24.3.1996

Uppnám á þingi, skólaheimsóknir og ræðuhöld

Hlé er orðið á þingfundum fram yfir páska. Rangt er hins vegar að tala um leyfi þingmanna, því að tíminn verður notaður til nefndarfunda. Er það í samræmi við þá starfshætti, að vinnan á þingi færist í ríkari mæli inn í nefndirnar. Ráðherrar taka ekki þátt í nefndarstörfum en þar brjóta þingmenn frumvörp til mergjar og gera breytingar, telji þeir nauðsynlegt. Er hér um skemmtilegt starf að ræða, ef menn hafa tóm til að sinna því af kostgæfni. Til þess þurfa nefndir að fá tíma, hann gefst utan þingfunda. Leggist aukinn þungi á nefndirnar þarf að veita þeim aukinn tíma, það gerist meðal annars með því að gera hlé á þingfundum. Fyrir öllum nefndum liggja nú mikilvæg og stór málefni.

Síðustu dagar fyrir hléið voru átakatími á þingi. Á þriðjudag 19. mars mælti fjármálaráðherra fyrir frumvarpi sínu um breytingu á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Lauk þeirri umræðu á þeim degi. Á fimmtudag mælti félagsmálaráðherra fyrir frumvarpi sínu um breytingu á lögunum um séttarfélög og vinnudeilur. Umræðurnar um það mál héldu áfram á föstudag og milli klukkan 2 og 3 aðfaranótt laugardags 23. mars var málinu vísað til nefndar, félagsmálanefndar, sem lýtur formennsku Kristínar Ástgeirsdóttur, þingmanns Kvennalistans.

Að kvöldi föstudagsins 22. mars efndi forseti Íslands til árlegrar veislu sinnar fyrir ríkisstjórn, sendiherra erlendra ríkja og embættismenn. Þangað koma karlar í kjólfötum og konur í sínu besta skarti, þá bera gestir heiðursmerki. Páll Pétursson félagsmálaráðherra gat ekki þegið boð forseta, þar sem hann var bundinn við umræður á Alþingi. Lá í loftinu á Bessastöðum, að menn kynnu að verða kallaðir þaðan til atkvæðagreiðslu á þingi.

Um miðnættið þegar gestir tóku að kveðja forseta hafði ekkert kall komið frá Alþingi. Það er því alrangt, sem Ögmundur Jónasson sagði í þingræðu, að menn hefðu verið dregnir „út úr veislusölunum" til að greiða atkvæði. Framganga Ögmundar í þingsalnum er oft undrunarefni, hann hrópar á ræðumenn og er stóryrtur í ræðustól, eins og þegar hann sakaði fjármálaráðherra um „mannfyrirlitningu" og kallaði hann „böðul". Menn með slíkan munnsöfnuð geta ekki haft góðan málstað.

Frá Bessastöðum fór ég því heim til mín með þeirri ósk til símastúlkna á þingi, að þær hringdu til mín, þegar til atkvæðagreiðslu kæmi. Er alvanalegt, að þingmenn standi þannig að málum, þegar atkvæðagreiðsla er á næsta leiti. Um klukkan 2 vakti síminn mig og boð bárust um að koma strax til atkvæðagreiðslu. Þegar í þinghúsið kom hafði verið gert hlé á fundum til 2.15 á meðan beðið væri þingmanna en jafnan tíðkast, þegar um mikilvægar atkvæðagreiðslur er að ræða, að ráðrúm gefist til að kalla í þingmenn, sem hafa skrifstofur í nágrenni þinghússins. Er þetta í samræmi við það, sem almennt tíðkast í þjóðþingum, ef skyndilega er kallað til atkvæðagreiðslu, að mönnum gefist eðlilegt ráðrúm til að komast í þingsalinn, hvergi er gert ráð fyrir, að þingmenn sitji þar öllum stundum.

