ár. Bað ég um yfirlit um aukakostnaðinn og áætlun um framhaldið. Í framhaldi af því samþykkti ríkisstjórnin, að 4,6 m.kr. aukafjárveiting yrði veitt í ár til jarðfræðistofu og jarðeðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar. Við aðra umræðu fjárlaga var samþykkt að hækka framlag til Raunvísindastofnunar m.a. vegna þessara rannsókna um rúmar 12 milljónir króna.

Tækniskóli Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna við þróun tölvutækni og kennslu með aðstoð tölva. Hann hefur talið sig dragast aftur úr á þessu sviði. Það er í góðu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og menntamálaráðuneytisins í upplýsingatækni, að við aðra umræðu fjárlaga var ákveðið að auka fé skólans til tölvukaupa um 12 m.kr. Ætti það að gera honum kleift að komast í fremstu röð. Þá er aðstaða Kennaraháskóla Íslands til að veita fjarkennslu bætt með aukinni fjárveitingu og einnig eru forsendur fyrir starfi Samvinnuháskólans treystar með hækkun, sem tekur mið af auknum nemendafjölda. Myndarlega er tekið á málum Stofnunar Árna Magnússonar bæði með aukafjárveitingu í ár og aukningu á næsta ári.

Þá er rétt að geta þess, að Háskóli Íslands og Landsbókasafn-Háskólabókasafn gengu frá mikilvægu samkomulagi á haustmánuðum um það, hvernig staðið verður að ritakaupum fyrir þessar tvær stofnanir innan ramma bókasafnsins. Var ákveðið að stofna ritakaupasjóð við Háskólann, flytja til hans fjármuni af lið safnsins og jafnframt auka fjárveitingu til þess til ritakaupa, við aðra umræðu fjárlaga var samþykkt 12 milljónir króna til ritakaupa, það er samtals 55 m.kr. á næsta ári, sem skiptast þannig að HÍ fær 31.500 í sinn hlut en Lbs. 23.500. Þá er þess að geta, að í fjárlagatillögunum var gert ráð fyrir, að rekstrarframlag til Lbs. hækkaði um 15,6 m.kr. á næsta ári miðað við í ár. Hefur það allt gengið eftir og hækkar því framlag ríkisins til safnsins um 27,6 m. kr. milli ára. Er ekki unnt að segja annað en vel hafi verið tekið á málefnum safnsins við afgreiðslu þessara fjárlaga.

Sé litið til menningarstofnana þá hefur verið samþykkt að hækka fjárveitingu til Sinfóníuhljómsveitarinnar um 7 m.kr. og til Þjóðleikhússins um sömu fjárhæð.

Framlög til íþróttahreyfingarinnar hækka einnig í meðförum fjárlaganefndar, Ungmennafélag Íslands úr 10 m.kr. í 14 m.kr. og Íþróttasamband Íslands úr 24 m.kr. í 28 m.kr.

Síðast en ekki síst ber að geta 25 m.kr. hækkunar á framlögum til Kvikmyndasjóðs, sem fer úr 94.8 m.kr. í 119.8 m.kr. Hefur það sem kunnugt er verið baráttumál kvikmyndagerðarmanna og annarra áhugamanna um kvikmyndalist um langt skeið að framlög til þessa sjóðs yrðu hækkuð. Verður ekki annað sagt en Alþingi hafi hér staðið vel að verki. Eftir viðræður mínar við forystumenn þeirra erlendu kvikmyndasjóða, þar sem Íslendingar sækja helst eftir styrkjum, er ég viss um, að þessi ákvörðun mun styrkja stöðuna gagnvart þessum sjóðum. Vísa ég þar einkum til Norræna kvikmyndasjóðsins og Eurimages. Raunar tel ég brýnt, að komist verði að bindandi niðurstöðu um það, hve háa fjárhæð okkur ber að leggja af mörkum til Eurimages sjóðsins, en kvartað er undan því að hlutur okkar þar sé of lítill, hins vegar hefur ekki komið fram, hvað sé fullnægjandi. Er það óvenjulegt með alþjóðlega sjóði, að skylduframlög séu ekki fastákveðin.

Að lokum minni ég á þá ákvörðun að hækka framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 100 m.kr. Er það í góðu samræmi við þá skoðun mína, að auka beri þessa fjárveitingu. Ljóst er, að hún dugar alls ekki til að koma til móts við óskir þeirra, sem vilja ganga lengst á þeirri braut að auka útgjöld sjóðsins.

