4.6.1996

Listahátíð hafin - framgangur þingmála

Það var hátíðleg stund í Listasafni Íslands að kvöldi föstudagsins 31. maí, þegar Listahátíð í Reykjavík hófst. Kom það í minn hlut að setja hátíðina með ávarpi og síðan opnaði forseti Íslands tvær málverkasýningar austurrískra listamanna, var annar þeirra Arnulf Rainer viðstaddur með fjölskyldu sinni. Hann er vinur Dieter Roths listmálara, sem er búsettur hér og í Sviss. Hafa þeir unnið mikið saman og var Dieter Roth einnig við upphaf hátíðarinnar og hitti ég hann þá í fyrsta skipti en fyrir nokkru hafði ég þann heiður að opna sýningu á verkum hans í Listasafni Kópavogs.

Við upphaf hátíðarinnar var hér á landi Elisabeth Gehrer, menntamálaráðherra Austurríkis, hún er sá ráðherra, sem fer með hluta menningarmála og skóla upp að háskólastigi. Hún er úr ÖVP, eða austurríska bræðraflokki Sjálfstæðisflokksins. Kom hún hingað 30. maí og dvaldist fram á mánudag 2. júní. Hún afhenti Landsbókasafni Íslands-Háskólabóksafni bóka- og hljómdiskagjöf. Skoðaði söfn og við Rut fórum með henni um Þingvöll að Gullfossi og Geysi og þaðan í Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi, þar sem Sigurður skólameistari og hans menn tóku á móti okkur, sýndu glæsilegt skólahúsið og fræddu um áfangakerfið. Vakti það mikinn áhuga austurrísku gestanna, sem eru að glíma við hugmyndir af þessu tagi en hafa ekki getað hrundið þeim í framkvæmd vegna þess að framkvæmdin vex þeim í augum. Þegar þeir heyrðu að í tölvu væri samin stundatafla fyrir hvern og einn nemanda féllust þeim næstum hendur en voru fullvissuð um, að þetta væri síður en svo óvinnandi verk. Þá sóttum við hátíðlega sjómannadagsmessu í Hallgrímskirkju að ógleymdri för okkar á frumsýningu Galdra Lofts eftir Jón Ásgeirsson í Íslensku óperunni, sem vakti hrifingu gestanna frá Austurríki og var ánægjulegt að fara með þeim baksviðs á eftir til að hylla höfundinn, leikstjóra og flytjendur.

Laugardaginn 1. júní voru opnaðar listsýningar á 9 stöðum í bænum en vegna ferðar okkar með austurríska ráðherranum gátum við ekki sótt þær nema eina, sýningu Húberts Nóa í Galleri Sævars Karls. Daginn eftir, sunnudaginn 2. júní gerðum við bragarbót og fórum á fjórar sýningar, sem þá voru opnaðar Hreins Friðfinnssonar í Sólon Islandus, Carls Andre á Annari hæð og Karls Kvarans og Piu Rakel Sverrisdóttur í Norræna húsinu.

Við brugðum okkur á þessar sýningar eftir að hafa tekið þátt í hátíðarhöldum við Menntaskólann í Reykjavík vegna 150 ára afmælis hans við upphaf sögusýningar í skólahúsinu, sem ég opnaði með ávarpi. Fórum við í Miðbæjarskólaportið klukkan 14.30 með gömlu stúdentshúfurnar en þar söfnuðust gamlir stúdentar saman og gengu síðan fylktu liði að skólahúsinu um Vonarstræti, Kirkjutorg og Skólabrú. Heldur voru fáir úr mínum árgangi, 1964, en þá útskrifuðust 213 og taldist okkur, að um 10% væri í göngunni. Var þetta hátíðleg athöfn en sumum var orðið nokkuð kalt í norðan golunni, sem sólin náði ekki að hlýja, þótt fallegt væri og bjart.

Að kvöldi sunnudagsins héldum við síðan kveðjuboð fyrir austurríska ráðherrann í Ráðherrabústaðnum en hún hélt upp í Borgarfjörð beint úr messunni í Hallgrímskirkju og naut þess hins besta að vera þar í veðurblíðunni.

Fyrr í vikunni var Mary Robinson, forseti Írlands, hér í opinberri heimsókn. Hafði ég lítið af henni að segja nema ég heilsaði henni í hádegisverðarboði forsætisráðherrahjónanna í Perlunni miðvikudaginn 29. maí. Tók ég eftir því, að í ræðu sinni ávarpaði hún Vigdísi Finnbogadóttur sem „sister president" en það hugtak hafði ég aldrei heyrt áður.

Kvöldið sem Vigdís hélt Írlandsforseta kvöldverðarboð voru skólamálin til umræðu á Alþingi og tók ég þátt í þeim. Þá lauk meðferð þingisins á grunnskólamálinu að því er menntamálaráðuneytið varðar og einnig umræðum um framhaldsskólafrunvarpið. Daginn eftir, miðvikudaginn 29. maí, urðu þessi frumvörp að lögum.

Er nú ekkert því til fyrirstöðu, að grunnskólinn fari í hendur sveitarfélaganna 1. ágúst og á næstu vikum verður gengið til þess verks í menntamálaráðuneytinu að skipuleggja framkvæmd framhaldsskólalaganna.

Þingstörfin hafa í raun gengið ótrúlega vel. Er vafalaust að þessa þings verður minnst vegna margra mikilvægra lagabálka, sem náð hafa fram að ganga. Er mjög óvenjulegt að á fyrsta ári sínu nái ríkisstjórn í gegn jafnmörgum mikilvægum lögum og tekist hefur að þessu sinni. Eldhúsdagsumræðurnar, sem fóru fram á fimmtudagskvöld, báru þess einnig merki, að stjórnarandstaðan hefur litla sem enga fótfestu. Andstaðan við nýsamþykkt lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða stéttarfélög og vinnudeilur er bundin við fámenna hópa eins og skoðanakannanir sýna. Var orðið löngu tímabært að færa þessi lög í nútímalegra horf og fráleitt að líta þannig á að breytingar á þeim skerði mannréttindi eða brjóti í bága við þau.