18.10.1996

Húsavíkurferð - lánasjóður - ríkisráðsfundur

Föstudaginn 18. október fór ég ásamt embættismönnum í menntamálaráðuneytinu á fund á Húsavík, þar sem rætt var um samstarf framhaldsskólanna á Norðurlandi.

Siðastliðið vor efndi ég til fundar með skólameisturum framhaldsskóla á Norðurlandi og Austurlandi og hvatti til aukins samstarfs skólanna. Er það í samærmi við þá stefnu, sem mótuð hefur verið um verkaskiptingu á þessu sviði. Er ljóst, að ekki er unnt í hverjum skóla unnt að bjóða allt það nám, sem nemendur hafa áhuga á að stunda. Raunar er slíkt samstarf ekkert nýnæmi, því að grunnur að því var lagður fyrir 17 árum. Hins vegar held ég, að ekki sé vanþörf á að blása nýju lífi í það.

Til þess að ræða þessi mál og önnur, sem snerta framhaldsskólana, var efnt til fundar á Húsavík 18. október með þátttöku allra kennara í fimm framhaldsskólum á Norðurlandi: Laugum, Húsavík, Menntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og skólans á Sauðárkróki. Var þéttsetinn salur í Framhaldskólanum á Húsavík, þegar fundur hófst rúmlega 10 um morguninn. Voru málefnalegarog skemmtilegar umræður þar til rúmlega hálf eitt.

Ég fékk fjölmargar fyrirspurnir um margvísleg mál, sem snerta framhaldsskólann. Leitaðist ég við að svara þeim eftir bestu getu. Ég dró sérstaklega fram þá staðeynd í máli mínu, að brottfall úr framhaldsskólunum er mjög mikið. Er ég þeirrar skoðunar, að menntamálaráðuneytið eigi að framkvæma athugun á því, hvað veldur þessu brottfalli, sem er meira hér en annars staðar.

Eftir hádegisverð sat ég fund með skólameisturum og aðstoðarmönnum þeirra, þar sem rætt var sérstaklega um samstarf skólanna. Er að því stefnt að formlegar tillögur um framkvæmd þess við núverandi aðstæður liggi fyrir um áramót.

Síðan sat ég fund með skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík, þar sem rætt var sérstaklega um málefni þess skóla. Er hann einn þriggja skóla, sem telur sérstaklega að sér vegið við tillögugerð menntamálaráðuneytisins vegna fjárlaga fyrir næsta ár, hinir eru skólinn á Laugum og í Austur-Skaftafellssýslu.

Skýrði ég fyrir skólanefndinni það sjónarmið á bakvið tillögur ráðuneytisins, að þær tækju mið af starfi skólans. Við gætum ekki gert tillögur, sem byggðust á óskum um að skólinn væri annars konar en hann er í raun og veru. Ljóst er, að skólinn hefur þróast með öðrum hætti en vænst var í upphafi, bóknámið vegur þyngra en verknámið og fjárveitingar taka mið af því.

Einnig ræddi ég við forráðamenn Laugaskóla og sagði hið sama og ég sagði við nemendur úr þeim skóla tæplega viku fyrr, að gæti skólinn starfað innan þess fjárhagsramma, sem honum væri settur, væri unnt að semja við hann í tilraunaskyni um heimild til að útskrifa stúdenta, en það er gamalt baráttumál þeirra Laugamanna.

Þessum degi á Húsavík lauk með því, að nemendur framhaldsskólans afhentu mér heimasmíðaðan grip, sem þeir kalla Fjöregg framhaldsskólans og báðu mig að gæta gripsins í samræmi við heiti hans.

Eins og þeir sjá, sem lesa þessa pistla mína, hefur töluverðu af tíma mínum að undanförnu verið varið til þess að ræða um málefni framhaldsskólanna við skólameistara, nemendur og fulltrúa einstakra skóla. Fyrir utan þennan fund á Húsavík fór ég í þessari sömu viku, miðvikudaginn 16. október, í Kvennaskólann og ræddi þar í sjónvarpsupptöku fyrir Ó-ið um innheimtu félagssgjalda til nemendafélaga, en hún er ekki lengur þess eðlis, að allir, sem innrita sig í framhaldsskóla skuli greiða gjald til nemendafélags. Tel ég, að núverandi skipan sé í samræmi við stjórnarskrána, þar sem mælt er fyrir um það, að engan megi skylda til aðildar að félagi. Nemendur kvíða því hins vegar, að þetta kunni að kippa fótunum undan fjárhag félaganna.

