14.7.1996

Snorrastofa opnuð

Í dag, sunnudaginn 14. júlí, skrapp ég í hinu fegursta veðri upp í Reykholt, þar sem Snorrastofa var formlega opnuð með fyrirlestrum og sýningum, bæði á handritum og ritverkum, sem tengjast Snorra, og á atburðum úr þjóðarsögunni, sem tengjast staðnum.

Fjölmenni var meira við athöfnina en heimamenn höfðu vænst og dróst aðeins að hún hæfist á meðan sr. Geir Waage og fleiri báru stóla í kirkjuna, þar sem dr. Jónas Kristjánsson flutti fróðlegt og skemmtilegt erindi um Snorra og þeir Þorleifur Hauksson og Gunnar Stefánsson lásu úr verkum hans. Að lokinni athöfninni í kirkjunni, sem verður vígð 28. júlí, var gengið niður í sýningarsalina. Loks var drukkið kaffi í Eddu-hótelinu.

Vel hefur verið staðið að málum varðandi Snorrastofu og nýju kirkjuna. Er mun staðarlegra í Reykholti en áður. Skólastarf verður þar á næsta vetri með sama sniði og hinn síðasta undir stjórn Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Fyrir rúmu ári var ákveðið að efna til tveggja ára tilraunastarfs af þessu tagi í skólahaldi í Reykholti. Sýnist mér allt stefna í þá átt, að ekki verði lengur haldið áfram á þessari braut og huga þurfi að annarri nýtingu á því húsnæði, þar sem skólinn starfar.

Miðvikudaginn 10. júlí voru að venju viðtöl hjá mér fyrir og eftir hádegi. Er málum þannig háttað um þessar mundir, að í raun er enginn biðlisti viðmælenda. Klukkan 17 fór ég í Ráðhúsið, þar sem það kom í minn hlut að opna sýningu á íslenskri byggingarlist með Miðvikudaginn 10. júlí voru að venju viðtöl hjá mér fyrir og eftir hádegi. Er málum þannig háttað um þessar mundir, að í raun er enginn biðlisti viðmælenda. Klukkan 17 fór ég í Ráðhúsið, þar sem það kom í minn hlut að opna sýningu á íslenskri byggingarlist með ávarpi. Kom mér á óvart, hve þessi sýning er vel úr garði gerð og forvitnileg. Úr Ráðhúsinu héldum við beint í Listasafn Íslands, þar sem ég tók við gjöf frá Unu Copley á málverkum og skissum eftir móður hennar Nínu Tryggvadóttur til Listasafnsins.

Föstudaginn 12. júlí hitti ég sendinefnd frá Caen í Normandí í Frakklandi, sem var hér til að undirbúa menningarhátíð þar í haust, þar sem íslenskar bókmenntir og listviðburðir verða í fyrirrúmi. Er meðal annars áhugi á því, að héðan komi sögusýning, sem sett verði upp í helsta sýningarsal Caen-borgar og markar það upphaf nýs kafla í þessum hátíðarhöldum, sem eiga rætur í norrænu deild háskóla borgarinnar og hafa síðan þróast stig af stigi. Normandíbúar sýna norrænum uppruna sínum sífellt meiri áhuga og líta á framlag frá Íslandi, sem mikilvægan þátt í leit að sögulegri fortíð sinni. Vonandi tekst að verða við óskum þeirra um sögusýningu héðan. Höfðu þeir meðal annars skoðað arkitketasýninguna í Ráðhúsinu og höfðu áhuga á henni auk efnis, sem í boði er af íslenskri hálfu.

Síðdegis þennan sama föstudag var 30 ára afmæli Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands haldið hátíðlegt í Tæknigarði, þaðan fór ég í Tölvuskólann, þar sem Ozone var að kynna rafræna tímaritið sitt decode. Um kvöldið var síðan heimsfrumsýning á vegum Leikfélags Íslands í Borgarleikhúsinu á leikritinu Stone Free, sem virðist vekja mikinn áhuga, ef marka má auglýsingar um, að uppselt sé á fimm fyrstu sýningarnar. Finnst mér líklegt, að áhorfendur verði almennt ekki fyrir vonbrigðum.

Laugardaginn 13. júlí skrapp ég á tvær málverkasýningar, sem voru að opna: Arthur A'Avramenko í Hafnarborg og Sigurður Örlygsson í Listasafni Kópavogs. Á sýningu Sigurðar er unnt að kynnast listferli hans og þróun hans frá 1971, þegar hann sýndi í fyrsta sinn.