22.7.1996

Á Ólympíuleikum í Atlanta

Allt, sem snertir Ólympíuleikana, er stórt í sniðum og hið sama má segja um það, þegar Bandaríkjamenn taka sig til og standa að leikunum. Að þessu sinni eru það Suðurríki Bandaríkjanna, nánar tiltekið Georgíu-ríki og þó einkum borgin Atlanta, sem er gestgjafi leikanna. Í ljósi sambúðar hvítra og svartra á þessum slóðum var það í sögulegu, pólitísku og íþróttalegu tilliti snjöll ákvörðun þeirra, sem skipulögðu hina glæsilegu setningarathöfn leikjanna að kvöldi föstudagsins 19. júli, að fela Múhameð Ali (Cassius Clay) hnefaleikakappanum, gullverðlaunahafa á leikunum 1960, að halda síðast á kyndlinum með Ólympíueldinn frá Grikklandi og bera hann að kveiknum, sem lá að skálinni, þar sem eldurinn logar á meðan leikarnir standa í Atlanta. Allt, sem snertir Ólympíuleikana, þarf einnig að undirbúa af kostgæfni. Sex ár eru síðan Atlantabúar hófu undirbúning sinn og keppendur hafa stefnt á leikana um langt árabil og æft sig markvisst með þátttöku í þeim í huga. Fyrir 15. febrúar síðastliðinn vildu gestgjafarnir í Atlanta vita, hvaða virðingarmenn frá öðrum löndum myndu sækja þá heim vegna leikanna. Júlíus Hafstein, forseti íslensku Ólympíunefndarinnar, sendi þá ráðherrum bréf og leitaði eftir því, hvort áhugi væri á að fara til leikanna. Um þetta leyti tók ég ákvörðun um að þiggja boð um að vera á setningarathöfnina og við hjónin myndum þiggja það að vera gestir Ólympíunefndarinnar í Atlanta. Jafnframt lá fyrir, að Einar Benediktsson, sendiherra Íslands í Washington, og Arnór Sigurjónsson, sendiráðunautur í Washington, myndu slást í förina með okkur. Sagði Júlíus, að þetta væri í fyrsta sinn sem menntamálaráðherra sækti Ólympíuleika, en íþróttir heyra undir menntamálaráðuneytið. Síðdegis miðvikudaginn 17. júlí flugum við til Baltimore og ókum þaðan til Washington en daginn eftir, fimmtudaginn 18. júlí, flugum við þaðan með þeim Einari og Arnóri til Atlanta. Skuggi var yfir þessum degi, því að kvöldið áður gerðist sá hörmulegi atburður, að TWA Boeing 747 þota með 230 manns innan borð sprakk í loft upp skömmu eftir flugtak frá Kennedy-flugvelli í New York, lifði enginn sprenginguna. Flugvél okkar lenti á áætlun í Atlanta en fór að öðru hliði en ráðgert hafði verið. Umferðin um Atlanta flugvöll er ein sú mesta í heimi, um 200.000 manns á dag. Raunar er það ævintýri út af fyrir sig, að menn skyldu taka sig saman og ákveða að reisa slíkan risaflugvöll við Atlanta á sínum tíma, þegar íbúar þar voru ekki fleiri en 500.000 ( nú eru þeir um 3 milljónir og 6 milljónir í Georgíu-ríki öllu, þannig að það er síður en svo eitt af stóru ríkjum Bandaríkjanna, sem sýndi þann kjark að sækjast eftir Ólympíuleikunum 1996, þegar 100 ár eru liðin frá því að þeir voru endurreistir), nú er þessi flugvöllur heimili Delta-flugfélagsins og í stöðugum vexti eins og almennt má segja um bandaríska flugvelli. Vegna þess að vélin var ekki við það hlið, sem upphaflega var ætlað, var Maurice Horowitz aðalræðismaður, sem tók á móti okkur, hræddur um að hann yrði ekki við hliðið í tæka tíð. Maurice hefur verið ræðismaður í 30 ár og kynntist Íslendingum og þeir honum vegna