Málþóf á Alþingi - skólalöggjöf
Enn sér ekki fyrir endann á þingstörfunum. Stjórnarandstaðan er í skemmdarhugleiðingum gagnvart meirihlutanum. Er sérkennilegt, að hún skuli halda svo fast í andstöðu sína við frumvörpin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna annars vegar og stéttarfélög og vinnudeilur hins vegar. Hvorugt málanna hefur í för með sér þá gjörbyltingu á stöðu og högum fólks, sem látið er í veðri vaka af andstæðingum þeirra. Hvorugt málið er heldur þannig vaxið, að það dragi úr stuðningi við ríkisstjórnina eða Sjálfstæðisflokkinn, ef marka má skoðanakannanir.
Fram eftir öllum vetri var stjórnarandstaðan málefnaleg í störfum sínum á þingi. Var allt annað yfirbragð þar heldur en á fyrsta þingi eftir kosningar 1991, þegar allt lék á reiðiskjálfi allan veturinn. Kom þar einkum tvennt til, að skipan Alþingis hafði verið breytt í eina málstofu en enginn stjórnarandstæðingur tók sæti í forsætisnefnd þingsins, og svo hitt, að eftir rúmlega 20 ára setu í ríkisstjórn voru framsóknarmenn komnir í stjórnarandstöðu og undu því skiljanlega illa.
Síðastliðið haust var látið í veðri vaka, að stjórnarandstaðan ætlaði ekki að fara í sama farið og áður með málþófi, umræðum um þingsköp og hvers kyns uppákomum. Auk þess hafði verið samið um breytingar á þingsköpum, sem áttu að tryggja betra skipulag á þingstörfum. Sé ég haft eftir nýjum þingmönnum núna hið sama og mér var efst í huga, þegar ég settist á Alþingi, að á fáum vinnustöðum hefði ég séð farið jafnilla með tíma jafnfmargra manna, sem höfðu ábyrgðarskyldum að gegna. Þessi ummæli eiga fullan rétt á sér eftir atgang stjórnarandstæðinga í Alþingi síðustu daga. Hafa þeir flutt langar ræður um mál, sem þeir vita, að meirihlutinn mun samþykkja, hvað sem þeir tala lengi. Alls kyns skýringar hafa verið gefnar á þessum málþófi, eins og til dæmis sú, að ætlunin sé að hafa urmæðurnar um stéttarfélög og vinnudeilur á sama tíma og þing ASÍ situr.
Hið sérkennilega við þetta málþóf er, að enginn hlustar á það á Alþingi, fjölmiðlar segja ekki frá því og ekki verður þess vart, að þeir, sem kunna að fylgjast með því í sjónvarpi, hrífist svo af rökum stjórnarandstæðinga, að þeir rísi gegn frumvörpunum sem einhverjum ólögum. Hið gagnstæða virðist frekar gerast. Hér er einfaldlega um það að ræða, að stjórnarandstaðan er að fara að óskum forystumanna í röðum opinberra starfsmanna og ASÍ, sem sætta sig ekki við þá aðferð, að Alþingi taki þessi mál fyrir, áður en þeir hafa lagt blessun sína yfir þau.
Þegar rætt er um forsetakosningarnar, er spurt, hvort frambjóðendur hafi í huga að skilja stjórnarskrána á þann veg, að nái þeir kjöri, muni þeir leggjast gegn ákvörðunum Alþingis og efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um mál, sem þeir telja rangt að staðið af hálfu meirihluta þingmanna. Svara menn þessu misjafnlega og næsta vandræðalega sumir. Í ljósi þeirra deilna, sem nú standa um fyrrnefnd tvö frumvörp, mætti vel spyrja forystumenn stjórnarandstöðunnar, hvort þeim finnist með frumvörpunum farið út fyrir verksvið löggjafans, hvort afhenda eigi þennan málaflokk frekar en einhverja aðra öðrum en löggjafarvaldinu til fullrar ráðstöfunar.
Yrði næsta lítið eftir af hlut Alþingis, ef þeir, sem sitja á Bessastöðum, telja sig geta gengið gegn samþykktum þess og stofnað til þjóðaratkvæðagreiðslna um mál, og ef viðurkennt væri, að mál, sem varða réttarstöðu á vinnumarkaði, mætti ekki afgreiða án blessunar hagsmunaaðila. Við skulum ekki gleyma því í þessari andrá, að gæslumenn þessara hagsmunaaðila eiga sæti á Alþingi eins og víða annars staðar. Skýrasta dæmið um það er þingmennska Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, sem bæði flytur langar ræður og gerir hróp að mönnum í ræðustól á Alþingi.
Hættan er sú, þegar svipuð staða myndast, eins og nú á Alþingi, að mál, sem allir vilja í raun að nái fram að ganga, gleymist í æsingnum. Hitt er einnig tíðkað, að til að gera ríkisstjórn lífið leitt tekur stjórnarandstaðan mál í gíslingu og hótar málþófi um þau. Allt ætti þetta að skýrast á næstu dögum, en auðvitað á ekki að láta tímasetningar um hlé á störfum Alþingis koma í veg fyrir afgreiðslu mikilvægra mála. Alþingi á að sitja eins lengi að störfum og þarf til að ljúka þeim málum, sem meirihlutinn vill afgreiða.
