9.9.1996

Grænlandsferð, framhaldsskólarimma, Dagur heyrnarlausra

Mánudaginn 23. september blasti við, að nokkurt veður yrði gert út af því í fjölmiðlum, að draga þyrfti saman seglin í útgjöldum til framhaldsskóla samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir 1997. Engum, sem hlustað hefur á ummæli mín um sparnaðarkröfur til menntamálaráðuneytisins, ætti að koma þetta á óvart. Skólameistarar framhaldsskólanna á Húsavík og Laugum hafa verið nokkuð stórorðir um slæman hlut skóla sinna, en þeir komu á fund með mér og starfsmönnum ráðuneytisins til að kynnast tillögum okkar. Þessum umræðum verður haldið áfram næstu vikur, þar til fjárlagafrumvarpið verður afgreitt. Tímann þarf jafnframt að nota til að átta sig á stöðu þessara skóla og annarra. Heldur þótti mér verra, að skólameistarinn á Laugum sakaði mig um að fara með ósannindi um rétt skólans til að útskrifa stúdenta. Slíkt leyfi hefur aldrei verið veitt, enda hefur Fjölbrautarskólinn í Garðabæ komið þar við sögu, en síðastliðið vor ákvað ráðuneytið, að þeirri tilhögun skyldi ljúka. Miðvikudaginn 25. september, árla morguns, hélt ég með Grænlandsflugi til Grænlands. Hafði ég aldrei komið þangað áður. Eftir tveggja tíma flug frá Keflavíkurflugvelli lentum við í Kúlusuk, þar var áð í rúman hálftíma, þaðan var síðan tveggja tíma flug yfir Grænlandsjökul til Syðri-Straumfjarðar. Þar var skipt um flugvél og áð í tæpan klukkutíma, síðan flugum við í um klukkutíma til höfuðstaðarins Nuuk. Þar var dvalist á Hotel Hans Egede til laugardagsins 28. september, þá var beint flug frá Nuuk kl. 8 um morgunin um Kúlusuk til Keflavíkurflugvallar og lentum við þar á áætlun klukkan 14.30, en klukkan í Grænlandi er tveimur tímum á eftir okkar, þ.e, þegar hún er 14.30 hér er hún 12.30 þar. Stóð ferðin í fjóra og hálfan tíma, það er með hálftíma viðdvöl í Kúlusuk. Var flugstjórinn, íslenskur á heimleiðinni, Erlendur að nafni, og las leiðarlýsingu meðal annars á móðurmáli okkar, sem var ekki til að draga úr þægindum í ferðinni. Erindið til Grænlands var að rita undir samning milli Færeyja, Grænlands og Íslands um samstarf í mennta- og menningarmálum. Verður Akueyrarbæ falin umsjón þessa verkefnis hér á landi og var Jakob Björnsson, bæjarstjóri Akureyrar, með í ferðinni. Sámal Pétur í Grund, menningar- og samgönguráðherra Færeyja, skrifaði undir fyrir hönd síns lands og Konrad Steenholdt, menningarmálaráðherra Grænlands, fyrir hönd gestgjafa okkar. Var ákaflega vel á móti okkur tekið. Fengum við tækifæri til að skoða Norræna húsið, sem er í smíðum og tekið verður í notkun í febrúar nk. Mikil og glæsileg bygging. Einnig tókum við þátt í setningu Landsþingsins, fylgdum þingmönnum í messu og sungum þar á grænlensku og hlýddum á Sophie, biskup landsins. Þaðan gengum við síðan í þingsal og fylgdumst með setningarfundinum. Þar flutti Lars Emil Johannsson, formaður landstjórnarinnar, stefnuræðu sína og síðan var fundi slitið en umræðu um ræðuna frestað þar til síðar. Er sami háttur hafður á í Færeyjum, en hér tókst ekki samkomulag um að taka þessa aðferð upp við setningu Alþingis. Þá var siglt með okkur út á firði við Nuuk, spáð í hvali og seli auk þess sem borgarísjakar voru skoðaðir. Heldur var napurt í norðanvindinum og þess vegna var sjóferðin styttri en ella. Ég hafði mjög gaman að því að koma til Grænlands og fá örlitla tilfinningu fyrir þessu risastóra nágrannalandi okkar, sem er í senn gróðursnautt og hrikalegt í fegurð sinni. Forstjóri Norræna hússins, Jan Klovstad, sagði það sérstakt fagnaðarefni í skrifstofu sinni, þegar nýmjólk og skyr bærust á miðvikudögum frá Íslandi, annars byggju menn við G-mjólk og mjólkurduft. Í ræðu Lars Emils kom fram, að mál þokast í rétta átt á Grænlandi. Þeir binda vonir við olíuvinnslu og ætla að gera stórátak í flugvallagerð, enda eru þyrlur að hverfa úr umferð og hefðbundnar vélar að koma í þeirra stað. Vænta þeir þess einnig, að ferðamönnum muni fjölga. Loks lagði Lars Emil ríka áherslu á bindindissemi í ræðu sinni, en hann er sjálfur óvirkur alkóhólisti og hélt upp á 50 ára afmæli sitt 24. september.


--------------------------------------------------------------------------------
Klukkan 17.30 laugardaginn 28. september buðum við Rut erlendum þátttakendum í Norrænum músikdögum og íslenskum tónskáldum til síðdegisboðs í Listasafni Íslands. Sunnudaginn 29. september tókum við þátt í kaffisamsæti og skemmtun heyrnarlausra á Hótel Borg á hátíðisdegi þeirra. Var það ánægjuleg stund en greinilegt er, að heyrnarlausir vilja gera átak í menntunarmálum sínum. Hinum nýja skólastjóra Vesturhlíðarskóla, Berglindi Stefánsdóttur, sem jafnframt er formaður Félags heyrnarlausra, var innilega óskað til hamingju með hið nýja starf.
--------------------------------------------------------------------------------
Svavar Gestsson heldur áfram að skamma mig í Morgunblaðinu vegna þess, sem fram kemur hér á heimasíðunni. Svaraði ég honum í bréfi til blaðsins í dag 29. september. Mér finnst Svavar setja sig í sérkennilegar stellingar, þegar hann slítur orð mín í þessum pistlum úr samhengi og matreiðir þá með sínum afbakaða hætti fyrir lesendur Morgunblaðsins. Skil ég raunar ekki enn, hvað fyrir honum vakir, annað en það að reyna að koma í veg fyrir, að ég nýti mér þessa nýju tækni til að koma skoðunum mínum á framfæri.