fisksölu hans. Var það Jón Gunnarsson. forstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og stofnandi Coldwaters, sem fékk Maurice til að selja fisk fyrir sig á sínum tíma. Þarna var hann sem sé kominn og leiddi okkur í gegnum flugvöllinn og þurftum við meðal annars að fara með neðanjarðarlest innan vallar, áður en við komum að töskubeltinu. Mannfjöldinn var gífurlegur og reyndum við að skyggnast eftir Júlíusi Hafstein í mannfjöldanum, því að við áttum einnig von á honum. Hann sáum við þó ekki og fórum því með leigubíl inn í borgina. (Eftir heimkomuna sá ég, að Morgunblaðið taldi þetta efni í sérstaka frétt, hvernig við ókum inn í borgina.) Áður en við fórum að heiman hafði okkur verið afhentur sérstakur passi, sem átti að gilda til að komast inn á hótelið í miðborg Atlanta, þar sem forystumenn Ólympíunefnda einstakra landa búa og gestir þeirra. Gekk það eftir, að við komumst inn á hótelið með farangur okkar en lengra fengum við ekki að fara, án þess að láta skrá okkur frekar og enginn fór inn á hótelið, nema í gegnum vopnaleitartæki og öryggisgæslu. Fórum við nú í gegnum tvær síur, ef ég má orða það svo, áður en okkur var afhentur nýr passi með mynd af okkur, sem tekin var á staðnum. Þessi passi gilti bæði til að komast inn á hótelið og ferða sinna í því og einnig var hann aðgöngumiði á alla einstaka viðburði á leikunum. Júlíus og kona hans Erna Hauksdóttir hittu okkur einmitt, þegar við vorum í þessu ferli miðju. Hafði Júlíus verið úti á flugvelli en vegna tafa við að kalla saman bíla á vegum gestgjafanna í Atlanta og mannhafsins á vellinum, fórumst við á mis. Raunar kom það oftar fyrir, að þetta bílakerfi Atlanta-borgar var of þungt í vöfum og gripu þeir Júlíus og Arnór því til annarra ráða til að koma okkur á milli staða. Bílstjórar Atlanta-borgar eins og flestir starfsmenn við leikana eru sjálfboðaliðar, sem hafa mismikla æfingu í að standa í slíkum stórræðum. Var greinilegt, að fyrstu dagana voru starfsmennirnir ekki síður að læra á kerfið en gestirinr. Maurice ræðismaður og kona hans buðu hópnum í glæsilegan kvöldverð þetta fyrsta kvöld í Atlanta og þangað komu líka Ari Bergmann, framkvæmdastjóri Ólympíunefndar, og Ólöf Erna Óladóttir, eiginkona hans. Þar voru einnig Geir Guðnason og frú, en Geir hefur unnið hjá Coca Cola, sem hefur höfuðstöðvar í Atlanta. Morgunin eftir, föstudaginn 19. júlí, var farið í skoðunarferð um Atlanta. Fyrst heimsóttum við safn um Jimmy Carter, Bandaríkjaforseta 1976 til 1980. Forstjóri þess sýndi okkur þessa glæsilegu byggingu, þar sem Carter hefur skrifstofu og getur búið, þegar hann vill, en hann er einmitt ættaður frá Georgíu og var þar ríkisstjóri á sínum tíma. Síðan lá leiðin að gröf Marteins Luthers Kings og kirkjunnar, þar sem faðir hans þjónaði og Marteinn Luther predikaði að jafnaði einu sinni í mánuði. Er ætlunin að breyta henni í safn og reisa aðra nýja kirkju í nágrenninu. Það þarf ekki að taka fram við þá, sem fylgst hafa með fréttum af leikunum, að hitinn í Atlanta er mikill um þessar mundir og fór það ekki fram hjá okkur. Upp úr hádegi snerum við aftur til hótelsins og tókum að búa okkur undir setningarathöfnina