9.6.1996

Sumarvinna hefst - listaannir

Áður hef ég vikið að þeim misskilningi margra, að með sumarhléi á störfum Alþingis ljúki störfum stjórnmálamanna. Þetta á hvorki við um ráðherra né þingmenn. Vinnutíminn breytist hins vegar og ráðherrar geta til dæmis ráðstafað tíma sínum með öðrum hætti en ella.

Þrír fyrstu dagar síðustu viku 3.-5. júní voru dagar, þegar ekki var unnt að lofa sér neins staðar með bindandi hætti vegna þess að Alþingi var að ljúka störfum fyrir hlé. Þingmenn þurftu að vera tilbúnir til þess með skömmum fyrirvara að taka þátt í atkvæðagreiðslum.

Miðvikudaginn 5. júní var ætlunin að ljúka þingi um hádegisbilið en Hjörleifur Guttormsson setti strik í reikninginn með langri ræðu um frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga, sem hann hafði áður komið í veg fyrir, að afgreitt yrði. Nú var ákveðið að láta hann ekki komast upp með að drepa málið með langri ræðu. Nái mál ekki fram að ganga á þingtímanum, fer það á byrjunarreit þegar næsta þing hefst, það er 1. október næstkomandi. Reynt var að ná samkomulagi við Hjörleif og hefði hann getað fengið einhverjar óskir sínar uppfylltar, en hann heimtaði allt eða ekkert. Fór svo að lokum, eftir rúmlega fjögurra tíma ræðu hans, að hann fékk ekkert og meira en það, framganga hans mæltist almennt illa fyrir, enda setti hún skugga á það, að Vigdís Finnbogadóttir fékk við þinglausnir síðasta tækifærið til að ávarpa þingheim sem forseti. Rúmlega 22.00 á miðvikudagskvöldið var þinginu slitið með ræðu forseta Íslands.

Þingslitin voru með öðru sniði en áður. Forseti þingsins lét ekki við það sitja að gefa skýrslu um afgreidd mál heldur ræddi hans nauðsyn breytinga á þinghaldi. Svavar Gestsson, formaður þingflokks Alþýðubandalagsins, talaði af hálfu stjórnarandstöðu og lét ekki nægja að flytja forseta yfirborðslegar þakkir og góðar óskir heldur ræddi einnig efnislega um skipulag þingstarfa. Met ég ræðuna þannig, að stjórnarandstaðan geri sér grein fyrir því, að hún hafði ekki erindi sem erfiði á síðustu vikum þingsins, þegar beita átti töfum til að hindra meiri hlutann til að ná sínu fram. Eru áreiðanlega forsendur fyrir því að gera enn frekari breytingar á þingsköpum í því skyni að skipuleggja tímann og starfið betur.

Daginn eftir þinglok, fimmtudaginn 6. júní, hófst sumarvinnan með viðtölum hjá mér og tók ég á móti nokkrum tugum manna allan daginn. Sum erindi er unnt að afgreiða á staðnum, önnur eru aðeins til kynningar og síðan eru þau, sem fylgja þarf eftir bæði innan ráðuneytis og með formlegu erindi frá viðkomandi.

Ég fór beint úr ráðuneytinu í Gallerí Ingólfsstræti 8, þar sem sýning Rögnu Róbertsdóttur var að hefjast, þaðan fórum við í bandaríska sendiráðið, þar sem sendiherrann hélt móttöku í tilefni af því, að 50 ár eru liðin frá því að Fulbright-styrkveitingar hófust. Þetta fimmtudagskvöld fór ég síðan í Tunglið, þar sem var generalprufa á Drápu, sem er margmiðlunaruppákoma, eins og það er orðað. Var ætlunin, að ég væri í beinu sambandi við írskan starfsbróður minn. Til þess kom þó ekki, þar sem sambandið við Írland slitnaði. Það var þó aukaatriði, því að skemmtilegt var að sjá áhuga unga fólksins, sem nýtti sér hina nýju tækni til listköpunar og miðlaði henni um leið út á netið.

Á mánudagskvöldið var þingið að störfum fram yfir miðnætti en þriðjudagskvöldið 4. júní komst ég á frumsýningu Íslenska dansflokksins í Borgarleikhúsinu á íslenska verkinu Féhirsla vors herra og stendur sú sýning undir því hrósi, sem hún fær.

Miðvikudagskvöldið var þinginu slitið en á meðan Hjörleifur flutti ræðu sína síðdegis gafst tóm til að fara í Þjóðarbókhlöðuna og taka þátt í hátíðarhöldum vegna 150 ára afmælis handritadeildar Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Er skemmtileg sýning á handritum í tilefni af afmælinu.

Síðdegis á föstudaginn opnaði Listasafn ASÍ Ásmundarsal sem aðsetur sitt með sýningu á verkum eftir Svavar Guðnason. Hefur húsið verið gert upp og er hið glæsilegasta. Er óskiljanlegt, að nokkrum skuli í alvöru hafa dottið í hug að breyta því í barnaheimili, eins og var á döfinni hjá meirihluta R-listans í borgarstjórn Reykjavíkur.

Sigrún Sól Ólafsdóttir bauð okkur á einleik sinn í Kaffileikhúsinu, Ég var beðin að koma eftir Þorvald Þorsteinsson, föstudagskvöldið 7. júní. Var það hin ánægjulegasta stund. Ég sé, að blaðið Efst á baugi, sem gerir grein fyrir viðburðum í listum og menningu, kallar Sigrúnu Sól listamann mánaðarins og er það ekki lítil viðurkenning, þegar Listahátíð stendur.

Laugardaginn 8. júní klukkan 13.30 fór ég til skólaslita Kennaraháskóla Íslands í Hallgrímskirkju, var það hátíðleg og vel skipulögð athöfn. Klukkan 16 hófust síðan tónleikar með einsöngvurum, Heimskórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Laugardalshöllinni. Þeim lauk ekki fyrr en 19.15 og voru í raun tvennir tónleikar í einni lotu. Ekki ætla ég að setjast í stól gagnrýnanda en get ekki látið hjá líða að vitna til þess, sem Rannveig Fríða Bragadóttir sagði um rússneska barítón-söngvarann Dmitri Hvorostovsky í Morgunblaðsviðtali: „Kollegar mínir á sviðinu er[u] alveg stórkostlegir, sérstaklega Hvorostovsky en konurnar í kórnum segja útgeislun hans og persónutöfra nálgast kynferðislega áreitni." Það fer að vera vandlifað fyrir suma karlmenn!

Sunnudaginn 9. júní klukkan 14 kom það í minn hlut að opna með ávarpi sýningu í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, Vættatal, þar sem sjá má verk eftir Sigurjón og Pál Guðmundsson frá Húsafelli.