28.4.1996

Skipulögð tölvubréf - skrásetningargjöld - fleiri ræður

Stjórnarmenn í Heimdalli og félagar þeirra hafa verið duglegir við að senda mér tölvubréf undanfarna sólarhinga og hvetja mig til þess að hverfa frá frumvarpi, sem ég hef flutt á Alþingi um skrásetningargjald í Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Má segja, að þetta sé í fyrsta skipti, sem tölvubréfasendingar eru skipulagðar til mín með það að markmiði að fá mig til að skipta um skoðun. Telja bréfritarar, að í frumvarpinu felist skylda til aðildar að stúdentaráði. Í svarbréfum til Heimdellinga hef ég meðal annars sagt:

Eitt er að mæla fyrir um skyldu manna til að vera í félagi og greiða gjald til þess. Annað er að heimila Háskóla Íslands að semja um það við SHÍ, að hluti af skrásetningargjaldi, sem stúdentum ber að greiða, renni til þess að vinna ákveðin verkefni, sem aðilar skilgreina. Vökumenn hafa sagt, að með slíkum samningi verði SHÍ fjárhagslega háð háskólayfirvöldum og vilja ekki gera slíkan samning. Það er alls engin lagaskylda að gera hann. Vökumenn hafa jafnframt sagt, að SHÍ geti sinnt öllum skyldum sínum án þessa fjár frá háskólaráði. Ég hef lýst þeirri skoðun minni, að skrásetningargjaldið megi lækka um þessa fjárhæð, allt að 10%, ef aðilar telja ekki nauðsynlegt að gera slíkan verksamning.

Ég fæ ekki með nokkru móti séð, að þessi röksemdarfærsla leiði til þeirrar niðurstöðu, að um lögbundna skylduaðild að SHÍ sé að ræða. Um það er hart deilt á Alþingi, hvernig beri að skilgreina skrásetningargjaldið og telja andstæðingar þess þar, að ekki eigi að færa ýmsa liði undir gjaldið, sem háskólaráð tíundar. Enginn þeirra gerir hins vegar athugasemd við þessa heimild um samning við SHÍ. Hef ég sjálfur vakið máls á því, að ég hafi verið gagnrýndur fyrir hana.

Krafan um það að menntamálaráðherra svipti SHÍ fjárhagsgrundvelli sínum í stað þess að menn takist á um það mál innan Háskóla Íslands er óraunhæf. Hún er álíka óraunhæf og krafa VSÍ um það, að alþingismenn losi VSÍ undan þeim forgangsréttarákvæðum, sem VSÍ hefur samið um við verkalýðsfélögin.

Hin nýja skipan, sem mælt er fyrir um í frumvarpi mínu, tekur af öll tvímæli í þessu efni ásamt með yfirlýsingu minni um það, að enginn verði skyldaður til að vera í SHÍ. Að mínu mati er fráleitt að halda því fram, að menn séu verr settir með skýrum lagaákvæðum og opinberum yfirlýsingum en óljósu ástandi. Hvergi eru menn með lögum skyldaðir til að vera í SHÍ. Það er út í hött að bera þessa skipan saman við skyldu ríkisins til að greiða félagsgjöld til BSRB fyrir fólk, sem ekki er í BSRB.

Frumvarpið er nú komið til þriðju umræðu á Alþingi. Var það rætt um miðnætti síðastliðinn þriðjudag 23. apríl. Fyrr þann sama dag sótti ég skemmtilegan fund að Hótel Borg, sem Sjálfstæðisflokkurinn efndi til. Á 60 mínútum var okkur þremur falið að ræða um gildi menningu og menntunar og svara fyrirspurnum fundarmanna, sem voru fleiri en ég vænti. Þetta var eins árs afmælisdagur ríkisstjórnarinnar og voru rjómaterta og súkkulaðikaka á borðum á fundi hennar þennan dag.

Síðdegis miðvikudaginn 24. apríl flutti ég ræðu um bókasafnsmáls og upplýsingatækni hjá Bókís. Var það einnig fjölmennur fundur í Gerðubergi. Síðan var ánægjulegt að vera í Listasafni Íslands, þegar Kvennaskólinn fékk fyrstu verðlaun sem fyrirmyndar ríkisfyrirtæki. Um kvöldið var svo frumsýning í Þóðleikhúsinu.

Sumardaginn fyrsta fimmtudaginn 25. apríl flutti ég ávarp við upphaf þings Rafiðnaðarsambandsins, þar sem menn leggja mikla áherslu á menntamál. Um kvöldið kom það í minn hlut að opna með ávarpi sýningu Listasafns Íslands á saltfiskverkum Kjarvals, ef ég má orða það svo. Er þetta skemmtileg sýning, sem menn ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Síðdegis föstudaginn 26. apríl fórum við Rut enn eina ferðina til Akureyrar, að þessu sinni til þess að taka þátt í afhendingu viðurkenningar vegna samkeppni arkitekta um nýjar byggingar Háskólans á Akureyri og til að taka þátt í 50 ára afmælishátíð Skíðasambands Íslands.

Laugardaginn 27. apríl var ég svo á Íslandsglímunni og tók þátt í kaffisamsæti Glímusambandsins í tilefni af 90 ára afmæli þess. Einnig flutti ég ávarp þegar afhentar voru viðurkenningar í nafni Hugvísis í Hinu húsinu.

Ég flutti Skíðasambandinu og Glímusambandinu heillaóskir með stuttum óskrifuðum ávörpum.

Rétt er að geta þess, að í hádeginu á mánudaginn 22. apríl fór ég í þolpróf á Laugardalsvelli og er ljóst, að þörf er á skipulögðu átaki til að auka úthaldið.