miklu um kvöldið. Hún hófst klukkan 20.45 en frá klukkan 17.00 bauð forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar kvöldverð á hótelinu. Við fórum þaðan með rútu um klukkan 18.00 og var klukkan rúmlega 18.30, þegar við komum inn á leikvanginn. Hófst þá um tveggja tíma bið eftir að athöfnin sjálf hæfist. Lengst af sátum við í sætum okkar en gátum einnig farið í baksali og fengið okkur svalardrykki. Um 80.000 manns voru á þessum mikla leikvangi þetta kvöld og kostaði miðinn tæpa 700 dollara en sagt var, að hann hefði farið í 5.000 dollara á svörtum markaði. Er það lífsreynsla í sjálfu sér að sitja í svo miklum mannfjölda og vera jafnframt minntur á það hvað eftir annað í hátölurum, að um 3,5 milljarðir jarðarbúa muni fylgjast með athöfninni í sjónvarpi. Skömmu áður en stóra stundin rann upp var áhorfendum á vellinum bent á að opna töskur í sætum sínum og taka úr þeim annars vegar slæðu og hins vegar vasaljós. Síðan var okkur kennt, hvernig með hvoru tveggja skyldi farið í athöfninni, þegar merki væri gefið. Slæðurnar voru misjafnar á litinn og voru þær notaðar til að mynda bylgju áhorfenda, þegar við stóðum upp í því skyni. Á ljósunum voru plasthimnur, mismunandi á litinn. Voru þær á í fyrra atriðinu, þegar vasaljósin voru notuð, en við tókum himnurnar síðan af, þannig að í lokaatriðunum voru öll ljósin hvít. Hér ætla ég ekki að skýra frá hinni stórbrotnu athöfn. Allt virtist hins vegar ganga eins og smurð vél, þar til íþróttamennirnir hófu að ganga inn á leikvanginn. Þá fór eitthvað úr skorðum öðru hverju og kom það heim og saman við það, sem íslensku keppendurnir sögðu okkur daginn eftir. Það hefði á stundum ríkt ringulreið, þegar liðin áttu að ganga af stað. Við stóðum upp og veifuðum slæðum okkar, þegar íslenski hópurinn gekk fram hjá. Var hann um miðbik hinnar tveggja tíma löngu göngu íþróttamannanna. Virtust allir sammála um, að þessi ganga sé orðin of stór í sniðum, þegar ríkin eru 197 eins og nú er. Þá vakti athygli okkar, hve aginn í liðunum virtist mismunandi. Sumir voru að stoppa og taka myndir af eigin liði og öðrum. Íslendingarnir voru ekki með neinar myndavélar og fóru þar eftir þeim reglum, sem þeim voru settar. Klukkan var um eitt eftir miðnætti, þegar við komum aftur heim á hótel. Held ég að flestir hafi verið hvíldinni fegnir. Klukkan 9 að morgni laugardagsins 20. júlí fórum við í höllina, þar sem fimleikarnir voru. Þar keppti Rúnar Alexandersson þá í skyldugreinum og sáum við þrjár síðustu greinarnar hjá honum. Fyrir aftan okkur sat Carter, fyrrverandi forseti, kona hans Rosalynn, dóttir þeirra Amy og vinur hennar. Skiptumst við á kveðjum og þótti þeim íslenski keppandinn hafa staðið sig vel. Síðan lá leiðin í Ólympíuþorpið með Kolbeini Pálssyni, sem er staðarhaldari Ólympíunefndar þar. Hittum við alla íslensku keppendurna þar í húsi, sem þeir hafa til ráðstöfunar alla leikana. Létu þau mjög vel af aðstöðunni og var það ánægjulegasta stund þessarar dvalar að fá tækifæri til að vera með þeim, því að andinn var góður og allir greinilega staðráðnir í að gera sitt besta. Öryggisgæsla var meiri í þorpinu en annars staðar og er þá mikið