17.3.1996

Lífeyrissjóðamál - verkaskipting - sýningar

Enn miðaði í þá átt í vikunni, að grunnskólinn færi í friði til sveitarfélaganna. Hér vísa ég til þess, að í umræðum á Alþingi fimmtudaginn 14. mars lýsti Davíð Oddsson forsætisráðherra yfir því, að ríkisstjórnin myndi ekki þvinga fram breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og gefa sér góðan tíma til að ræða málið við fulltrúa aðildarfélaga að sjóðnum.

Þessi yfirlýsing kemur til móts við sjónarmið, sem Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hefur látið í ljós. Í bréfi, sem Eiríkur ritaði mér, þegar hann dró sig út úr samstarfi um flutning grunnskólans, nefndi hann lífeyrismálin sérstaklega sem ásteytingarstein. Nú hefur honum verið rutt úr vegi.

Mér kemur undarlega fyrir sjónir, þegar látið er að því liggja, að forsætisráðherra hafi á einhvern hátt verið að lítlillækka fjármálaráðherra með yfirlýsingu sinni. Þessi fjölmiðlatúlkun á ekki við neinar efnislegar forsendur að styðjast eins og raunar kemur fram, þegar það er lesið, sem eftir fjármálaráðherra er haft, til dæmis í Morgunblaðinu. Raunar er undarlegt, að blaðið skuli ekki snúa sér til forsætisráðherra og fá hans hlið á málinu fyrst blaðið velur þann kost að leggja mest upp úr samráði eða samráðsleysi ráðherra.--------------------------------------------------------------------------------

Í vikunni var einnig unnið að því að móta verkaskiptingu milli framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Sæmileg sátt hefur tekist um málmiðnaðinn og flutning hans í Borgarholtsskóla úr Fjölbrautarskólanum í Breiðholti (FB). Að öðru leyti er kennsluframboð í FB til umræðu. Með öllu er rangt, að áform séu uppi um það, að nemendum þar fækki úr 1500 í 1000. Á hinn bóginn hefur ráðuneytið bent á þá staðreynd, að í raun hafi ekki verið byggt yfir nema 1000 manns í FB. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að nemendum í FB fækki. Hins vegar er ekki víst, að menn geti stundað sama nám og nú innan veggja hans um alla framtíð. Raunar getur það ekki verið markmið neinnar skólastefnu, að skólar séu óbreytanlegir um aldur og ævi.

Ég hitti á fundi á föstudaginn 15. mars, áður en ég fór á Iðnþing og flutti ræðu þar (hún er annars staðar á heimasíðunni), fulltrúa þeirra, sem ekki hafa lokið faglegu námi og búa í raun aðeins við grunnskólapróf. Fyrir tilstilli launþegasamtakanna og ASÍ hefur verið stofnaður samstarfshópur til að sinna hagsmunum þessa hóps. Hann er mjög fjölmennur, samkvæmt greiningu Hagstofunnar um 65.000. Til þessa hóps nær menntamálaráðuneytið ekki nema með aðstoð atvinnulífsins, fyrirtækja og stéttarfélaga. Ég lít þannig á, að verði framhaldsskólafrumvarpið að lögum opnist nýir kostir fyrir ráðuneytið og skóla til að veita þessum hópi þjónustu.--------------------------------------------------------------------------------

Síðdegis laugardaginn 16. mars sóttum við Rut tónleika á vegum Tónal í troðfullu Háskólabíói. Tónal er samtök kóra, sem starfa í fyrirtækjum eða á vegum verkalýðsfélaga. Voru rúmlega 300 manns á sviðinu, þegar flest var. Sannaðist þarna enn, hve víða listastarfsemi þrífst, raunar er þátttaka í slíku starfi einnig liður í símenntun fyrir utan þá gleði, sem þetta starf greinilega vekur.

Eftir tónleikana fórum við í Gerðarsafn í Kópavogi, þar sem þrír listamenn voru að opna sýningar. Í safninu er ein glæsilega aðstaða til að listsýninga í landinu og ávallt ánægjulegt að koma þangað.

Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, heldur um þessar mundir upp á 50 ára afmæli sitt. Af því tilefni bauð ég félagsmönnum og kennurum til hófs síðdegis þennan sama laugardag og síðan sáum við Rut frumsýningu á Amlóða í flutningi Bandamanna í Borgarleikhúsinu. Var forvitnilegt að bera saman sýninguna þar og í Kaffileikhúsinu í Kaupmannahöfn á dögunum. Er ég ekki frá því, að í Kaupmannahöfn hafi sýningin náð betur til áhorfenda, þótt aðeins hluti þeirra skildi textann.

Þetta var ekki eina frumsýningin í vikunni, því að kvöldi föstudagsins fórum við og sáum Oklahoma í flutningi nemenda Söngskólans í Íslensku óperunni. Blasti þar enn við sá dugnaður og frumkvæði, sem skólanemar alls staðar sýna.