30.11.1996

Fréttaathygli - Sauðárkrókur - Kvikmyndasafn

Eftir að ég kom heim frá Frakklandi um síðustu helgi hefur tíminn liðið hratt og tækifæri gefist til þess að hitta marga, því að ekki voru þingfundir í vikunni. Einshvers staðar heyrði ég eða las í fjölmiðlum, að þing kæmi ekki saman þessa viku vegna þess, að það vantaði mál frá ríkisstjórninni. Þetta er alrangt, nóg er af málum. Það var hins vegar ákvörðun forsætisnefndar þingsins strax í haust eða sumar að gera hlé á þingstörfum núna til þess að nefndir gætu farið yfir þau mál, sem fyrir liggja. Reyndin er sú, að undir jólahlé á fundum Alþingis gefst æ minni tími fyrir nefndirnar til að funda. Verður fróðlegt að sjá, hvernig þessi nýbreytni gefst.

Ég undrast stundum, hvernig fjölmiðlamenn taka á málum, án þess að hafa minnstu heimildir fyrir því, sem þeir eru að segja. Tvö dæmi ætla ég að nefna úr þessari viku. Annars vegar fréttir Sigurdórs Sigurdórssonar í DV um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Í þriðjudagsblaði DV las ég, að heitar umræður hefðu farið fram daginn áður um málefni LÍN milli stjórnarflokkanna og síðan hefur verið látið að því liggja, að menn sitji á stöðugum fundum um málið. Þetta er hreinn uppspuni. Vissulega fara fram skoðanaskipti um málefni LÍN, en myndin, sem Sigurdór gefur er alröng. Raunar gefur hann aldrei upp heimildarmenn sína og get ég ekki dregið aðra ályktun en um heilaspuna hans sjálfs sé að ræða eða einhver sjái sér hag af því að leiða hann á villigötur. Eitt er víst, ekki spyr hann mig og heyra þó málefni LÍN undir mig og mitt ráðuneyti. Ég las það í Morgunblaðinu á föstudag, að ég hefði ekki kynnt mér skýrslu námsmanna um málefni LÍN og þess vegna gæti ég ekki tjáð mig um málið við blaðið. Sama dag og þetta birtist í blaðinu ræddi ég við blaðamann Morgunblaðsins um málið og svaraði spurningum hans eins og sjá má í laugardagsblaðinu. Spurði ég hann þá að því, hver hefði upplýst blaðið daginn áður um það, sem sagt var um mig og skýrslu námsmannanna. Hann gat ekki sagt mér það. Ég sagði, að það væri næsta einkennilegt að lesa í blaði um slíka hluti, þegar enginn hefði rætt við mig um málið af blaðsins hálfu og þess vegna ekki getað vitað, hvort ég hefði lesið umrædda skýrslu eða ekki. Að vísu hlustaði ég ekki á sjónvarpsfréttir þetta kvöld en þar kann þetta að hafa komið fram, því að síðdegis þennan fimmtudag lét ég þau boð berast til sjónvarpsins, að ég gæti ekki svarað fyrirspurnum þess um málið, þar sem mér hefði ekki gefist tóm til að lesa skýrslu námsmannnanna.

Það var ekki aðeins vegna LÍN, sem fjölmiðlar vildu ná tali að mér heldur einnig vegna niðurstaðna í könnuninni á þekkingu íslenskra grunnskólanema í raungreinum. Um jafnflókin mál er erfitt að tjá sig í stuttu máli og hætta á því, að eitt atriði verði að ósekju þyngra en önnur auk þess sem enn liggja ekki fyrir niðurstöður í könnuninni, sem eiga leiða betur í ljós skýringar á því ástandi, sem ríkir í skólunum. Er mikilvægt að við gefum okkur tóm tíl að bíða eftir þeim niðurstöðum, áður en alltof mörgu er slegið föstu. Heillegasta viðtalið um þetta mál við mig birtist í DV föstudaginn 29. nóvember. Ég sé að áhersla mín á aga, samkeppni og árangur nýtur ekki alls staðar skilnings. Hins vegar skil ég ekki, hvernig menn búast við því, að unnt sé að standa sig vel í námi án þess að leggja hart að sér. Auðvitað eru sumir svo eðlislega greindir, að þeir þurfa ekkert að hafa fyrir því að læra og slappt skólakerfi getur ekki truflað þá. Við erum þó flest þannig af Guði gerð, að við þurfum að hafa töluvert fyrir því að ná árangri. Ef við áttum okkur ekki á því innan veggja skólans skortir eitthvað á að þar sé rétt að málum staðið.

Föstudaginn 30. nóvember átti ég þess kost að heimsækja skóla á Sauðárkróki, bæði grunnskóla og fjölbrautarskóla. Í grunnskólanum fyrir yngstu nemendurna hittum við skólastjórann en í skólanum fyrir efri bekkina var auk kynnisferðar með skólastjóra fundur á kennarastofunni. Ég kom í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra um klukkan 11.30 og var þá fundur á sal. Fékk ég tækifæri til að ávarpa nemendur. Leið ekki á löngu, þar til umræður fóru að snúast um tillöguna um endurinnritunargjald, 1500 kr., sem á að innheimta við endurinnritun í próf eða áfanga. Leggst hugmyndin greinilega illa í ýmsa nemendur. Hún miðar að því að hvetja menn til að huga vel að öllum ákvörðunum varðandi val á áföngum og leggja alúð við nám sitt. Einnig mun hún verða kennurum til aðhalds, að minnsta kosti ef marka má viðbrögð nemenda, sem telja sig ekki standa vel að vígi í öllum tilvikum gagnvart prófum vegna lélegs undirbúnings frá hendi kennara. Hljóp hiti í suma fundarmenn og einn nemendanna gat ekki setið fundinn á enda heldur hljóp út og hrópaði að mér ókvæðisorð. Jón Hjartarson skólameistari bað menn að sýna stillingu og lauk fundinum að sjálfsögðu í góðu, enda ekki til annars stofnað. Í hádeginu var fundur á vegum Sjálfstæðisfélaganna. Síðan heimsóttum við fyrirtækið RKS, rafeindafyrirtæki, sem meðal annars er að framleiða kennslutæki fyrir eðlisfræðinám, Loðskinn/Sjávarleður, sem framleiðir skinn úr roði, og Héraðsskjalasafnið. Þá höfðum við af tilviljum tækifæri til að ræða við starfsmenn á þremur skólaskrifstofum í Norðurland vestra. Síðan var fundur með héraðsnefnd Skagafjarðar, þar sem lagt var á ráðin um stækkun heimavistar við fjölbrautarskólann. Þá var farið í gamalt pakkhús Kaupfélags Skagfirðinga, sem bærinn hefur keypt fyrir minjasafn. Loks var snæddur kvöldverður í boði bæjarstjórnar, áður en flogið var til baka. Það var afmælisnefnd Sauðárkróks, sem átti frumkvæði að þessari ágætu ferð.

Síðdegis fimmtudaginn 28. nóvember fór ég í Hafnarfjörð og ritaði þar undir samning milli Hafnarfjarðarbæjar og menntamálaráðuneytisins um nýja starfsaðstöðu fyrir Kvikmyndasafn Íslands í Bæjarbíói og gamla frystihúsi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Gerðist þessi flutningur ríkisstarfsemi út fyrir Reykjavík friðsamlega. Vakti hann mig umhugsunar um það, hvort ástæða væri til þess að flytja eitthvað fleira úr höfuðborginni, ef hún sýnir jafnkuldalegt viðhorf til nýmæla eins og hún hefur til dæmis gert til Listaháskólans. Annað stórvirki er tónlistarhúsið. Verður Reykjavíkurborg reiðubúin til samstarfs um byggingu þess? Raunar lofar það ekki góðu um áformin um Reykjavík sem menningarborg árið 2000, að hún skuli nú frekar draga saman seglin í menningarmálum en hitt.