10.11.1996

Stórtíðindi

Margir stóratburðir setja svip sinn á síðustu viku. Þar ber hæst innan lands hlaupið úr Grímsvötnum, sem var sannkallað spretthlaup. Ríkisstjórnin ræddi málið sama morgun og atburðirnir gerðust, þriðjudaginn 5. nóvember. Samdægurs flugu nokkrir ráðherrar og háttsettir embættismenn með Fokker-vél Landhelgisgæslunnar yfir sandana og sáu hamfarirnar, var ég ekki í þeirra hópi, enda hafði ég öðrum hnöppum að hneppa, meðal annars þeim að hitta fulltrúa sveitarstjórnarinnar á Höfn í Hornafirði og ræða við hana um framtíð Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu. Ríkisstjórnin var boðuð til aukafundar síðdegis þennan sama þriðjudag til að ræða fyrstu aðgerðir vegna hlaupsins og meta stöðuna. Þá var gengið að því sem vísu, að allar brýr á söndunum myndu eyðileggjast. Strax næsta dag kom í ljós að svo var ekki. Samkvæmt ákvörðunum stjórnarinnar verður nú gengið eins fljótt til þess verks og kostur er að koma aftur á vegasambandi um sandana.

Þennan sama þriðjudag hlaut Clinton endurkjör í Bandaríkjunum og það heppnaðist að gera við hjartað í Jeltsín í Rússlandi. Þess vegna er betur ljóst en áður, hverjir munu stjórna þessum stóru ríkjum á komandi árum.

Ég tel það í sjálfu sér ekki til mikilla stórtíðinda, að Sighvatur Björgvinsson skuli hafa náð kjöri sem formaður Alþýðuflokksins. Forsendur fyrir framboði hans voru þannig, að það sætir frekar tíðindum, að hann skyldi ekki fá meira fylgja, má segja, að hann hafi rétt marið það. Ekki veit ég um hvað Alþýðuflokkurinn er jafnklofinn í afstöðu sinni til manna, hitt er víst, að ljósvakamiðlar hafa tekið flokksþing hans öðrum tökum en landsfund okkar sjálfstæðismanna, þegar stöðugt var verið að leita til annarra flokka manna til að heyra álit þeirra á því, að líklega væri landsfundurinn ekki mjög merkileg samkoma. Kratar völdu þann kost á fundi sínum, að fá annarra flokka menn til að flytja þar aðalræður eða sitja við pallborð. Veit ég ekki, hvort skilgreina eigi það sem minnimáttarkennd eða óðeðlilega þörf á hrósi frá öðrum að standa þannig að þinghaldi. Að mínu viti staðfestir þessi framkvæmd þingsins einkum öryggisleysi Alþýðuflokksins og tilvistarkreppu. Hann segir Sjálfstæðisflokknum annars vegar stríð á hendur og biðlar svo til atkvæða til vinstri við sig. Hvernig getur þetta skilað þeim árangri að skerpa ímynd flokksins eða styrkja stöðu hans? Raunar held ég, að flokknum hafi enginn greiði verið gerður með því, hvað fjölmiðlamenn hafa tekið hann gagnrýnislausum tökum og elt hann frekar en staldra við og spyrja: Hvað er í poka Alþýðuflokksins? Hvers konar flokkur er hann orðinn eða vill verða?