14.4.1996

Góður gestur frá UNESCO

Nú eru tvær vikur liðnar síðan ég settist síðast niður til að skrá nokkra punkta um það, sem á daga drífur. Páskahelgina skruppum við Rut norður í land með góðum vinum. Þar var engin tölva og því ekki tækifæri til að setjast niður síðdegis á sunnudegi og skrifast á við þann ósýnilega hóp, sem notar vefinn til að fræðast. Ég stend mig að því að eyða nú aftur meiri tíma fyrir framan tölvuna og í ferðalög um vefinn, því að þar er að finna svo margan fróðleik, sem nýtist við margvísleg störf. Leitarkerfin eru fullkomin og gagnabankarnir. Eina vandkvæðið er raunar, að maður fær of mikið af upplýsingum spyrji maður um eitthvað.

Alltaf er erfitt að byrja aftur eftir nokkurra daga hlé. Dagarnir frá páskum hafa að vísu ekki allir verið eintóm seta á fundum eða við skrifborðið, því að hingað kom á fimmtudagskvöldið í mínu boði Federico Mayor, forstjóri UNESCO, menningar- og menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna, eiginkona hans og skrifstofustjóri Evrópudeildar UNESCO.

Komu þau að borða hjá okkur Rut í Háuhlíð á fimmtudagskvöldið. Ég hafði aldrei hitt Mayor áður, en hins vegar ýmsa Spánverja í háum stöðum innan alþjóðastofnana, því að þeir hafa margir náð þar langt. Nú er framkvæmdastjóri NATO til dæmis Spánverji og einnig forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, en hann kom hingað síðastliðið sumar. Þá hefur Spánn átt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins og nýlega lét spænskur forseti þings Evrópuráðsins af störfum en hann kom einmitt hingað til lands sumarið 1994 í boði Alþingis og var ég gestgjafi hans á þess vegum.

Allir eiga þessir menn það sameiginlegt að vera einstaklega geðþekkir. Mayor hefur unnið stórvirki við að endurreisa virðingu UNESCO, sem meðal annars galt þess, að forverar hans sumir þóttu ekki ganga fram með þeim hætti, að til fyrirmyndar væri.

Dagarnir tveir sem Mayor-hjónin voru hér liðu fljótt við ráðstefnur og skoðunarferðir, auk hádegisverða hjá forseta Íslands að Bessastöðum og forsætisráðherra á Þingvöllum. Utanríkisráðuneytið bauð hjónum í kvölverð og síðasta kvöldið var hann í kvöldverði með íslensku UNESCO-nefndinni, en Sveinn Einarsson er formaður hennar. Efnt var til málstefnu í Viðey, þar sem hann talaði. Hann flutti einnig erindi í Háskóla Íslands um slíkar stofnanir í nútímasamfélagi. Sjálfur er Mayor úr rannsóknar- og háskólasamfélaginu. Hann er lífefnafræðingur, var prófessor og rektor Granada-háskóla, eiginkona hans er lyfjafræðingur. Hafa þau búið í níu ár í París, þar sem eru höfuðstöðvar UNESCO, og eiga eftir að vera í þrjú, en þá rennur síðara 6 ára kjörtímabil hans út.

Þá fór hann í Þjóðarbókhlöðuna og Árnastofnun, þar sem hjónin hrifust mjög af handritunum. Við skoðuðum Nesjavallavirkjun og Þingvelli, þar sem Sigurður Líndal prófessor leiðsögumaður okkar. Þeim þótti mikið til um glæsilegan umbúnað um háskólastarfið og orkuverið á Nesjavöllum. Hafði Mayor mörg orð um gildi hinnar hreinu orku og hvatti eindregið til þess, að við hæfum framleiðslu á batteríum.

Hann hitti Þorstein Pálsson sjávarútvegsráðherra að máli og síðdegis síðari daginn efndi ég til fundar með honum í menntamálaráðuneytinu. Er margt i starfi UNESCO, sem höfðar til okkar Íslendinga. Við getum einnig lagt ýmislegt af mörkum til starfs stofnunarinnar.

Eins og aðrir sem sinna menningu og menntun er Mayor áhugamaður um hina nýju upplýsingatækni. Það kom hins vegar fram, að hann hefur ekki tileinkað sér tölvutæknina sjálfur og vill ekki hafa tölvu inni á skrifstofu sinni. Ég sagðist hins vegar vilja sýna honum Internetið og gerði það á skrifstofu minni. Hafði hann aldrei áður séð farið inn á vefinn eða skoðað það, sem á honum er að finna. Varð hann undrandi, þegar hann sá hve auðvelt var að komast í samband. Ég fór í Alta Vista leitarkerfið og sló inn UNESCO og var sagt, að það væri að finna í tugum þúsunda skjala. Þá sló ég inn Mayor og enn fékk ég tugi þúsunda skjala, loks sló ég einn Federico Mayor og enn var skýrt frá því, að um þúsundir skjala væri að ræða. Fórum við um nokkur þeirra. Þegar hér var komið, var Mayor orðinn svo áhugasamur, að hann kraup á gólfið fyrir framan tölvuna mína. Bruðgu aðstoðarmenn hans myndavélum á loft til að festa atburðinn á filmu. Er ég viss um, að mér hafi tekist að kveikja áhuga þessa góða gests á tölvutækninni. Sagði ég honum á leiðinni út úr ráðuneytinu, að menn gætu hæglega orðið fíklar í netið og sætu þar sumir löngum stundum. Þótti mér vissara að slá þann varnagla strax.

Ég bendi ykkur á að leita undir orðunum Federico Mayor og þið munið kynnast því, að forstjóri UNESCO lætur víða að sér kveða og flytur ræður um heim allan. Þá munið þið einnig finna ljóð, því að Mayor setur þau saman. Gaf ég honum pappírskilju á ensku um Eddurnar, þegar ég sá, hve áhugasamur hann varð um Skáldskaparmál Snorra Sturlusonar, þegar okkur var sýnt handrit þeirra í Árnastofnun.