30.6.1996

Forsetakosningar - Eurimages - listahátíð lýkur

Flestir eru líklega fegnir því, að forsetakosningar eru að baki. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. júní lýsti ég stuðningi við Pétur Kr. Hafstein á þeirri forsendu, að mér fannst, að í kosningabaráttunni hefði hann lýst því af mestri skynsemi, hvað fælist í því að gegna embætti forseta Íslands. Ég tek undir það sjónarmið, að erfitt kann að vera fyrir Ólaf Ragnar að sýna og sanna, að hann sé forseti allra Íslendinga. Breytir engu um það, að hann hafi rétt marið 40% og Vigdís ekki fengið nema um 33% á sínum tíma og samt tekist að sameina þjóðina um embætti forsetans. Til marks um að þetta kunni að vera erfitt eru ýmis orð, sem stuðningsmenn Ólafs Ragnars létu falla á kosninganóttina, til dæmis Baldur Óskarsson, sem rætt var við á kosningahátíð Ólafs Ragnars. Vilji þeir lesa annað í úrslitin en kosið hafi verið um embætti forseta Íslands er strax farið inn á hættulega braut.

Á kosninganóttina voru menn sammála um, að skoðanakannanir hafi gefið réttar vísbendingar. Þetta er gleðilegt, því að þessar sömu kannanir sýndu allar mikla fylgisaukningu sjálfstæðismanna, þegar rætt var um stöðu flokks okkar á landsvísu. Þá kom fram, að samkvæmt þeim nýtur R-listinn ekki stuðnings meiri hluta í Reykjavík. Er fylgi Sjálfstæðisflokksins um 56%. Hef ég sérstaka ástæðu til að fagna þessu, því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri R-listans, lýsti yfir því á 2ja ára valdatökuafmæli R-listans fyrir skömmu, að við samgönguráðherra værum helstu andstæðingar R-listans.

Athygli hlýtur að vekja, að ekkert dagblaðanna í landinu tók afstöðu með frambjóðanda í forsetaembættið. Ef einhverjir halda, að með þessu hlutleysi séu íslenskir fjölmiðlar að feta í fótspor einhverra virtra dagblaða erlendis, er það mikill misskilningur. Skoðanalaus blöð í slíkum málum þykja ekki mikils virði enda vandfundin. Þá þótti mér þess gæta, að fjölmiðlamenn litu þannig á, að hefði maður lýst framboði sínu til forseta væri hann búinn að fá yfir sig friðhelgina, sem forsetaembættinu fylgir, eða að minnsta kosti hluta af henni. Raunar er það rétt, sem Atli Rúnar Halldórsson sagði í sjónvarpi á kosninganóttina, að Ólafur Ragnar rak sína kosningabaráttu alla á þeirri forsendu, að hann væri orðinn forseti, eftir að hann bauð sig fram. Sólarhring fyrir kjördag var borinn út ljósmynd af forsetahjónunum, sem við getum sett í ramma okkur til gleði og ánægju.

Fjölmiðlar léku með Ólafi Ragnari í þessu í viðbrögðum sínum, sem skýrast kom fram síðustu sólarhringana fyrir kjördag, þegar fjaðrafokið varð vegna auglýsinganna í Morgunblaðinu. Með öllu er ástæðulaust að segja, að við lestur auglýsinganna hljóti menn að fyllast heilagri reiði yfir því, að með óheiðarlegum hætti sé vegið að Ólafi Ragnari. Ekkert kom þar fram, sem ekki hafði verið rætt áður og Ólafur Ragnar hafði fengið mörg tækifæri til að skýra. Hann valdi hins vegar frekar þann kost að ræða formið en efnið í þeim anda, að það væri rógur um sig að vekja máls á fortíðinni. Var þetta í samræmi við það meginstef kosningabaráttu hans, að með framboðinu væri hann í raun orðinn forseti. Fjölmiðlafárið í kringum auglýsingarnar var allt með þeim formerkjum, að eitthvert hneyksli hefði orðið. Ég hafði ekki tök á að fylgjast með sjónvarpi þau kvöld, sem um þetta var fjallað þar, en lesendur Morgunblaðsins gátu ekki skynjað annað af viðbrögðum ritstjórnar en hér væru hins verstu mál að gerast fyrir tilstuðlan andstæðinga Ólafs Ragnars. Eitt af því, sem Ólafur Ragnar telur sér til ágætis er, að hann lærði í Bretlandi nýja fjölmiðlatækni, sem hann segist síðan hafa innleitt hér á landi í óþökk ráðamanna og þess vegna hafi verið þaggað niður í sér í Ríkisútvarpinu. Hvað eru auglýsingarnar í Morgunblaðinu annað en það, sem menn hafa tileinkað sér í nýrri fjölmiðla- og kosningatækni í útlöndum? Er það ein af þverstæðum þessarar kosningabaráttu, að Ólafur Ragnar sé nú í þeim sporum að vilja þagga niður í einstaklingum, sem vilja innleiða þessa tækni hér á landi og nýta sér hana?

