12.5.1996

Utan dagskrár

Tvisvar sinnum í vikunni stóð ég í þeim sporum, að vera til svara á Alþingi í umræðum utan dagskrár. Í bæði skiptin var það Sighvatur Björgvinsson, þingmaður Alþýðuflokksins á Vestfjörðum, sem var upphafsmaður umræðnanna. Hvers vegna lætur Sighvatur þessi mál til sín taka? Er hann einhver sérstakur áhugamaður um upplýsingatækni eða útvarpsmál?

Í fyrra skiptið var það þriðjudaginn 7. maí og snerist umræðan þá um kaupin á hluta af Íslenska mennatnetinu ehf (Ísmennt). Áður en umræðan hófst hafði ég spurt Sighvat, hvort það væri eitthvað sérstakt, sem hann vildi vita. Hann sagði, að af sinni hálfu yrði aðeins um örstutta fyrirspurn að ræða, þ. e. um það, hvort Ísmennt færi í samkeppni við aðra aðila á markaðnum. Þegar til kastanna kom var fyrirspurn Sighvats alls ekki um þetta, heldur var hann með almennar árásir á mig fyrir að hafa greitt alltof hátt verð fyrir Ísmennt, ég hefði gerst brotlegur með því að ræða ekki fyrirfram við fjárlaganefnd um málið og fá heimild hennar , ekki væri ljóst hvað ráðuneytið hefði keypt, kaupin hefðu komið rektor Kennaraháskóla Íslands alveg í opna skjöldu og þar fram eftir götunum. Sá ég þá, að ekki var mikið að treysta því, sem Sighvatur sagði fyrirfram um það, hvað hann hefði áhuga á að vita, enda datt mér ekki í hug að spyrja hann um það, þegar hann síðar í vikunni bað um umræður utan dagsrkár um skýrslu um endurskoðun útvarpslaga.

Þegar rætt var um Ísmennt stóð Sighvatur einn í gagnrýni sinni. Stjórnarandstaðan lýsti að öðru leyti stuðningi við kaupin. Jón Kristjánsson, formaður fjárlaganefndar, sagði alls ekki einsdæmi, að staðið hefði verið að málum eins og ég gerði. Fjárlaganefndarmenn kysu hins vega að vita um slíkt fyrirfram.

Ég sé, að birst hefur á netinu frásögn eftir Sæmund nokkurn Bjarnason, sem hann kallar Ævintýrið um góða kaupmanninn, ef ég man rétt, og á víst að vera neyðarleg lýsing á því ferli, sem leiddi til þess, að menntamálaráðuneytið keypti þann hluta af Ísmennt, sem þjónar skólakerfinu. Jónas Kristjánsson skrifaði leiðara í blað sitt DV í vikunni og sagði, að það væri til marks um óráðsíu, vitlausan ráðherra og þingmenn og sósíalisma, að skólahluti Ísmenntar skyldi keyptur. Á forsíðu Alþýðublaðsins var vitnað til skætings Sighvats Björgvinssonar í minn garð. Meðal þess sem hann gerði var að líkja þessum kaupum við það, þegar Ólafur Ragnar Grímsson var sem fjármálaráðherra að reyna að bjarga Svörtu á hvítu með því að taka veð í gagnagrunni, sem reyndist næsta verðlítill, þegar á reyndi.

Af minni hálfu var þannig staðið að þessu máli, að fyrst þegar ég taldi einsýnt eftir nokkra könnun, að enginn einkaaðili myndi vilja koma að málinu og sérfræðingar utan ráðuneytisins og skólakerfisins höfðu grandskoðað málið og eindregið lagt til, að menntamálaráðuneytið léti til skarar skríða, var það gert. Með öllu er rangt að leggja mál upp með þeim hætti, að verið sé að bjarga Ísmennt. Þvert á móti er verið að tryggja hagsmuni skólakerfisins. Til marks um fráleitan málflutning Sighvats í þessu máli er sú fullyrðing hans, að rektor KHÍ hafi ekki vitað, hvert stefndi í þessu máli.