Fleira get ég tíundað varðandi þróun fjárlaganna hjá fjárlaganefnd að því er menntamálaráðuneytið varðar, en læt hér staðar numið. Af þessari upptalningu verður ekki annað ráðið en nefndin hafi skoðað mál með jákvæðum huga. Er það mikils virði og til hvatningar þeim, sem að úrlausn verkefna koma.

Það hefur vakið athygli mína, hvað fjölmiðlar virðast áhugalausir um þær staðreyndir, sem hér hafa verið tíundaðar. Mörg þessara viðfangsefna draga að sér athygli fjölmiðlamanna, þegar undan fjárskorti er kvartað. Fræg er lýsing fyrrverandi framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs á því, að ekkert þýddi að ræða við fjárlaganefnd, af því að þar hefðu menn engan skilning á mikilvægi kvikmyndagerðar. Nú þegar nefndin leggur til stórhækkun á sjóðnum , vekur það ekki neina umræðu. Nokkrar umræður hafa verið málefni Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, bæði vegna skorts á fé til rekstrar og bókakaupa. Af þeim verður ekki ráðið, að fjárveitingarvaldið er sífellt að auka fjárstreymi til safnsins, ár frá ári um leið og starfsemi þess þróast við nýjar aðstæður. Af minni hálfu var það forsenda aukinnar fjárveitingar til ritakaupa, að Háskólinn og safnið kæmust að samkomulagi um verkaskiptingu og þessar stofnanir eiga enn eftir að skilgreina betur samstarf sitt.

Í Morgunblaðinu birtist í vikunni grein um nýju upplýsingatæknina og bókasöfn. Tók blaðið málið upp í forystugrein sinni í dag 15. desember. Þess hefur ekki verið að neinu getið, svo að ég hafi orðið þess var, að í síðustu viku kom fram frumvarp frá mér á Alþingi til nýrra laga um almenningsbókasöfn. Þar er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir, að næstu fimm ár eftir samþykkt laganna, verði veittar 4 m.kr. á ári úr ríkissjóði til að styrkja tölvukost almenningsbókasafna og þróun þeirra í samræmi við nýjar kröfur. Er þetta lagt til, þótt rekstur safnanna og uppbygging sé alfarið á vegum sveitarstjórna. Forsendur fyrir tillögunni er stefna ríkisstjórnarinnar að því er hina nýju upplýsingatækni varðar.

Þau dæmi, sem ég hef hér nefnt, um fréttnæm atriði við aðra umræðu fjárlaga, og í nýju frumvarpi til laga um almenningsbókasöfn, sýna mér enn einu sinni, að umfjöllun fjölmiðla um störf ráðherra og þingmanna mótast mjög af því, sem aðrir en ráðherrar og þingmenn koma á framfæri. Við verðum því sjálfir að miðla þessum upplýsingum beint til almennings og höfum til þess fleiri tækifæri nú en áður, eins og þessi síða sýnir. Athygli fjölmiðlanna beinist oft frekast af því, sem þeir sjálfir búa til. Dæmi um það eru haldlitlar fréttir Stöðvar 2 af því fyrri hluta vikunnar, hvað þyrfti að skera niður til að draga úr þenslu. Var látið í veðri vaka, að þar yrði gengið að framkvæmdum á vegum menntamálaráðuneytisins. Aldrei sneru fréttamennirnir sér þó til mín til að leita frétta af þessum tilbúningi sínum.

Í vikunni svaraði ég einni fyrirspurn á Alþingi um niðurstöður rannsókna á náttúrufræðikennslu í grunnskólum og tók þátt í einni umræðu utan dagskrár um iðjuþjálfun á háskólastigi. Þar greindi ég frá því, að Háskóli Íslands vildi ekki forgangsraða því námi og myndi nota nýtt fjármagn, sem hann fengi til að stryrkja það nám, sem fyrir væri í skólanum. Hins vegar hefði Háskólinn á Akureyri lýst áhuga á þessu námi.

Síðdegis föstudaginn 13. desember átti ég árlegan fund með Hjálmari H. Ragnarssyni, forseta Bandalags íslenskra listamanna (BÍL), og öðrum forystumönnum samtaka listamanna um stöðu menningarmála og samstarf þessara aðila og menntamálaráðuneytisins. Var þetta ánægjulegur fundur, þar sem farið var yfir áhersluatriði í stefnu BÍL, sem var samþykkt á þingi þess 16. nóvember sl, degi íslenskrar tungu. Er ljóst, að við erum samstiga í mörgum meginatriðum. Lýsti ég áhuga mínum á því, að ráðuneytið og BÍL léti vinna skýrslu um stöðu íslenskra menningarmála, sem yrði forsenda frekari stefnumörkunar í þessum efnum. Vísaði ég þar sérstaklega til tveggja rita, sem ráðuneytið hefur gefið út í ár, Tölfræðihandbókina um menntun og menningu annars vegar og ritið Í krafti upplýsinga hins vegar, þar sem litið er til upplýsingatækninnar og hvernig hún getur nýst menntun og menningu.

