Þingstörf - útvarpsmál
Skólamál voru ofarlega á dagskrá Alþingis í síðustu viku. Mánudaginn 29. apríl voru umræður um skrásetningargjöld í Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þær snerust þó aðeins að litlum hluta um efni málsins, því að allir stjórnmálaflokkar hafa samþykkt skrásetningargjald. Nú gagnrýndu stjórnarandstæðingar fjárhæðina, 24.000 krónur, en lögðu til, að innheimt yrði 9.000 króna gjald. Spjótin beindust einkum að Framsóknarflokknum eins og svo oft áður á þessu fyrsta þingi eftir stjórnarskipti. Stjórnarandstaðan leggur sig við þær aðstæður fram um að kasta ljósi á afstöðu nýs flokks í ríkisstjórn, þegar flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Voru rifjuð upp ummæli framsóknarmanna gegn skrásetningargjöldum. Málflutningur af þessu tagi er næsta innantómur en tekur sinn tíma. Umræðunum lauk ekki á mánudeginum og var þeim haldið áfram þriðjudaginn 30. apríl en þá var ég á Ísafirði. Lokaatkvæðagreiðsla um lagafrumvörpin fór síðan fram á fimmtudaginn 2. maí og voru þau þá samþykkt. Daginn eftir voru lögin gefin út í Stjórnartíðindum og gengu þar með í gildi. Var ekki seinna vænna vegna endurinnritunar í háskólana, sem er hafin. Það vakti athygli mína, að stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) lét ekki opinberlega frá sér heyra um málið fyrr en 30. apríl, þegar efnislegri meðferð málsins á Alþingi var lokið. Þá sagðist stjórnin vera á móti slíkri gjaldtöku. Með hinum nýju lögum skapast ný aðstaða til að fylgjast með fjárveitingum Háskóla Íslands til SHÍ en til ráðsins rennur allt að 10% skrásetningargjaldsins samkvæmt sérstöku samkomulagi háskólaráðs og SHÍ. Er þessi tilhögun gagnrýnd af Vökumönnum í HÍ, sem telja SHÍ verða fjárhagslega háð háskólaráði. Drög að samningi SHÍ og háskólaráðs fylgdu frumvarpinu og verður það meðal annars hlutverk menntamálaráðuneytisins að fylgjast með framkvæmd hans.
Fimmtudaginn 2. maí var önnur umræða um lagafrumvarpið um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla. Menntamálanefnd er einhuga í stuðningi sínum við frumvarpið. Þrátt fyrir það urðu töluverðar umræður um það, sem báru svip af deilunum um réttarstöðu opinberra starfsmanna. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, spurði meðal annars um réttarstöðu starfsmanna á fræðsluskrifstofunum, sem er verið að leggja niður. Býsnaðist hann yfir því, að ekki hefði komið skriflegt svar við bréfi, sem hann og formenn tveggja annarra stéttarfélaga hefðu sent verkefnisstjórn vegna flutnings grunnskólans, og snertir starfsmenn fræðsluskrifstofa. Bréfið hafði ég lesið upp á Alþingi við fyrstu umræðu um þetta mála og lýst skoðun minni á efni þess. Ögmundur hlýddi ekki á þá ræðu. Raunar kvartaði hann undan þessu sama í Morgunblaðinu og þá sagt mig ekki hafa svarað þessu bréfi. Ég benti þá á, að bréfið hefði ekki verið sent mér. Skömmu síðar barst síðan bréf til mín frá Ögmundi, þar sem hann óskaði eftir svari mínu við bréfi til annars aðila! Þegar Ögmundur tók þetta upp í þingumræðunum, sagði ég, að talið um þetta bréf og svar við því væri ekki þess eðlis, að menn ættu að taka það upp í ræðustól á Alþingi. Ögmundur rauk þá í ræðustól og sagði þessi orð mín til marks um lítilsvirðingu ríkisstjórnarinnar á alþýðu landsins og launþegum! Ráðherrum þætti það óvirðing við Alþingi að ræða málefni þessa fólks! Ef samskonar rök búa að baki öðrum stóryrðum Ögmundar er ekki ástæða til að kippa sér upp við þau.
Að loknum þessum umræðum lagði ég fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á grunnskólalögunum, sem byggist á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu og þar sem tekið er á málum, sem komið hafa upp í starfi verkefnisstjórnar í vetur. Hún hefur nú lokið góðu starfi sínu í sátt. Virðist ekkert nú geta komið í veg fyrir, að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996.
Þenna sama fimmtudag voru einnig umræður utan dagskrár að ósk Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur Þjóðvaka um störf útvarpsréttarnefndar. Svar nefndarinnar var svo langt að ég kom því ekki öllu frá mér á þeim 5 mínútum, sem mér voru ætlaðar. Er óþægilegt að lenda í þeirri stöðu að þurfa að koma frá sér lengri texta en tíminn leyfir. Mér finnst fráleitt að halda því fram, að öll útvarpsréttarnefnd eða einstakir nefndarmenn hafi verið að gæta flokkshagsmuna gagnvart eigendum Stöðvar 2 eða Jóni Ólafssyni, hæstráðanda þar , með því að taka bráðabirgðarleyfi af Stöð 3 og afhenda Sýn. Mótmælti ég því sem dylgjum í málflutningi Ástu Ragnheiðar. Í nefndinni sitja fulltrúar kjörnir af Alþingi og voru þeir sammála um þessa afgreiðslu í nefndinni.
