15.10.1996

Landsfundur - framhaldsskólanemar

Næsta furðulegt er að sjá viðbrögð við landsfundi okkar sjálfstæðismanna, sem efnt var til 10. til 13. október. Keppst er við á öllum fjölmiðlum að finna eitthvað, sem helst dregur athygli frá fundinum eða er til þess fallið að gera frekar lítið úr honum. Fyrir fundinn er látið að því liggja, að flokksmenn þori ekki að ræða þau mál, sem fjölmiðlar telja, að eigi að bera hæst, svo sem eins og auðlindaskatt og Evrópumál. Þegar hvoru tveggja er rætt og komist að niðurstöðu í sæmilegri sátt í báðum málum, er annars vegar sagt, að formaðurinn hafi rúllað yfir landsfundarmenn með einörðum málflutningi sínum, eða hins vegar, að flokksmenn hafi ekki þorað að ræða málin af nægilegri einurð! Þetta minnir mig helst á það, þegar stjórnarandstæðingar spyrja um eitthvað á Alþingi, því er svarað, og þá er tekið til við að kvarta undan því, að svarið hafi ekki verið nógu langt eða á annan veg en fyrirspyrjandi kaus.

Þessi “frústrasjón", sem brýst fram hjá mörgum vegna landsfundarins, er í hróplegri andstöðu við andrúmsloftið á honum sjálfum. Ég held, að engum þar hafi fundist, að hann gæti ekki hreyft hverju því, sem hann vildi. Umræðurnar eru tvískiptar, annars vegar í nefndum og hins vegar á fundinum sjálfum. Á hvorum staðnum sem er hefur hver og einn fullt frelsi til að tala eins oft og hann vill. Unnt er að flytja tillögur til breytinga á ályktunum eða nýjar ályktanir, hvort heldur í nefnd eða á fundinum sjálfum. Tillögur eru bornar undir atkvæði og afstaða tekin til þeirra með þeim hætti.

Í umræðum um menningarmálatillöguna á fundinum kom fram breytingartillaga, þegar mælendaskrá hafði verið lokað og fundarstjóri gaf ekki leyfi til andsvara, sem laut af afnámi skylduáskriftar að RÚV og banni við, að RÚV fengi fjárstuðning úr ríkissjóði, ef ég skil tillöguna rétt. Tillagan var samþykkt og er það í anda fyrri samþykkta, sem sýna andúð á skylduáskriftinni, ég held hins vegar, að enginn, nema e.t.v. flutningsmaður, hafi gert sér grein fyrir því, hvað felst í seinni hluta ályktunarinnar. Get ég hér ítrekað það, sem ég sagði um þessa tillögu við Stöð 2, að ég skildi hana ekki. Fyrir mig er því erfitt að vinna eftir henni.

Ætli það séu ekki um 40 ár síðan ég hóf að sækja landsfundi og sjaldan hef ég setið annan, sem gekk eins vel fyrir sig og þessi. Var greinilegt, að ræða Davíðs Oddssonar við upphaf fundarins mæltist vel fyrir. Hann gaf þar tóninn í ýmsum málum og auðveldaði mönnum að komast að niðurstöðu á fundinum sjálfum. Þar bar Evrópumálin, kvótamálið og landbúnaðarmálin hæst. Í raun er það síður en svo sjálfgefið, að formaður gangi fram með þeim hætti í setningarræðunni, að hann lýsi afdráttarlausum skoðunum á þeim málum, sem menn telja að verði helst að ágreiningsefni á fundinum. Hann gerir það að minnsta kosti ekki nema hann hafi til þess styrk, á fundinum kom í ljós, að Davíð hefur svo sannarlega þennan styrk í Sjálfstæðisflokknum.

Ég átta mig ekki á rökunum fyrir því, þegar Morgunblaðið segir í leiðara eftir fundinn: “Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki öllu lengur haldið sig til hlés í umræðum um þau stóru mál sem við blasir að þjóðin þarf að taka afstöðu til á næstu árum." Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem blaðið slær þessari fullyrðingu fram. Hvernig er unnt að halda því fram í alvöru, að Sjálfstæðisflokkurinn haldi sér til hlés? Hvaða stjórnmálaflokkur getur ástundað slík vinnubrögð? Síst af öllu flokkur, sem hefur verið í rúm 5 ár í ríkisstjórn. Hvað um þessa fullyrðingu Morgunblaðsins: “Landsfundurinn lét ekki brjóta á viðkvæmum deiluefnum á líðandi stundu." ? Hvað er til marks um, að þetta hafi ekki verið gert? Að allir ganga sæmilega sáttir frá fundinum?

Ég lít þannig á, að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist 13. október, hafi mál verið kynnt með þeim hætti, að blaðið líti á sig sem stjórnmálaafl, er berjist fyrir ákveðnum málum og það beri að lesa það með því hugarfari. Fréttir blaðsins af umræðum um kvótakerfið og auðlindaskatt landsfundardagana sýna, hvernig haldið er á málum, sem blaðinu eru kær og það vill að falli í ákveðin farveg.

Framhaldsskólanemar

Föstudaginn 11. október hófst landsfundur Félags framhaldsskólanema og var hann haldinn í Norræna skólasetrinu í Hvalfirði. Ég skrapp á fundinn til að greina frá viðhorfum mínum til framhaldsskólanna og svara fyrirspurnum. Var greinilegt, að menn höfðu undirbúið sig vel undir fundinn og var ég spurður um margt.

Höfuðatriði þess, sem við erum að gera til að draga úr útgjöldum til framhaldsskólans, felst í hagræðingu. Annars vegar er verið að sameina litlar einingar stærri og hins vegar eru fjárveitingar til einstakra skóla lagaðar að því starfi, sem fer fram innan þeirra. Þetta á við um skólana á Húsavík, Laugum og í A-Skaftafellssýslu. Til að árétta kröfur um hærri fjárveitingar er sagt, að þessi skólar búi við sérstöðu vegna legu sinnar. Að mínu mati hefur ekki verið sýnt fram á, að bóknám þurfi að vera dýrara í þeim en til dæmis á Laugarvatni og Egilsstöðum. Staðreynd er, að þetta eru bóknámsskólar, þótt upphaflega hafi verknám átt að setja svip á þá. Ekki er unnt að kenna skorti á fé um, að verknámið dróst saman.

Ég hafði gaman af fundinum í Hvalfirði. Einnig var ánægjulegt morguninn eftir, laugardaginn 12. október, að fá heimsókn nemenda í 3ja bekk á Laugum, sem höfðu hjólað um 500 km þaðan til að mótmæla niðurskurði á fjárveitingum til skólans. Átti ég von á þeim eftir hádegið en strax 8.30 á laugardagsmorgninum hringdu þau og sögðust vera komin í bæinn. Mæltum við okkur mót við ráðuneytið kl. 10.30 og fórum síðan þaðan á Sólon Íslandus, þar sem ég bauð upp á súkkulaði og tertur. Fór vel á með okkur.