Þessi umræða um Ísmennt var í 30 mínútur. Í síðara skiptið vildi Sighvatur fá lengri tíma, því að hann þyrfti að lesa svo mikið úr skýrslu starfshópsins um endurskoðun útvarpslaga. Féllst forseti á, að umræðan stæði í 90 mínútur og fór hún fram síðdegis föstudaginn 10. maí. Það, sem Sighvatur las, snerti í raun ekki kjarna málsins. Fyrir honum vakti, að gera lítið úr störfum þeirra, sem skýrsluna unnu. Hann fór í lúsarleit að hortittum í skýrslunni og varði ræðutíma sínum til að hneykslast á þeim, auk þess sem honum var tíðrætt um það, sem hann kallaði stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins. Þá vildi hann koma þeirri skoðun á framfæri, að með ósk minni um skýrsluna hefði ég verið að gera lítið úr verki, sem unnið var á síðasta kjörtímabili, þegar flokksbróðir minn Ólafur G. Einarsson var menntamálaráðherra. Sighvati er greinilega alveg sama um framtíð Ríkisútvarpsins eða þróun samkeppni á ljósvakanum. Fyrir honum vakti aðeins að koma illu af stað, gera lítið úr vinnu starfshópsins, ýta undir úlfúð milli stjórnarflokkanna og koma þeirri skoðun á framfæri, að ég vilji gera lítið úr störfum að endurskoðun útvarpslaga á síðasta kjörtímabili.

Svörin við þeim tveimur spurningum, sem ég varpaði fram í upphafi þessa pistils, eru ekki á þann veg að mínu mati, að Sighvatur hafi sérstakan áhuga á þeim málefnum, sem til umræðu voru. Fyrir honum vakti að koma þeirri skoðun á framfæri, að ég stæði ekki nægilega vel að embættisverkum mínum sem ráðherra, færi illa með opinbert fé og réði aðeins samflokksmenn mína til að vinna að vitlausri skýrslu um útvarpsmál. Var hann ef til vill að bregðast við för minni til Ísafjarðar hinn 30. apríl síðastliðinn? Mátti ég ekki fara í hans gamla heimabæ og kjördæmi og kynnast því af eigin raun, hve illa Alþýðuflokkurinn stendur þar að vígi? Úrslit kosninganna í hinum nýja byggðarlagi 11. maí eru aðeins staðfesting á því, hve lágt kratar eru skrifaðir í þessu vígi Sighvats um þessar mundir.

Laugardagsannir

Laugardagurinn 11. maí var óvenjulega annasamur.

Klukkan 10 fyrir hádegi flutti ég ávarp
Klukkan 11 flutti ég
ræðu
Klukkan 13 fórum við Rut í 40 ára afmæli Réttarholtsskóla, hlýddum á hátíðardagskrá og skoðuðum síðan sýningu í skólanum í fylgd með Haraldi Finnssyni skólastjóra.

Þaðan héldum við í Listaháskólahúsið og skoðuðum nemendasýningu Myndlistar- og handíðaskólans.

Rúmlega 15 vorum við komin í Ráðhúsið, þar sem opnuð var sýning á sjálfsmyndum norrænna barna.

Klukkan 16 hófst síðan 85 ára afmælishátíð Knattspyrnufélagsins Vals í Valsheimilinu.

Fyrir klukkan 18 komumst við síðan á sýningu Daða Guðbjörnssonar listmálara, sem var að hefjast í Gallerí Borg. Er það fyrsta sýningin, sem er opnuð í húsnæðinu, sem áður hýsti bókhald, afgreiðslu og auglýsingadeild míns gamla vinnustaðar, Morgunblaðsins, að Aðalstræti 6.



--------------------------------------------------------------------------------

Síðdegis þriðjudaginn 7. maí efndu Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) og menningarmálanefnd Sjálfstæðisflokksins til fundar um útvarpsmál og flutti ég þar
ræðu
Miðvikudaginn 8. maí svaraði ég þremur fyrirspurnum á Alþingi: 1) um forvarnir gegn fíkniefnum og námsefni í skólum, 2) um nýtt íþróttahús við Menntaskólann í Hamrahlíð og 3) um eignir hússtjórnarskólanna, sem ekki starfa lengur. Athygli mína vekur, að ég hef hvergi heyrt minnst á eða lesið um umræðurnar um íþróttahús við MH, þó hafa fjölmiðlar verið duglegir við að skýra frá skorti á íþróttaaðstöðu við skólann. Að vísu gaf ég engin bindandi fyrirheit í því efni, en ef til vill finnst einhverjum forvitnilegt að vita, hvernig orð féllu í þessum umræðum, sem eiga rætur að rekja til þess, að nemendur í MH komu á Austurvöll til líkamsræktar.

Föstudaginn 10. maí flutti ég
ávarp