sagt. Innan þess er allur matur og drykkur ókeypis og fórum við með hópnum í matartjaldið svonefnda, sem reist hefur verið í tilefni leikanna, þar sem 3.500 manns geta borðað samtímis og öllu á að vera þannig komið fyrir, að aldrei myndist biðröð. Dáðust meiri sérfræðingar en ég í tjöldum að því, hvílík undrasmíð þetta tjald væri og loftkælingin innan þess. Eftir að við höfðum borðað og kvatt hið hressa og glæsilega íþróttafólk okkar, fórum við í sundhöllina og skoðuðum það mikla mannvirki. Þar var fólk við æfingar á þessum tíma, meðal annars kvennalið Bandaríkjanna í sunddansi. Var nákvæmni hópsins með ólíkindum. Um kvöldið skruppum við eftir kvöldverð í boði Júlíusar og Ernu og litum klukkan rúmlega 22.00 á hluta leiks bandaríska Draumaliðsins við Argentínumenn í körfubolta. Var ótrúlegt að sjá leikni Bandaríkjamannanna. Að morgni sunnudagsins 21. júlí fórum við að stað fyrir klukkan níu til að sjá Vernharð Þorleifsson keppa í 95 kg. flokki í júdó. Vernharð hafði ekki komið með okkur að borða í hádeginu daginn áður, því að hann var að ná sér niður í 95 kg. Hann keppti við Kóreumann, sem hafði betur. Var Vernharð óánægður með það vegna þess, að hann taldi dómarann ekki hafa dæmt rétt. Síðar vann Kóreumaðurinn alla aðra andstæðinga sína í riðlinum og opnaði það leið fyrir Vernharð að nýju. Í hádeginu var því að nýju komið að Vernharð að glíma og að þessu sinni við Rússa. Hann lagði Vernharð, sem var í sjálfu sér sáttari við sjálfan sig og þau úrslit en keppnina við Kóreumanninn. Við svo búið urðum við að hverfa af vettvangi til að pakka og ná í flugvélina. Þótti okkur vissara að hafa vaðið fyrir neðan okkur í þeim efnum, ef öryggisgæsla og mannmergð ylli töfum. Svo reyndist þó ekki. Þennan sama morgun á milli lota hjá Vernharði skoðuðum við hina risastóru ráðstefnuhöll, þar sem júdó-keppnin var. Þar kepptu menn í fjölmörgum öðrum greinum, skilmingum, grísk-rómverskri glímu og fl. og fl. Síðdegis sunnudaginn 21. júlí flugum við Rut síðan frá Atlanta til Boston, þaðan sem Flugleiðavél átti að fara klukkan 21.30 en hóf sig ekki til flugs fyrr en rúmum fjórum tímum síðar, var klukkan því 10.30 að mánudagsmorgni, þegar við lentum í Keflavík í stað 6.20. Er alltaf leiðinlegt og erfitt að lenda í slíkri töf, sem raunar heyrir nú orðið til undantekninga hjá Flugleiðum. Þegar þetta er skrifað í miklum fljótheitum, eins og flest af þessum dagbókarbrotum mínum, hefur mér í raun ekki gefist tóm til að melta allt það, sem við sáum og heyrðum í Atlanta. Leikarnir eru svo stórir í sniðum, að líklega hefur enginn hugarafl til að nema umfangið allt, hvað þá sá, sem er lítt að sér í íþróttum og aðeins staldrar við í nokkra sólarhringa. Í huganum ber þó hæst, hve umgjörðin er mikil og hve þjálfun og ögun keppendanna er mikil, þegar á hólminn er komið. Þótt yfirbragð þeirra hafi verið losaralegt í göngunni miklu inn á völlinn, má ekki skeika sekúndubroti, þegar til keppni er gengið. Vitlaust handtak eða röng hreyfing getur ráðið úrslitum. Allir eru komnir til að gera sitt besta. Sannfærist keppendur og mótshaldarar um, að þeir hafi gert sitt besta, ganga allir sáttir frá leik að lokum.