Í frétt Morgunblaðsins af þessari atkvæðagreiðslu segir svo 24. mars: „Varð að gera hlé á þingfundi áður en atkvæðagreiðsla gæti farið fram þar sem fáir stjórnarþingmenn og enginn ráðherra, að undanskildum félagsmálaráðherra, voru á staðnum." Þetta er varla fréttnæmt miðað við þá staðreynd, hve oft er staðið þannig að málum á Alþingi, að atkvæðagreiðsla er ákveðin með nokkrum fyrirvara. Þarna var til hennar boðað fyrirvaralaust um hánótt.

Á Alþingi sitja 63 þingmenn, þurfa 32 að taka þátt í atkvæðagreiðslu, svo að hún sé lögmæt, kemur oft fyrir, að stjórn og stjórnarandstaða myndi saman þennan fjölda í þingsalnum. Er talið eðlilegt, að menn gangi þannig til verks, að þeir geri ekki vísvitandi tilraun til að spilla fyrir því, að þessi fjöldi þingmanna sé við atkvæðagreiðslu.

Þegar ég kom í þinghúsið voru þar fyrir fleiri stjórnarsinnar en stjórnarandstæðingar en samanlagt færri en 32 þingmenn. Höfðu stjórnarandstæðingar fyrirvaralaust dregið nöfn sín út af mælendaskrá og lauk þá fyrstu umræðu um málið og unnt var að taka það til atkvæða. Var augljóst, að fyrir stjórnarandstöðunni vakti að gera stjórnarliðum lífið leitt með því að láta kalla þá út til atkvæðagreiðslu um miðja nótt. Helst hefðu þeir kosið, að ekki tækist að ná í 32 stjórnarsinna á þessari stundu. Létu stjórnarandstæðingar eins og þeim væri mjög misboðið vegna þess, að ekki væru nægilega margir í þinghúsinu, til að gengið yrði til atkvæða. Völdu þeir þó tímann til að ljúka umræðunni með hliðsjón af því, að fáir væru í þinghúsinu. Klukkan 2.15 setti forseti fund. Þá gerði Svavar Gestsson athugsaemd við það, að ekki hefði verið gengið til atkvæða. Geir Haarde þingflokksformaður okkar sjálfstæðismanna svaraði honum.

Skömmu síðar hringdi forseti til atkvæðagreiðslu. Var þá ljóst, að 32 stjórnarsinnar voru komnir í þinghúsið. Þá brá svo við, að allir stjórnarandstæðingar nema einn, hinn óháði Ögmundur Jónasson, höfðu yfirgefið húsið. Gerðu þeir það í þeirri von, að þar með fengist ekki nægilegur fjöldi í lögmæta atkvæðagreiðslu. Sú von rættist ekki, því að stjórnarsinnar höfðu full tök á málinu eins og öðrum þingmálum. Var þetta því hlálegt fyrir stjórnarandstöðuna, henni reyndist um megn að koma í veg fyrir, að málið kæmist til nefndar fyrir hléið á fundum Alþingis. Fjarvist þeirra úr þinghúsinu sýndi að auki, að þeir hirða ekki um lögbundnar skyldur sínar að sækja þingfundi nema lögmæt forföll hamli. Þykir sú aðferð, sem þeir gripu til, að reyna að koma í veg fyrir starfhæfan fund hvergi til fyrirmyndar og frekar sýna pólitíska skammsýni og skemmdarfýsn en þroska.

Mér finnst þessar starfsaðferðir stjórnarandstæðinga í þessu máli í góðu samræmi við allan málatilbúnað þeirra. Þeir láta eins og ríkisstjórnin sé að ganga á mannréttindi og auk þess að vinna verkalýðshreyfingunni óbætanlegt tjón. Hvorugt er rétt. Með engu móti er unnt að verja stóryrði stjórnarandstæðinga með því að vísa til efni þessara frumvarpa. Fráleitt er að líta þannig á, að með flutningi lagafrumvarpa séu menn að „slíta í sundur friðinn" eins og Svavar Gestsson hrópar í venjulegum glamuryrðastíl. Menn slíta í sundur friðinn ef þeir fara ekki að lögum, eins og á var bent, þegar kristni var lögtekin.--------------------------------------------------------------------------------

