21.4.1996

Handritahátíð - Barbara - Rannís - fréttaflutningur

Í vikunni tilkynntu kennarar, að þeir ætluðu aftur að hefja samstarf um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Sama dag og það lá fyrir lagði ég fyrir ríkisstjórnina frumvarp til laga um breytingu á grunnskólalögunum, þar sem tekið er á þeim málum, sem um var samið milli ríkisins og sveitarfélaganna vegna kostnaðarskiptingarinnar. Einnig er í frumvarpinu mælt fyrir um, hvernig að því verður staðið af hálfu ríkisins að afhenda sveitarfélögunum eignarhald á grunnskólahúsnæði. Fjármálaráðherra lagði einnig fram frumvarp um breytingu á lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar sem kennurum er heimiluð aðild að sjóðnum. Er það í samræmi við gildistökuákvæði grunnskólalaganna, hafa nú öll skilyrði gildistökunnar verið afgreidd af ríkisstjórn, kemur næst til kasta Alþingis að samþykkja frumvörpin, til að fullnægja því, sem Alþingi sjálft setti sem skilyrði. Ítreka ég enn, að ekkert er því til fyrirstöðu, að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996.

Forsetaframboð er alls staðar ofarlega í huga manna. Ég er í hópi þeirra, sem fagna því, að Davíð ákvað að gefa ekki kost á sér til forseta. Ýmsir hafa orðið til að hallmæla honum og segja, að hann hafi gert Sjálfstæðisflokknum óleik með framgöngu sinni. Skoðanakönnun DV, sem birtist í vikunni, bendir síður en svo til þess, því að fylgi okkar sjálfstæðismanna vex. Þeim niðurstöðum má því fagna, um leið og lýst er undrun á fylgi Ólafs Ragnars.

Síðdegis miðvikudaginn 17. apríl efndum við Rut til síðdegisboðs fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands til að fagna með henni glæsilegri ferð til Bandaríkjanna.

Fimmtudaginn 18. apríl var efnt til fundar síðdegis í menntamálaráðuneytinu til undirbúnings Degi íslenskrar tungu 16. nóvember næstkomandi. Sýndu þeir, sem boðnir voru, málinu mikinn áhuga. Því miður gat ég ekki tekið þátt í fundinum eins og ég ætlaði, þar sem ríkisstjórnin var kölluð saman til fundar á sama tíma og stóð hann fram á kvöld, þannig að ég var af afboða mig af fundi í Kópavogi um grunnskólann.

Síðdegis föstudaginn 19. apríl var efnt til ársfundar Rannsóknarráðs Íslands, Rannís. Kom það í minn hlut að flytja þar ávarp, en með því að slá á heitið ætti að vera unnt að finna það annars staðar á heimasíðu minni. Voru á fundinum fluttar fróðlegar ræður um stöðu Rannís og þátta í rannsóknarstarfi í landinu. Davíð Oddsson forstætisráðherra afhenti hvatningarverðlaun ráðsins.

Að kvöldi föstudagsins 19. apríl flutti ég ávarp og opnaði sýningu á verkum Barböru Árnason í Listasafni Kópavops, Gerðarsafni, í Kópavogi. Er það falleg sýning, þar sem við blasir hve fjölhæf og afkastarmikil listakonan var. Gerðarsafn er eitthvert best heppnaða listasafnið í landinu og alltaf ánægjulegt að koma þangað. Sýnir það, hve mikils virði er fyrir hvert bæjarfélag að hlú að menningu og listum. Er ekki nokkur vafi á því, að safnið hefur áhrif víðar en á listasviðinu í Kópavogi og fyrir bæinn langt út fyrir veggi sína.

Þessir tveir atburðir vöktu mig til umhugsunar um það, að það hlýtur að vera markaður fyrir staðbundna fjölmiðla, sem segja betur frá atburðum en gert var í þessum tilvikum. Ég var til dæmis ekki var við það, að í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins væri sagt frá því, að forsætisráðherra afhenti hvatningarverðlaunin. Ekki var minnst á setningarávarpið eða það, sem jákvætt var sagt á þessum fundi, heldur tekinn neikvæðasti kaflinn úr ræðu Sigmundar Guðbjarnasonar, formanns Rannís, það er að rannsóknarstörf væru illa launuð og erfið fyrir unga vísindamenn með námsskuldir á bakinu. Raunar er þetta alls ekki fréttnæmt miðað við það, hve oft hefur verið sagt frá þessu af fréttamönnum. Einhæfar fréttir af þessu tagi gefa alls ekki rétta mynd af því, sem gerist. Í frásögn Morgunblaðsins af ávarpi mínu á Rannís-fundinum var rangt eftir haft, þegar blaðamaðurinn gerði ekki mun á OECD og UNESCO. Morgunblaðið birti ljósmynd, sem tekin var við upphaf sýningar Barböru og sagði, að hún væri hafin. Að sjálfsögðu var þeirra ekki getið, sem fluttu ávörp við upphaf sýningarinnar og fóru orðum um listakonuna og hlut hennar í íslenskri menningu. Eins og kunnugt er hefur fjölmiðlun þróast í þá átt hér á landi, að frétta- og blaðamenn vilja helst, að fram komi við hverja frétt, hver vann hana. Þegar fjölmiðlamenn eiga í hlut mislíkar þeim nafnleysi. Mér finnst það hins vegar færast í aukana, að blaða- og fréttamenn segja ekki frá þeim, sem koma við sögu í fréttum og hlustandi eða lesandi gæti ætlað, að nafnlaus hönd væri jafnan að verki. Hér er ekki vísvitandi verið að þaga einhverja einstaklinga í hel heldur á þetta rætur að rekja til hirðuleysis eða virðingarleysis gagnvart þeim einstaklingum, sem eiga hlut að máli. Að mínu mati er það gæðastjórnunarverkefni á fjölmiðlum að kippa þessu í liðinn.

