6.10.1996

Alþingi - menntaþing

Alþingi var sett þriðjudaginn 1. október við hátíðlega athöfn, eins og jafnan áður. Dálítið meiri spenna var í kringum þessa þingsetningu en aðrar, þar sem ég hef verið beinn þátttakandi, vegna hins nýja forseta Íslands, sem nú gafst í fyrsta sinn tækifæri til að ávarpa þingheim, eftir að hann sjálfur hvarf af þingi.

Fyrir þingsetningardaginn flutti Kristján Már Unnarsson heldur einkennilegan pistil í fréttum Stöðvar 2, þar sem hann beindi athygli að því, hvort til þess kynni að koma við þingsetninguna, að einhver vandræði yrðu af hálfu forseta eða forsætisráðherra vegna hinnar hefðbundnu heillaóska til handa forseta og fósturjörðinni og húrrahrópanna fyrir Íslandi. Eina leiðin til að flytja slíkan pistil og leitast við að gera hann fréttnæman var einmitt daginn fyrir þingsetningu, því að auðvitað fór athöfnin sjálf fram samkvæmt venju og þessi þáttur hennar var ekkert fréttnæmur. Er það nokkur nýlunda hér, að menn séu að flytja fréttir af atburðum, áður en þeir gerast í því skyni að ala á því hjá fólki, að ekki sé nú allt sem sýnist, þegar atburðirnir verða.

Eftir þingsetninguna gengu fréttamenn á milli þingmanna og báðu þá að gefa ræðu forseta Íslands einkunn. Hlustaði ég á slíka yfirferð á Rás 2 og var það greinilega tilgangur þess sem spurði að árétta, að ræða forseta hefði bara verið býsna góð. Við hverju bjuggust menn af jafnreyndum ræðumanni og Ólafi Ragnari Grímssyni? Raunar hefur síðan verið leitast við að bregða því ljósi á forsetaræðuna, að hún hafi að einhverju leyti farið inn á starfsvið stjórnmálamanna. Ég átta mig ekki á því, hvað slíkar útleggingar þýða, nema menn vilji draga forsetaembættið inn í daglega stjórnmálabaráttu. Þá held ég að staða þess sem sameiningartákns muni fljótlega veikjast.

Miðvikudagskvöldið 2. október flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína. Ekki þótti mér stjórnarandstaðan ná sér á strik og heldur léttvæg stefnumörkun hennar, þegar ræðumenn hennar notuðu það, til dæmis sem punkt í ræðum sínum, að námsmönnum hefði verið úthýst af menntaþingi! Sýnir það, hve ýmsar dægurflugur eiga greiða leið inn til alþingismanna og þeir eru fljótir að grípa þær á lofti í von um að geta nýtt sér þær.

Menntaþing var haldið í Háskólabíói og Þjóðarbókhlöðunni laugardaginn 5. október. Á vegum menntamálaráðuneytisins hafði verið unnið að undirbúningi þess frá því síðastliðið vor í samvinnu við alla aðila, þar til mánudaginn 30. september, þegar Stúdentaráð Háskóla Íslands greip allt í einu til þess ráðs í mynd formanns þess að móðgast yfir hlut sínum og annarra námsmanna. Voru settar fram kröfur á síðustu stundu, sem ekki var unnt að sinna og rokið með málið í fjölmiðla á þeirri forsendu, að námsmönnum hefði verið úthýst. Gerðist það einmitt sama dag og Alþingi var sett, að formaður SHÍ fór til allra fjölmiðla og greindi þeim frá sjónarmiðum sínum til þingsins.

Þennan sama dag, 1. október fór ég meðal annars í beina útsendingu á Rás 2 til að ræða um menntaþing. Úr útvarpinu fór ég beint heim til mín en þegar ég hlýddi á kvöldfréttir hljóðvarps ríkisins var birt viðtal við formann SHÍ um menntaþing og síðan tekið fram, að ekki hefði náðst í mig. Hafði ég snögglega samband við fréttastofu hljóðvarpsins og spurði hvað hér væri að gerast, ég hefði verið í sjálfu útvarpshúsinu en samt segði í fréttum útvarpsins, að ekki hefði náðst í mig. Síðar um kvöldið kom síðan fréttamaður og tók við mig viðtal um málið til birtingar í hádegisfréttum daginn eftir.

Menntaþingið fór vel fram. Af gögnum, sem afhent voru af hálfu menntamálaráðuneytisins teljum við, að 5000 manns að minnsta kosti hafi lagt leið sína á þingstaðina. til að taka þátt í fundum eða skoða það, sem var til sýnis. Fyrir menntamálaráðuneytinu vakti ekki að kalla fram deilur heldur kalla fólk til málefnalegra umræðna um ýmis grundvallaratriði í mennta- og skólamálum. Námsmenn vildu hafa annað snið á þinginu og settu það upp í tjaldi, þegar ekki var rými í Háskólabíói.

Ég fór í námsmannatjaldið og undraðist mest, að þar skyldu ekki vera fleiri eftir alla auglýsinguna, sem þetta framtak námsmanna hafði fengið. Helst virtist vanta þar námsmenn fyrir utan þá, sem beinlínis stóðu að því að reisa tjaldið og halda þennan fund.

Í upphafi menntaþings flutti ég ræðu en útdráttur úr öllum ræðum, sem fluttar voru, en þær skiptu tugum, var gefinn út og er aðgengilegur þeim, sem áhuga hafa, var honum raunar dreift til allra, sem komu í Háskólabíó eða Þjóðarbókhlöðu og tóku þinggögn.

Vegna menntaþings var samband mitt við fjölmiðla óvenjumikið þessa viku auk þess sem ráðuneytið efndi til blaðamannafundar síðdegis fimmtudaginn 3. október til að kynna nýtt rit sitt, Tölfræðihandbók um menntun og menningu, hina fyrstu í sögunni. Auk þess að fara í viðtal á Rás 2, var ég miðvikudaginn 2. október í morgunþætti á Bylgjunni og fimmtudaginn 3. október í Íslandi í dag á Stöð 2. Þar fyrir utan voru tekin við mig viðtöl vegna framtaks námsmanna.