Fimmtudaginn 21. mars fór ég til Akureyrar til þátttöku í þætti Stefáns Jóns Hafsteins, Almannarómi, sem sýndur var á Stöð 2 sama kvöld. Var ánægjulegt að koma til Akureyrar í fögru veðri þennan dag. Eftir upptöku á þættinum í Verkmenntaskólanum átti ég þess kost að skoða nýbyggingu Menntaskólans á Akureyri í fylgd Tryggva Gíslasonar skólameistara og ræða um málefni skólans, auk þess sem mér var sýndur sá sómi að vera sæmdur merki skólans, uglunni, úr gulli.

Síðdegis á föstudegi efndi Félag viðskipta- og hagfræðinga til fundar um menntakröfur atvinnulífsins og flutti ég þar ræðu, sem birtist annars staðar hér á síðunni.

Atkvæðagreiðslunni lauk ekki á Alþingi fyrr en undir 3 aðfaranótt laugardagsins en klukkan 9 á laugaradgsmorgni flutti ég ávarp (sem er annars staðar á heimasíðunni) við upphaf Uppeldismálaþings, sem kennarasamtökin héldu. Klukkan 14 þann sama dag var í Héraðsbókasafni Kjósarsýslu í Mosfellsbæ, þar sem opnuð var sýning undir merkjum Nordliv, sem er átaksverkefni norrænu félaganna til að ýta undir norræna samkennd, kom í minn hlut að segja nokkur orð um norræna samvinnu af þessu tilefni. Á leiðinni í Mosfellsbæ var ég í GSM-símasambandi við beina útsendingu á menningarkynningarþætti á Rás 2. Sannaði það enn, hve fjarskiptatæknin er orðin mögnuð, þó slitnaði sambandið, þegar við ókum upp Ártúnsbrekkuna.

Sunndudaginn 24. mars fór ég klukkan 14.00 á málþing í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti (FB), sem haldinn var þar í tengslum við skólakynningu og 20 ára starfsafmæli skólans. Skóli á tímamótum var forsögnin á málþinginu. Í FB hafa menn áhyggjur af hugmyndum um veraksiptingu á milli framhaldsskólana og telja, að verið sé að taka of stóran spón úr aski skólans. Þá túlka þeir ummæli í skýrslu ráðuneytisins, þar sem þess er getið, að um 1500 manns stundi nám í FB, þótt húsrými sé aðeins fyrir 1000 nemendur, á þann veg, að ráðuneytið ætli að fækka nemendum í skólanum um 500. Leitaðist ég við að leiðrétta þann misskilning, enda er málum þannig háttað hér á höfuðborgarsvæðinu, að það er skortur á skólarými, þrátt fyrir að Borgarholtsskóli komi til sögunnar og því fráleitt að ætla að yfirvöld skólamála vilji fækka í skólum. Á hinn bóginn er ljóst, að skýrari verkaskipting milli skóla snertir FB, því að þar leggst niður kennsla í málmiðnaði og rætt hefur verið um að leggja þar niður framhaldsnám í trésmíði og rafiðn. Um annað en málmiðnað og hluta af matvælanámi hefur hins vegar ekki verið ákveðið, en viðræður hafa farið fram milli mín og stjórnenda skólans. Er þeim ekki enn lokið og er beðið eftir hugmyndum frá skólanum. Í máli okkar, sem erum utan skólans og töluðum á málþinginu, hvöttum við stjórnendur FB til þess að koma með hugmyndir um nýtt nám við skólann og nefndi ég sérstaklega upplýsingatækni og upplýsingamál í því sambandi.

Úr FB fór ég í Iðnskólann í Reykjavík, sem einnig var með opið hús. Fór ég þar um og skoðaði það, sem fyrir augu bar. Var fjöldi fólks í skólanum og greinilega mikill áhugi á því, sem var verið að kynna. Úr Iðnskólanum fór ég beint í næsta hús, Hallgrímskirkju, þar sem Mótettukórinn var með glæsilega tónleika.