15.12.1996

Þinghlé

Alþingi lauk störfum um klukkan 1.30 eftir miðnætti laugardaginn 21. desember. Nóttina áður höfðu fundir staðið fram undir átta um morguninn. Þegar dró að úrslitum við afgreiðslu mála föstudagskvöldið varð nokkur spenna um smátíma, þegar stjórnarandstaðan gaf til kynna að samkomulag, sem gert hafði verið fyrr í vikunni, væri í uppnámi. Skildum við stjórnarsinnar málið á þann veg, að stjórnarandstaðan vildi knýja á um afgreiðslu á einhverri tillögu frá sér við lokaafgreiðslu fjárlaga.

Vinnuvikan hjá mér einkenndist af því, að lokadagar voru á þinginu. Vildi ég ekki binda mig við annað og var ég því mest í þinghúsinu, þótt ekki sæti ég þar, þegar lengst var talað aðfaranótt föstudagsins, enda snertu þau mál ekki starfsvettvang minn sem ráðherra. Það gerði hins vegar frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þar sem ákvæði voru um gjaldtöku af framhaldsskólanemendum. Allt undir afgreiðslu málsins virtust stjórnarandstæðingar ekki átta sig á því, að breytingar höfðu verið gerðar á tillögunum um endurinnritunargjald, að minnsta kosti létu þeir enn eins og um það væri að ræða að leggja sérstakt gjald á þá, sem ættu undir högg að sækja. Þetta er alrangt.

Ríkisstjórnin getur vel við unað, þegar upp er staðið eftir fyrri hluta þessa þinghalds. Þau mál hafa hlotið afgreiðslu, sem hún hefur sett á oddinn. Við atkvæðagreiðslu um fjárlögin og frumvörp tengd þeim var almenn samstaða meðal stjórnarþingmanna, þótt í einstaka tilvikum væri hlaupist undan merkjum.

Ég læt þetta duga að sinni og óska lesendum síðu minnar gleðilegra jóla og þakka þeim samfylgdina á árinu, sem er að líða.