19.8.1996

Núpsferð - Þingvallaauglýsing

Fyrir fjórum árum var hafist handa við að endurreisa garðinn Skrúð á Núpi í Dýrafirði. Hins vegar eru um 90 ár síðan sr. Sigrtyggur Guðlaugsson, pófastur og skólastjóri á Núpi, réðst í það stórvirki að rækta þennan einstaka skrautgarð.

Menntamálaráðuneytið kemur sem eigandi að öllum málum á Núpi, þótt það hafi lagt niður skólahald þar 1992. Þess vegna var ég beðinn að taka þátt í hátíðarhöldum á Núpi 18. ágúst, þegar endurreisn Skrúðs lauk formlega með messu, athöfn í garðinum og sýningu í skólanum og á húsinu, þar sem sr. Sigtryggur og kona hans Hjaltlína bjuggu.

Við Rut héldum með bílstjóra, Helga Kristjánssyni, akandi til Núps að morgni laugardagsins 17. ágúst og var klukkan 11 fyrir hádegi, þegar við ókum út úr Reykjavík og til Núps vorum við komin rétt um klukkan 19.00. Fórum við um Barðaströndina og fengum einstaklega fallegt ferðaveður. Gistum við í Eddu-hótelinu á Núpi.

Að lokinni messu sr. Guðrúnar Eddu Gunnarsdóttur í hinni fallegu kirkju á Núpi, buðum við Rut til hádegisverðar í Eddu-hótelinu. Þar hafði verið matreitt einstaklega glæsilegt hlaðborð með sjávarfangsréttum og voru gestir okkar um 100.

Klukkan rúmlega 14 hófst athöfnin í Skrúð og stóð hún til 15.30. Var ég meðal þeirra, sem fluttu ávörp . Síðan skoðuðum við hús sr. Sigtryggs og skólasýninguna. Þá var gengið til kaffihlaðborðs og hef ég sjaldan eða aldrei séð slíkar tertur og þarna voru.

Við lögðum síðan af stað frá Núpi rúmlega 17.00 og ókum sem leið lá inn Ísafjarðardjúp og yfir í Húnavatnssýslu og komum á næturstað eftir rúmlega fimm tíma ferð. Síðan ókum við heim á mánudeginum 19. ágúst og sýndi kílómetramælirinn, að við höfðum alls farið tæplega 1400 kílómetra á þessum þremur dögum.

Það var lærdómsríkt að taka þátt í þessari athöfn á Núpi og kynna sér sögu og störf sr. Sigtryggs. Einnig var fróðlegt og ánægjulegt að aka um Vestfirðina, þótt vegirnir mættu sumstaðar vera betri.

*

Morgunblaðið fjallaði í síðustu viku um þá ráðstöfun Þingvallanefndar að leyfa Saga film að nota efsta hluta Almannagjár til að taka alþjóðlega auglýsingamynd. Voru mál lögð þannig fyrir nefndina, að fengist ekki leyfi hennar, kynni myndatakan að renna Íslendingum úr greipum. Þegar kannað hafði verið, að hvorki yrðu unnin landspjöll eða Þingvellir yrðu misnotaðir í myndinni, þar sem ógjörlegt væri að átta sig á kennileitum, var myndatakan heimiluð. Saga film samþykkt að styrkja kortagerð á vegum Þingvallanefndar með 350 þúsund króna framlagi. Myndatakan leiddi til þess að loka varð efsta hluta gjárinnar tvo dagparta.

Ég réð það af umfjöllun Morgunblaðsins, að það vildi draga fram, hvort örugglega væru ekki einhverjir, sem teldu þessa ákvörðun Þingvallanefndar ámælisverða. Ég sagði sem nefndarformaður í samtali við blaðið, að frá mínum bæjardyrum séð byggðist það á illum huga en ekki sanngirni að gera þessa ráðstöfun tortryggilega. Þótti mér sérkennilegt að sjá það í Morgunblaðinu, að sr. Hönnu Maríu Pétursdóttur, þjóðgarðsverði á Þingvöllum, var í nöp við þessa ákvörðun Þingvallanefndar, því að hún hafði ekki haft fyrir því að láta þá skoðun í ljós við mig. Raunar hefur sr. Hanna María ekki verið virk í þjóðgarðsvarðarstörfum sínum undanfarið.

Á sínum tíma, þegar faðir minn beitti sér fyrir því, að öll umferð bifreiða var bönnuð um Almannagjá, mótmæltu fulltrúar leiðsögumanna. Var helst að skilja málflutning þeirra á þann veg, að það myndi draga úr ferðamannastraumi til landsins, að menn gætu ekki ekið niður Almannagjá. Raunin hefur orðið önnur. Nú mótmælti fulltrúi leiðsögumanna því, að efsti hluti gjárinnar var lokaður tvo dagparta. Ekki held ég, að það eigi eftir að hafa nein áhrif á komu ferðamanna hingað, enda var unnt að fara með þá á alla merkustu staði í gjánni þrátt fyrir lokunina efst í henni. Fæstir ferðamanna, sem hingað koma, gera sér yfirleitt grein fyrir því, að unnt sé að ganga niður eða upp gjána og raunar láta ekki allir leiðsögumenn þá gera það. Þessi mótmæli þóttu mér því í ætt við það, þegar ferðamálastjóri ríkisins lét í veðri vaka, að æfingaferðir herþotna á hálendinu spilltu fyrir komu ferðamanna og þess vegna ætti að banna hér heræfingar. Æskilegt væri, að ferðamálafrömuðir færðu rök fyrir fullyrðingum af þessu tagi eða sýndu fram á raunverulegt gildi þeirra.

Mér hafa fundist tilburðir til að gera þessa ákvörðun Þingvallanefndar tortryggilega bera keim af því, að menn vilji halda Þingvöllum utan nútímans. Hvergi er neitt um slíkt í friðunarlögum um þjóðgarðinn heldur er þar fjallað um að vernda beri náttúru, gróður og dýralíf. Engu var ógnað með myndatökunni og strangt eftitlit var með henni. Fulltrúar Þingvallanefndar munu skoða lokagerð myndarinnar til að ganga úr skugga um, að staðurinn verði ekki vanvirtur með því, sem í myndinni sést.

Ég endurtek: Það er hvorki af góðum huga gert né umhyggju fyrir Þingvöllum að gera þessa ákvörðun Þingvallanefndar tortryggilega.