Að sjálfsögðu hljóta stjórnmálafræðingar og aðrir að brjóta þessa kosningabaráttu til mergjar og lýsa þróun hennar og meta, hvaða áhrifavaldar ræðu mestu um úrslitin. Tilfinningalega þurfa margir einnig að gera niðurstöðuna upp við sig. Ég held fast við þá meginskoðun mína, að um forsetaembættið gildi svo fastar og skýrar reglur og hefðir eftir rúm fimmtíu ár og setu fjögurra ólíkra einstaklinga í því, að kosningar leiði ekki til neinnar kollsteypu. Sérhver einstaklingur setur sinn svip á embættið og þess vegna væri skemmtilegt, ef sérfræðingur í persónugerð einstaklinga tæki sér fyrir hendur að skilgreina hinn nýja forseta á grundvelli þess, sem fram kom í baráttunni. Það kynni að gefa okkur jafngóða vísbendingu og skoðanakannanir undanfarna vikna, hvers konar anda við megum vænta á næstu árum frá Bessastöðum.

Um langt árabil hef ég átt samstarf við Ólaf Ragnar við mismunandi leikreglur. Oft hefur það verið ánægjulegt, þótt einnig hafi í brýnu slegið. Nú mæla leikreglurnar fyrir um hollustu við stjórnarskrá lýðveldisins. Er ekki að efa, að hún verður í heiðri höfð.

Eurimages

Að morgni mánudagsins 24. júní hófst hér stjórnarfundur evrópska kvikmyndasjóðsins Eurimages með því að ég flutti þar ræðu og skýrði frá þróun íslenskrar kvikmyndagerðar undanfarin ár og ekki síst síðan 1979, þegar segja má, að bylting hafi orðið, eftir að kvikmyndin Land og synir eftir Ágúst Guðmundsson var frumsýnd.

Þennan sama dag birti Bandalag íslenskra listamanna yfirlýsingu sína um íslenska kvikmyndagerð. Kveður þar við sama tón og oft áður, að fáist ekki meira fjármagn muni íslensk kvikmyndagerð hverfa úr landi ef ekki líða undir lok. Að sjálfsögðu er æskilegt að fá meira fé, hitt er ekki rétt að stilla málinu þannig upp, að það ráðist einvörðungu af opinberu fé héðan, hvort íslenskar kvikmyndir fái erlent fjármagn. Í norræna kvikmyndasjóðnum er ekki sett neitt skilyrði að þessu leyti, þar líta menn á handritið og dreifingarsamninga. Íslensk stjórnvöld greiða að sjálfsögðu aðildargjald að norræna sjóðnum og einnig að Eurimages. Frá Eurimages hafa komið tilmæli um að framlag okkar til sjóðsins hækki.

Að kvöldi þriðjudagsins 25. júní efndum við Rut til kvöldverðar fyrir stjórnarmenn Eurimages og fulltrúa frá íslenskum kvikmyndargerðarmönnum í Perlunni. Fundinum lauk síðan á miðvikudag og tel ég, að fundarmenn hafi farið héðan ánægðir. Áttu þeir það skilið, því að Eurimages hefur veitt íslenskri kvikmyndagerð ómetanlegan stuðning.

Síðdegis mánudaginn 24. júní flutti ég ávarp og afhenti skírteini í athöfn á vegum Útflutningsráðs í tilefni af því, að sjötta námskeiði þess um útflutningsátak og hagvöxt var að ljúka. Þar ganga stjórnendur eða markaðsstjórar fyrirtækja í gegnum námskeið til að átta sig á því, sem á reynir við útflutning. Velti ég því fyrir mér, hvort ýmsir sem starfa að menningu og listum þurfi ekki að ganga í gegnum slík námskeið til að styrkja stöðu okkar á erlendum vettvangi. Ég er sannfærður um, að íslenskir listamenn eiga í meira mæli erindi á alþjóðavettvang og aðeins með samkeppni þar halda þeir áfram að þróast og þroskast án þess að glata hinum upprunalegu sérkennum.

Síðdegis laugardaginn 29. júní, kjördag, voru síðustu tónleikar Listhátíðar í Reykjavík 1996, sem við Rut sækjum. Þýska sinfóníuhljómsveitin í Berlín lék í Laugardalshöll til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur undir stjórn Vladimirs Ashkenazys. Um kvöldið voru þau Ashkenazy og Þórunn gestir okkar í Háuhlíð, þegar fyrstu tölurnar komu.