Skólalöggjöf
Meðal frumvarpa, sem bíða afgreiðslu fyrir þinglok, eru nokkur, sem snerta flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Gerði ég grein fyrir stöðu flutnings grunnskólans í ræðu hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum í Keflavík föstudaginn 17. maí. Um ekkert frumvarpanna er ágreiningur en vegna spennunnar á Alþingi hafa þau ekki komið til lokaafgreiðslu enn. Sýnir það hins vegar traustið, sem menn bera til þess, að málinu ljúki farsællega, að hvergi er bilbugur á mönnum vegna flutningsins.
Fumvarp til nýrra framhaldsskólalaga er enn óafgreitt. Það er komið úr menntamálanefnd og hafa breytingartillögur meirihluta hennar verið samþykktar við 2. umræðu á þingi. Við venjulegar aðstæður ætti frumvarpið að fá greiða leið í gegnum 3. umræðu og þar með verða að lögum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því, að sama kostnaðarskipting gildi um kostnað við heimavistarhús og skólahús, það er sveitarfélög greiði 40% en ríkið 60%. Í greinargerð er hins vegar vakið máls á því, að samið verði sérstaklega við sveitarfélögin, svo að þau beri ekki skarðan hlut frá borði vegna heimavista. Ragnar Arnalds alþingismaður er formaður byggingarnefndar fjölbrautarskólans á Sauðárkróki, þar sem ekki hefur verið reist heimavistarhús. Ragnar flytur tillögu á þingi um að kostnaðarskiptingin verði áfram á þann veg, að kostnaður vegna heimavistarhúsa verði 100% borinn af ríkissjóði. Hvorki ég né menntamálanefnd Alþingis hafa tekið undir þetta sjónarmið.
Laugardaginn 18. maí skrapp ég til Ísafjarðar og flutti Laugardaginn 18. maí skrapp ég til Ísafjarðar og flutti ræðu á ráðstefnu í Framhaldsskóla Vestfjarða um það, hvað skólinn gæti gert fyrir atvinnulífið. Fyrr þenna sama laugardag tók ég þátt í 10 ára afmælishátíð Grandaskóla í Reykjavík, sem er í fremstu röð meðal grunnskóla, þegar litið er til tölvuvæðingar og tölvukennslu. Kom það í minn hlut að afhenda verðlaun í keppni um kennsluforrit fyrir tölvur, sem skólinn efndi til vegna afmælisins. Að kvöldi laugardagsins fórum við síðan í Kaffileikhúsið og sáum tvo einþáttunga, þar sem um einleik höfunda var að ræða, er þeim greinilega margt gott til lista lagt.
Síðdegis föstudaginn 17. maí var ég í Íslandsbanka og tók þátt í athöfn hans vegna árlegra styrkveitinga til námsmanna, síðan tóku við þjóðhátíðarhöld Norðmanna í Norræna húsinu og loks móttaka hjá franska sendiherranum fyrir Pierre Cardin, tísku- og menningarfrömuð, friðarsendiherra UNESCO, sem hingað var kominn í einkaerindum til að afhenda friðarfána.
Fimmtudaginn 16. maí, uppstigningardag, sinnti ég skyldum sem formaður Þingvallanefndar. Fór ég með Pétri M. Jónassyni prófessor, vatnalíffræðingi og sérstökum áhugamanni um friðun vatnasviðs Þingvallavatns, umhverfis vatnið og til Laugarvatns. Samkvæmt samningi, sem gerður hefur verið um eignaskipti við Laugarvatn, kemur stór hluti Lyngdalsheiði í hlut menntamálaráðuneytisins. Mörg spennandi verkefni bíða við friðun og uppbyggingu á Þingvallasvæðinu
á ráðstefnu í Framhaldsskóla Vestfjarða um það, hvað skólinn gæti gert fyrir atvinnulífið. Fyrr þenna sama laugardag tók ég þátt í 10 ára afmælishátíð Grandaskóla í Reykjavík, sem er í fremstu röð meðal grunnskóla, þegar litið er til tölvuvæðingar og tölvukennslu. Kom það í minn hlut að afhenda verðlaun í keppni um kennsluforrit fyrir tölvur, sem skólinn efndi til vegna afmælisins. Að kvöldi laugardagsins fórum við síðan í Kaffileikhúsið og sáum tvo einþáttunga, þar sem um einleik höfunda var að ræða, er þeim greinilega margt gott til lista lagt.
Síðdegis föstudaginn 17. maí var ég í Íslandsbanka og tók þátt í athöfn hans vegna árlegra styrkveitinga til námsmanna, síðan tóku við þjóðhátíðarhöld Norðmanna í Norræna húsinu og loks móttaka hjá franska sendiherranum fyrir Pierre Cardin, tísku- og menningarfrömuð, friðarsendiherra UNESCO, sem hingað var kominn í einkaerindum til að afhenda friðarfána.
Fimmtudaginn 16. maí, uppstigningardag, sinnti ég skyldum sem formaður Þingvallanefndar. Fór ég með Pétri M. Jónassyni prófessor, vatnalíffræðingi og sérstökum áhugamanni um friðun vatnasviðs Þingvallavatns, umhverfis vatnið og til Laugarvatns. Samkvæmt samningi, sem gerður hefur verið um eignaskipti við Laugarvatn, kemur stór hluti Lyngdalsheiði í hlut menntamálaráðuneytisins. Mörg spennandi verkefni bíða við friðun og uppbyggingu á Þingvallasvæðinu