9.7.1996

Fjárlagahalli og ferðalög

Á næstu vikum og mánuðum setjast ráðherrar og þingmenn á rökstóla um lækkun fjárlagahallans. Uppsveiflan í efnahagslífinu hefur styrkt stöðu ríkissjóðs, engu að síður er nauðsynlegt að takmarka ríkisútgjöldin um 4 milljarði króna á næsta ári til að endar nái saman. Er lagt harðar að ríkisstjórninni að gera þetta nú þegar fer að rofa til í efnahagsmálunum. Menn geta því ekki gert sér vonir um, að útgjöld til einstakra málaflokka aukist. Þvert á móti þarf að hægja á ferðinni og takmarka fjárstreymi úr ríkissjóði. Þetta kann að verða sársaukafullt á ýmsum sviðum, til dæmis í framhaldsskólakerfinu, sem nú er helsti útgjaldaliður menntamálaráðuneytisins.

Þriðjudaginn 2. júlí fór ég til Ísafjarðar um hádegisbilið með áætlunarvél um Þingeyri. Ungir sjálfstæðismenn stóðu fyrir norrænum fundi á Ísafirði og báðu mig að ræða þar um öryggis-, varnar- og Evrópumál. Finnst mér alltaf gaman að skýra þróun þeirra jafnt fyrir innlendum sem erlendum áheyrendum, því að ljóst er, að utanríkis- og varnarstefna okkar Íslendinga hefur gengið upp með ágætum. Er ekki neinn vandi að skýra þessa stefnu fyrir erlendum áheyrendum, hún er í senn rökrétt og skynsamleg. Markmið hennar hafa náðst, að tryggja Íslendingum öryggi, góða markaði og eðlilega aðild að alþjóðasamstarfi. Ekkert sérstakt knýr á um þátttöku í Evrópusambandinu. Ekkert hefur heldur verið gert, sem spillir fyrir slíkri þátttöku náist um hana pólitísk sátt innan lands.

Í hádegi fimmtudagsins 4. júlí átti ég þess kost að hitta Vladimir Ashkenazy með Stefáni Pétri Eggertssyni, formanni nefndar, sem kannar kosti og galla nýs tónlistarhúss. Fórum við yfir stöðu málsins en eins og menn hafa séð í blöðum er Ashkenazy mikill áhugamaður um, að í smíði þessa húss verði ráðist og telur raunar hina mestu hneisu, að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu. Um kvöldið þennan dag fór ég með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni á frumsýningu leikritisins Að sama tíma að ári í Loftkastalanum og skemmtum við okkur hið besta.

Að morgni föstudagsins 5. júlí var ríkisráðsfundur að Bessastöðum en síðdegis þann dag tók ég á móti nefnd franskra þingmanna, sem er hér í boði Alþingis. Við svo búið hélt ég síðan norður í land.

Að morgni laugardagsins 6. júlí sat ég fund með fulltrúum skólanefndar og héraðsnefndar í bóknámshúsi fjölbrautarskólans á Sauðárkróki. Þaðan héldum við fjögur saman til Siglufjarðar, þar sem bæjarstjórn bauð okkur í hádegisverð. Síðan efndi ég til fundar með sjálfstæðismönnum á staðnum, þá ræddi ég við bæjarstjóra og skólamenn um flutning grunnskólans, síðan var farið í skoðunarferð og loks í stórfróðlega heimsókn í Síldarminjasafnið. Þessum fagra degi lauk síðan með ógleymanlegri ferð í Siglunes, þar sem tekið var á móti okkur með góðri veislu.

Við gistum að Hraunum í Fljótum og fórum þaðan að morgni sunnudagsins 7. júlí til Hóla í Hjaltadal, þar sem forsætisráðherra og kona hans höfðu gist eftir ferð í Grímsey, daginn áður. Hafði ekki forsætisráðherra komið þangað síðan faðir minn heimsótti eyjuna 1968. Fórum við í skoðunarferð um Hólastað undir leiðsögn skólastjórans þar, var okkur meðal annars sýnt nýtt safn íslenskra vatnafiska. Að loknum hádegisverði í boði skólastjóra með þátttöku forseta Íslands fórum við á Hofsós, þar efnt var til hátíðar fram yfir kvöldmat til að fagna Vesturfararsetri, sem opnað var þennan dag. Var ég meðal fjölmargra, sem fluttu ávörp við athöfnina.

Að morgni mánudagsins 8. júlí heimsóttum við Blönduós, skoðuðum hina fögru nýju kirkju þar undir leiðsögn heimamanna, fórum í gamla Kvennaskólahúsið, þar sem fræðslustjórinn og hans fólk var að pakka saman vegna þess að skrifstofan er að loka. Heimsóttum Heimilisiðnaðarsafnið og skoðuðum elsta timburhús á Íslandi, sem er síðan 1733. Eftir hádegisverð í boði sveitarstjóra og forráðamanna á Blönduósi ókum við síðan sem leið liggur í fögru veðri suður Kjöl. Hafði ég aldrei farið þá leið áður og gat líklega ekki fengið betra ferðaveður til fjalla.