Ég held, að þessar umræður um framhaldsskólana séu mjög gagnlegar, því að í þeim hafa verið lagðar fram meiri upplýsingar um starfsemi þeirra og fjárhag en áður. Er það í samræmi við nýsett lög, sem miða að fjárhagslegu sjálfstæði þeirra. Það verður ekki tryggt nema um gegnsæi sé að ræða og allar upplýsingar um starf skólanna og kostnað við þá liggi ljósar fyrir.

Lánsjóður

Fimmtudaginn 17. október hófust umræður á Alþingi um frv. Alþýðubandalagsins um að breyta lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Var frumvarp þetta flutt á síðasta þingi en flutningsmenn lögðu aldrei mikla áherslu á, að það kæmi þar til umræðu. Var ég alltaf tilbúinn til að sitja undir umræðum um málið svo var einnig síðastliðinn fimmtudag.

Ræður flutningsmanna, sem er allur þingflokkur Alþýðubandalagsins, var klissjukenndur. Hann snerist annars vegar um það, að þingmenn Framsóknarflokksins stæðu ekki við kosningaloforð sín, og hins vegar um það, að ég stæði mig ekki nægilega vel sem menntamálaráðherra og nefnd á mínum vegum hefði ekki enn lokið störfum við að endurskoða lög og reglur um LÍN, en um þá endurskoðun var samið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar án þess að tilgreint væri, hvað í endurskoðuninni fælist. Reiðust var Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins og framsögumaður, yfir því, að ég “leyfði" mér að lesa erlent dagblað á meðan hún var að skamma framsóknarmenn í ræðustólnum. Tók hún því illa, þegar ég sagðist bæði geta lesið og hlustað. Líklega hefði hún ekki tekið þessa syrpu, ef ég hefði verið að lesa þingskjöl eða einhverja opinbera skýrslu!

Í andsvari tók ég sérstaklega undir með Kristínu Ástgeirsdóttur Kvennalista um, að við endurskoðun laganna ætti að líta á reglurnar um endurgreiðslur námslána. Hinu hef ég aldrei ljáð máls að horfið verði að því kerfi, sem gilti um lánveitingar fyrir 1992 og var að setja LÍN á hausinn.

Hlé var gert á umræðunum um LÍN um klukkan 15 á grundvelli samkomulags, sem gert hafði verið um þingstörfin. Síðan átti að ganga til þeirra að nýju síðar um daginn og var Svavar Gestsson þá á mælendaskrá. Beið ég í þinghúsinu eftir að hlusta á ræðu hans í um það bil tvo klukktíma á meðan annað mál var til umræðu, einnig að ósk Alþýðubandalagsins, það er tóbaksvarnir. Þá tilkynnti forseti þingsins mér, að Svavar hefði beðið um, að umræðunni um LÍN yrði frestað.

Að sjálfsögðu sá enginn fjölmiðill ástæðu til að segja frá þessum LÍN-umræðum, svo ég yrði þess var, enda voru þær innantómar og án þess að nokkuð nýtt kæmi fram. Mál LÍN hafa svo lengi verið rædd til einskis á þeim forsendum, sem Alþýðubandalagið gefur sér, að með ólíkindum er, að þingflokkur þess haldi málinu enn fram í þessum búningi. Ítreka ég það, sem áður hefur komið fram um LÍN hér í þessum pistlum mínum, að allt talið um svokallaðar samtímagreiðslur er beinlínis farið að standa því fyrir þrifum, að gerðar séu raunhæfar og skynsamlegar breytingar á LÍN.

Ríkisráðsfundur

Þegar forseti Íslands og ríkisstjórn hittast á fundi kemur ríkisráðið saman til fundar. Eru slíkir fundir orðnir rúmlega 360 frá því að lýðveldið var stofnað. Á sínum tíma las ég allar fundargerðir ríkisráðsins, þegar ég samdi lögfræðilega ritgerð um starfsstjórnir, það er ríkisstjórnir, sem sitja eftir að þær hafa sagt af sér og bíða þess, að ný stjórn með pólitísku umboði hefur verið mynduð. Ritgerðina samdi ég, þegar ég var skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og birtist hún í Tímariti lögfræðinga.

Af athugun minni dreg ég þá ályktun, að frá því að Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, lét af störfum, snúist ríkisráðsfundir um formsatriði, það er formlegan frágang mála, sem ráðherrar þurfa samkvæmt stjórnarskránni að bera upp við forseta.

Fyrsti fundur ríkisstjórnarinnar með nýjum forseta var haldinn klukkan 11.00 að morgni sunnudagsins 20. október og eftir hann buðu forsetahjóninn ráðherrum og mökum þeirra í hádegisverð. Auk þess að bera upp mál við forsetann var tilefnið notað til að taka myndir af ríkisráðinu, en þessar myndir hanga til dæmis í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðshúsinu.