17.11.1996

Mótmæli

Vikan einkenndist nokkuð af því, að námsmenn voru að búa sig undir mótmælafundi í hádeginu föstudaginn 15. nóvember. Hringt var í ritara minn og þess óskað, að ég yrði til taks við Alþingishúsið vegna þessara mótmæla, hún skýrði frá því, að ég hefði lofað að verða í Garðaskóla í Garðabæ til að veita viðurkenningu vegna vímuefnaátaks í hádegi föstudagsins. Síðan var hringt í hana aftur og sagt, að nærveru minnar væri ekki óskað, mun þá hafa verið ákveðið að biðja forystumenn stjórnarflokkanna að taka við mótmælunum og voru þeir Halldór Ásgrímsson og Friðrik Sophusson í þinghúsinu og tóku við undirskriftarlistum námsmannanna og snjóboltum.

Þriðjudaginn 12. nóvember voru umræður á Alþingi um frv. Alþýðubandalagsins um breytingu á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Hafði ýmsum spurningum verið varpað til mín og svaraði ég þeim í ræðu , sem unnt er að lesa hér á heimasíðunni. Þar geri ég grein fyrir sjónarmiðum mínum. Ákvað ég að senda ræðuna til allra fjölmiðla til að ekki færi á milli mála, hvaða viðhorf ég hefði. Í framhaldinu svaraði ég mörgum spurningum fjölmiðla, allra nema Morgunblaðsins, sem lét duga að segja stuttlega frá umræðunum á Alþingi.

Námsmenn skipulögðu greinaskrif í Morgunblaðið og lesendabréf. Nýtti ég mér einnig blaðið til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri í grein 15. nóvember og lesendabréfi 17. nóvember. Lesendabréfið ritaði ég vegna þess, að mér blöskraði hvernig málstaður minni var affluttur, líklega í því skyni að gera hann hlægilegan, en formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands gekk fram fyrir skjöldu með þann boðskap, að menntamálaráðherrann væri hlægilegur vegna þess, að hann sinnti erindi námsmanns, sem leitaði til hans í sumar.

Eftir mótmælin 15. nóvember sló Morgunblaðið því upp, að barátta námsmanna væri að hefjast. Veit ég ekki, hvað býr þar að baki, því að námsmenn hafa ekki beint öðru en almennum áskorunum til mín og kröfum um auknar fjárveitingar. Ég hef lýst mig fúsan til viðræðna við þá, sótt fund Félags framhaldsskólanema í Hvalfirði 11. október, tekið þátt í sjónvarpsumræðum í Kvennaskólanum fyrir Óið, tekið á móti nemendum frá Laugum og Höfn í Hornafirði. Barátta getur vissulega verið markmið í sjálfu sér til að styrkja innviði sína og skapa sér stöðu út á við. Ég átta mig ekki á því, hvort barátta námsmanna er af þessari rót eða hvort þeir eru að safna liði til að koma öflugri til viðræðna um ákveðin málefni.

Í stuttu máli er ég til þess búinn að ræða við námsmenn um sjónarmið þeirra. Ég geri auðvitað alls ekki kröfu um, að þeir samþykki allt, sem ég tel skynsamlegt, og þeir geta ekki ætlast til þess, að ég samþykki allt, sem þeir vilja. Krafan um svonefndar samtímagreiðslur er til dæmis orðin svo loðin, að erfitt er að átta sig á því, hvað í henni felst. Svavar Gestsson kynnti að minnsta kosti tvær útgáfur hennar í vikunni, eina á Alþingi 12. nóvember og aðra í útvarpsviðræðum við mig á Bylgjunni síðdegis 14. nóvember. Síðan rugla menn saman námsframvindukröfum skóla og reglum LÍN. Við breytum ekki námskröfum með því að breyta lögunum um LÍN.

Eins og þeir sjá, sem fylgjast með umræðum um samstarf vinstri flokkanna, er þar hópur ungs fólks að ræða um nýjar leiðir. Menntamálin eru viðfangsefni, sem auðvelt er að sameinast um á pólitískum vettvangi, sérstaklega ef menn bera ekki mikla ábyrgð. Kannski á að skoða hræringar meðal námsmanna í þessu ljósi, þar séu einhverjir, sem vilji ná flokkspólitískum árangri með styrk námsmanna að vopni. Raunar varð sjónvarpsfrétt af Svavari Gestssyni á útifundi námsmanna á Akureyri 15. nóvember, þar sem hann hafði í heitingum við mig, til að ég rifjaði upp ljóðlínur Tómasar Guðmundssonar :

og jafnvel gamlir símastaurar syngja í sólskininu og verða grænir aftur.