Ráðherrastörfin, ferð til Helsinki
Ég var spurður að því á dögunum, hvað tæki við, þegar Alþingi lyki störfum. Hvort þá þyrfti nokkra daga til að ganga frá málum og síðan yrði frí, þar til Alþingi kæmi saman að nýju.
Spurningar um störf ráðherra bera oft með sér, að menn virðast alls ekki átta sig á því í hverju þau felast. Annars vegar sýnist sú skoðun vera nokkuð útbreidd, að ráðherrar geti farið sínu fram og tekið ákvarðanir að eigin geðþótta um ráðstöfun fjármuna og opinbera starfsemi. Hins vegar álíta sumir, að ráðherrar hafi litlu öðru að sinna en því, sem við blasir á Alþingi eða þegar þeir koma fram á opinberum vettvangi.
Ráðherrar hafa skyldum að gegna sem þingmenn og þeir þurfa einnig að fylgja málum sínum eftir á Alþingi og svara fyrirspurnum þingmanna. Þeir taka hins vegar ekki þátt í störfum þingnefnda. Raunar er utanríkisráðherra eini ráðherrann, sem sækir nefndarfundi á Alþingi, en lögum samkvæmt ber honum að hafa samráð við utanríkismálanefnd Alþingis og er fyrir því löng hefð. Ráðherrar taka því almennt ekki þátt í nefndarstörfum þingsins, sem eru tímafrek fyrir þingmenn. Ráðherrar þurfa hins vegar að miðla upplýsingum til þingnefnda, ræða við formenn þeirra og búa embættismenn sína undir þátttöku í nefndarfundum. Starfshættir Alþingis eru þannig, að ráðherrar þurfa ekki að vera í þinghúsinu öllum stundum.
Meginþunginn í störfum ráðherra er að sjálfsögðu í ráðuneytum þeirra. Ráðuneytin starfa auðvitað allan ársins hring og þess vegna fara ráðherrar síður en svo í frí, þegar Alþingi gerir hlé á störfum sínum. Þeim gefst í slíkum hléum hins vegar meira svigrúm til að ráða tíma sínum sjálfir, því að þingstörfin eru oft þess eðlis, að ráðherrar og þingmenn þurfa að vera á vakt, ef svo má orða það og geta því ekki bundið sig annars staðar á meðan Alþingi situr. Hef ég áður haft á orði hér á þessum stað, hve undrandi ég varð á því, hve illa er oft farið með tíma margra manna á Alþingi. Voru mikil viðbrigði að koma til starfa þar úr blaðamennsku, þar sem menn eru í sífelldu kapphlaupi við klukkuna. Á Alþingi ráða menn tíma sínum sjálfir og fara ekki alltaf vel með hann.
Hér á þessum síðum hef ég skýrt frá því í vikulegum pistlum mínum, hvað helst á daga drífur í opinberum erindagjörðum. Að sjálfsögðu skýri ég ekki frá einkasamtölum eða einkafundum, sem efnt er til með embættismönnum og öðrum, hvenær sem færi gefst alla daga vikunnar. Ráðherrar hafa almennan viðtalstíma á miðvikudagsmorgnum. Mér hefur tekist að halda þannig á málum í það rúma ár, sem ég hef gegnt embætti menntamálaráðherra, að hjá mér hefur ekki myndast langur biðlisti eftir viðtölum.
Loks er það heimavinnan, ef ég má orða það svo, það er að fara yfir öll þau erindi, sem berast annað hvort beint eða frá embættismönnum og ná ekki fram að ganga nema ráðherra veiti samþykki sitt. Stundum skipta þau tugum á dag. Hef ég það fyrir reglu að reyna að afgreiða sem mest af þeim frá mér samdægurs, þannig að ekki hrannist upp stafli af óafgreiddum málum.
Ráðherrar þurfa að gæta sín á því að verða ekki kaffærðir í afgreiðslumálum og gefa sér tíma til að vinna að stefnumörkun. Hún birtist í ýmsum myndum og gagnvart Alþingi í lagafrumvörpum, sem ráðherrar flytja. Fyrir nokkrum mánuðum gaf ég út verkefnaáætlun fyrir menntamálaráðuneytið á þessu kjörtímabili og má segja, að þar sé mína stefnumörkun að finna í þeim málefnum, sem á verksviði menntamálaráðherra eru. Ætti sú áætlun að auðvelda mér og öðrum að vinna að ákveðnum markmiðum á þeim tíma, sem mér er trúað fyrir þessu embætti.
Hér hefur verið stiklað á stóru um ráðherrastörfin. Einum þætti hefur þó verið sleppt, hinum pólitíska, það er þeirri staðreynd, að ráðherra getur aldrei leyft sér að líta fram hjá því, að hann sækir umboð sitt til kjósenda og þarf að vera tilbúinn til að leggja öll sín störf undir dóm þeirra. Hann verður því ekki aðeins að fara að stjórnarskrá og lögum í störfum sínum heldur taka mið af fyrirheiti gagnvart kjósendum og kröfum þeirra.
Ferð til Helsinki
Fimmtudaginn 23. maí, eftir að atkvæðagreiðslu lauk á Alþingi um frumvarpið um stéttarfélög og vinnudeilur, flaug ég til Helsinki til að taka annars vegar þátt í fundi menningarmálaráðherra Norðurlanda og hins vegar mennntamálaráðherra föstudaginn 24. maí. Annars staðar á Norðurlöndunum skiptast þessi embætti á tvo ráðherra. Fundunum lauk ekki fyrr en undir 16.30 og þá fórum við að skoða glæsilega sýningu finnska listmálarans Akseli Gallen-Kallela í Ateneum listasafninu. Stóð á endum, að þeirri ánægjulegu skoðunarferð lauk í sama mund og taka þurfti leigubíl út á flugvöll til að komast aftur til Kaupmannahafnar. Úr 18 stiga hita og sól í Helsinki var næsta drungalegt að lenda í rigningarsuddanum í Kaupmannahöfn um kvöldið og þaðan var aftur flogið í rigningu morguninn eftir inn í sólina og birtuna hér heima.