Föstudaginn 3. maí voru þingstörfin síðan helguð 2. umræðu um framhaldsskólafrumvarpið. Voru umræður málefnalegar en beindust inn á brautir, sem sumum kunna að virðast fjarlægjar skólastarfi, það er því ákvæði frumvarpsins, að framvegis greiði sveitarfélög 40% af kostnaði við heimavistir. Var þetta það einstaka atriði, sem oftast var nefnt. Umræðunni lauk og sýnist nú fátt geta komið í veg fyrir, að frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok. Er það orðið tímabært, því að málið hefur verið á döfinni á þremur þingum.
Síðdegis fimmtudaginn 2. maí, eftir ríkisstjórnarfund um morguninn, sendi ég til þingmanna og fjölmiðla skýrslu starfshóps um endurskoðun útvarpslaga, sem ég setti á laggirnar í lok júlí 1995. Skýrsluna lét ég semja til að draga saman á einn stað álitamál, sem hafa verður í huga við endurskoðun þessara rúmlega tíu ára gömlu laga. Ég ákvað einnig að gefa skýrsluna út til að skapa umræðugrundvöll, en starfshópurinn fékk ekki það hlutverk að semja enn eitt lagafrumvarpið um málið. Til þess verkefnis verður ekki gengið, fyrr en ljóst er, hvaða atriði njóta stuðnings meirihluta á þingi. Til að skapa þann meirihluta fara næst fram viðræður milli stjórnarflokkanna á grundvelli tillögu, sem ég lagði fram í ríkisstjórn og var samþykkt þar. Valgerður Sverrisdóttir, formaður þingflokks framsóknarmanna, átaldi mig mildilega fyrir að hafa ekki framsóknarmann í starfshópnum en sagði jafnframt, að á vegum framsóknarmanna væru menn að vinna að stefnumótun í útvarpsmálum. Var Valgerður miklu málefnalegri í afstöðu sinni en Gissur Pétursson, annar fulltrúi framsóknarmanna í útvarpsráði. Hann kom fram í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 4. maí og taldi ákvörðun mína um starfshópinn og útgáfu skýrslu hans til marks um, að ég kynni ekki að vera í ríkisstjórn! Töldu hljóðvarpsfréttamenn þessa einkunn Gissurar svo merkilega, að þeir gerðu henni sérstaklega góð skil. Ég veit ekki, hvar Gissur hefur lært að starfa í ríkisstjórn, hitt er víst, að auðvitað hafa ráðherrar svigrúm til þess að láta vinna fyrir sig vinnu af þessu tagi án samráðs við aðra ráðherra eða aðra flokka. Skárra væri það! Í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins er að finna stefnu mína í fjölmiðlamálum. Fellur hún að sumu leyti saman við skýrslu starfshópsins en ekki öllu. Þá gerir starfshópurinn athugasemd við þá ákvörðun, að ráðist skuli í endurnýjun á langbylgjusendum, þvert ofan í það, sem gert hefur verið með samþykki mínu. Þótt ég sé ekki sammála öllu, sem í þessari ágætu skýrslu stendur, finnst mér gott að hún er komin fram. Vona ég aðeins, að menn ræði efni hennar en ekki aðferðina við að hún var samin. Því miður falla umræður hér á landi fljótt í þann farveg, ekki síst vegna þess að fjölmiðlamönnum finnst ætíð mikils til þess koma, ef felldir eru sleggjudómar um ráðherra eða aðra stjórnmálamenn. Er dapurlegt að hugsa til þess, hve miklu púðri er eytt í slíka dóma til að komast hjá því að þurfa að ræða efni málsins. Skemmtilegasta dæmið, sem ég man eftir í þessu samhengi, eru umræður, sem urðu á sínum tíma, þegar greint var frá því, að nokkrir íslenskir þingmenn hefðu á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York átt fund með Arne Treholt, sem síðar var dæmdur sovéskur njósnari í Noregi, um það, hvernig koma ætti bandaríska varnarliðinu úr landi. Tíminn og aðrir vinstrisinnaðir fjölmiðlar beindu athygli frá kjarna málsins með því að gera um það kröfu, að upplýst yrði, hvernig Morgunblaðið hefði fengið vitneskju um þennan fund með Treholt. Eins er það að beina athyglinni frá kjarna málsins, ef menn ætla að ræða það eitt í sambandi við nauðsynlega endurskoðun á lagaforsendum fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins, hverjir sömdu um málið skýrslu, fyrir hvern og hvenær hún var gefin út!
Þriðjudaginn 30. apríl fórum við Rut og Ásdís Halla aðstoðarmaður minn í ferðalag til Ísafjarðar. Þar heimsóttum við Framhaldsskóla Vestfjarða auk grunnskólanna á Ísafirði, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Einnig fórum við í Tónlistarskólann á Ísafirði, Edinborgarhúsið og húsin í Neðstakaupstað, skipasmíðastöðina, kirkjuna og gamla sjúkrahúsið, sem verið er að breyta í bókasafn. Um kvöldið var fundur á vegum Sjálfstæðisflokksins í Stjórnsýsluhúsinu og var hann vel sóttur. Veðrið var einstaklega fallegt og ánægjulegt að heimsækja byggðarlögin og skólana í fylgd með góðu fólki. Komum við aftur að morgni 1. maí.
Síðdegis laugardaginn 4. maí flutti ég ávarp við upphaf ráðstefnu um tóbaksvarnir í nútíð og framtíð. Um kvöldið fórum við á frumsýningu á Hamingjuráninu í Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og skemmtum okkur ágætlega.