Á þessum fundi kom hið sama fram og á fundi mínum með Leiklistarráði fyrir skömmu, að listamenn eru mjög óánægðir með stefnu RÚV gagnvart sér. Er það ekki síst sjónvarpið, sem situr undir gagnrýni fyrir að fylgja ekki nægilega öflugri menningarstefnu. Ég er enn sömu skoðunar og áður, að RÚV skorti ekki fjármuni til þessara hluta heldur þurfi að endurskoða áherslur við ráðstöfun á fjármunum innan stofnunarinnar.

Varla líður sú vika, að ekki sé tekið eitthvað af þessari síðu til birtingar í öðrum fjölmiðlum. Þannig birti Alþýðublaðið í vikunni kafla úr síðasta pistli, þar sem ég fjalla um bækur þeirra Vals Ingimundarsonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Í pistli dagsettum 30. nóvember sagði ég frá ferð minni til Sauðárkróks og gat þess, að á fundi með nemendum í fjölbrautaskólanum hefði verið þungi í mönnum og einn nemenda gengið á dyr með ókvæðisorðum. Þessi orð mín rötuðu í fjölmiðla og hafa greinilega orðið til þess, að pilturinn, Freyr Rögnvaldsson frá Flugmýrarhvammi, sá ástæðu til að senda mér bréf of samrit til Jóns Hjartarsonar skólameistara, DV, Útvarps Norðurlands og Feykis, fréttablaðs á Sauðarkróki. Bréfið er svohljóðandi:

“Á heimasíðu Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra á Alnetinu og í fjölmiðlum, hefur komið fram að einn nemandi í Fjölbrautaskóla Norðurlands-Vestra hafi kallað að honum ókvæðisorð á fundi í skólanum. Þar sem undirritaður á þar hlut að máli þykir rétt að gefa stutta skýringu:

Ég ber að sjálfsögðu alla ábyrgð á orðum mínum á fundinum en hvorki skólinn né aðrir nemendur skólans.

Þegar ljóst var að ekki fengjust nauðsynleg svör um fallskattinn svokallaða, gekk ég út af fundinum og kallaði um leið: “Pereat, Björn Bjarnason", sem vísar í þekkt minni í Íslandssögunni þegar nemendur hrópuðu Sveinbjörn Egilsson, rektor Lærðaskóla af. Pereat útleggst nánast setjum hann af. Eftir að að hyggja voru þetta óþarflega hvatskeytleg ummæli og orðum mínum hefði mátt stilla betur í hóf. Sjálfsagt er að biðjast afsökunar á þeim. Mig furðar hinsvegar á því að slíkt sagnaminni sé kallað ókvæðisorð og gert að fjölmiðlamat, enn verra finnst mér ef reynt er að gera Fjölbrautaskóla Norðurlands-Vestra tortryggilegan vegna þessa máls.


Flugumýrarhvammi 9. des, 1996
Freyr Rögnvaldsson"

Mér finnst þetta drengilegt bréf. Er þessu máli að sjálfsögðu lokið af minni hálfu eins og ég mun staðfesta í bréfi til Freys. Ætlan mín var og er ekki að gera meira úr þessu atviki en efni stóðu til og frá því sagði ég í þeim tilgangi einum að vekja athygli á þeim hita, sem getur hlaupið í umræður um framhaldsskólann og stöðu nemenda þar. Ég heyrði í raun ekki orðaskil í hrópinu en skynjaði af látbragði öllu, að ekki var verið að sýna mér neina vinsemd. Ef menn telja fast að orði kveðið með því að nota orðið “ókvæðisorð" er þar um misskilning að ræða, því að með því er aðeins sagt, að gengið hafi verið út fyrir hæfileg mörk, óhæfileg orð hafi verið notuð. Mér er ekki ljóst, hvernig fjölmiðlar hafa lagt út af þessum orðum mínum en vonandi gefa þeir Frey tækifæri til að koma sínu sjónarmiði á framfæri. Tillgögurnar, sem nú liggja fyrir um endurinnritunargjaldið, eru skýrar og taka meðal annars mið af þeirri gagnrýni, sem fram kom á fundinum á Sauðárkróki og annars staðar. Til þess er leikurinn gerður ílýðræðisþjóðfélagi, að menn skiptist á skoðunum og upplýsingum.