Til marks um ólíkar áherslur í fréttaflutningi síðustu daga má benda á fréttir af störfum útvarpsréttarnefndar og endurúthlutun á sjónvarpsrásum. Greinilegt er, að Morgunblaðið ver mestu rými og mannafla til að segja frá þessum ákvörðunum nefndarinnar. Athygli vekur, að í næstum hverri frétt er þess getið, að eigendur Morgunblaðsins eigi þarna hagsmuna að gæta sem hluthafar í Stöð 3. Skynsamlegt er af blaðinu að segja þannig frá þessu, svo að lesendur fari ekki í grafgötur um hagsmuni blaðsins, þegar þessar fréttir eru lesnar. Markmið blaðsins er augljóst, að fá ákvörðun útvarpsréttarnefndar, sem gengur á hagsmuni Stöðvar 3 hnekkt.

Ole Vig Jensen, menntamálaráðherra Dana, og Else, eiginkona hans, komu hingað til lands föstudaginn 19. apríl til að taka þátt í hátíðarhöldum vegna þess, að 25 ár voru liðin frá afhendingu handritanna 21. apríl 1971. Föstudaginn gat ég ekki sinnt þeim vegna þeirra skyldustarfa, sem að ofan eru rakin og höfðu verið ákveðin fyrir löngu. Snemma á laugardagsmorgun fór ég hins vegar og sótti þau á Hótel Holt og héldum við fljúgandi norður á Akureyri, þar sem við heimsóttum Menntaskólann á Akureyri undir leiðsögn Tryggva Gíslasonar skólameistara, Verkmenntaskólann undir leiðsögn Bernharðs Haraldssonar skólameistara og Háskólann á Akureyri undir leiðsögn Þorsteins Gunnarssonar rektors. Þótti hinum dönsku gestum fróðlegt að kynnast þessu skólastarfi. Jakob Björnsson, bæjarstjóri á Akureyri, bauð til hádegisverðar. Að honum loknum rituðum við Jakob undir samning milli menntamálaráðunetytisins og Akureyrar um bæinn sem tilraunasveitarfélag í menningarmálum. Klukkan 14 opnaði danski ráðherrann sýninguna Lesið í ísinn, sem segir frá borunum í Grænlandsjökul. Er hún í Ketilhúsinu í Listagilinu. Eftir opnunina skaust ég í Listasafnið á Akureyri og sá hina skemmtilegu sýningu með stálkonunum og málverkum Gunnlaugs Blöndals. Einnig fór ég með hluta dönsku sendinefndarinnar í Akureyrarkirkju undir leiðsögn séra Birgis Snæbjörnssonar. Frá Akureyri héldum við klukkan 16.10. Áður en það gerðist fékk ég tækifæri til að heilsa tveimur stálkonum, sem Haraldur Ingi Haraldsson listasafnstjóri var að taka á móti á flugvellinum. Hafði hann boðið þeim til málstofu um þessa sérkennilegu listgrein, sem felst í því að taka ljósmyndir af konum, sem hafa þjálfað vöðva sína og gert þá að stáli. Kom mér á óvart, hve lágvaxnar þær voru. Um kvöldið efndi ég til kvöldverðar heima og gekk hann vel, þótt Rut væri í Kaupmannahöfn að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Tívolí.

Sunnudagsmorguninn 21. apríl fór ég með dönsku ráðherrahjónunum í Þjóðarbókhlöðuna og skoðuðum við hana undir leiðsögn Einars Sigurðssonar lands- og háskólabókavarðar. Þaðan fórum við síðan í Listasafn Íslands, þar sem Bera Nordal forstöðumaður tók á móti okkur og leiddi í gegnum íslenska myndlistarsögu með því að sýna okkur fögur málverk safnsins, snæddum við síðan léttan hádegisverð í safninu. Klukkan 14 hófst síðan hátíðarathöfn í Háskólabíói, þar sem afhendingar handritanna var minnst. Flutti ég þar ávarp. Rut kom til landsins frá Kaupmannahöfn klukkan 12 þannig að hún slóst í hópinn í Háskólabíói. Frá athöfninni þar var síðan haldið klukkan 15 í Árnastofnun og hún skoðuð ásamt með Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða. Þegar þetta er ritað síðdegis á sunnudegi líður að því, að undirbúingur hefjist undir að fara í kvöldverðarboð forsætisráðherrahjónanna í Ráðherrabústaðnum.

Eins og þeir sjá, sem endast til að lesa þetta stagl mitt, höfum við nú á tveimur vikum tekið á móti tveimur góðum erlendum gestum. Dagskráin hefur verið ólík. Ánægjulegt er að fá tækifæri til að kynna gestunum Ísland, íslenska menningu og að þessu sinni sérstaklega íslenskt skólastarf.

Við þurfum síður en svo að fyrirverða okkur fyrir það, sem við getum sýnt. Þvert á móti getum við bæði verið stolt af ytri umgjörð og því, sem innan hennar er. Hitt er ekki síður mikils virði, að þeir, sem taka að sér að leiðbeina og segja frá á einstökum stöðum eru svo sannarlega starfi sínu vaxnir.