4.3.1996

Upplýsingatæknin - flutningurinn - heimsóknir

Merkur áfangi náðist í mennta- og menningarmálum í vikunni með útgáfu ritisins Í krafti upplýsinga, þar sem lýst er tillögum menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni. Í ritinu birtist afrakstur starfs verkefnisstjórnar og þriggja starfshópa, sem unnu tillögur um nýtingu upplýsingatækninnar á sviði menntamála, menningar og í starfi ráðuneytisins sjálfs. Ritið hefur tvíþættan höfuðtilgang. Þar er annars vegar um að ræða leiðarvísi um það, hvernig ráðuneytið og stofnanir á vegum þess skuli nýta hina nýju tækni. Hins vegar eru tillögurnar framlag menntamálaráðuneytisins til almennrar stefnumótunar ríkisstjórnarinnar varðandi upplýsingatækni og nýtingu hennar.

Er með ólíkindum af hve miklum áhuga þeir unnu, sem tóku að sér þetta nefndarstarf á vegum menntamálaráðuneytisins. Það var á haustdögum, sem nefndirnar voru skipaðar og hinn 1. mars 1996 birtust tillögurnar í 96 síðna riti. Má segja, að þar sé tekið á stóru sem smáu og lögð drög að merku framtíðarstarfi um leið og því er lýst, sem nú er fyrir hendi.

Ég á von á því, að menn geti síðar nálgast efnið á heimasíðu menntamálaráðuneytisins, en þar er að finna sífellt fleiri upplýsingar um mennta- og menningarmál. Í ritinu er því einmitt lýst, að markmiðið með heimasíðu ráðuneytisins sé að auðvelda stofnunum á stjórnsýslusviði ráðuneytisins, sem og öðrum, aðgengi að upplýsingum um mennta- og menningarmál sem tengjast starfsemi ráðuneytisins, auk upplýsinga um ráðuneytið sjálft og starfsfólk þess.

Þessum markmiðum á að ná með því að gera heimasíðuna að lifandi vettvangi fyrir upplýsinar um mennta- og menningarmál; uppfæra efnið á heimasíðunni reglulega; markaðssetja heimasíðuna m.a. með því að tengja hana við sem flesta þjónustuaðila heimasíðna innanlands og utan, einnig verði hún tengd við Menningarnetið, sem ætlunin er að koma á fót; á heimasíðunni verði upplýsingar um málaflokka ráðuneytisins sem oftast berast fyrirspurnir um, þannig geti almenningur fengið skjótan og greiðan aðfang að margs konar upplýsingum án þess að þurfa að snúa sér til ráðuneytisins; stefnt verði að því að bæta þjónustu ráðuneytisins með því að hægt sé að sækja á heimasíðuna umsóknareyðublöð t.d. um starfsleyfi og styrki. Þá er tekið fram, að almennt svið innan ráðuneytisins beri ábyrgð á heimasíðunni.

Ég tek þetta dæmi hér um heimasíðu ráðuneytisins til að sýna, hve nákvæmlega einstaka þættir eru unnir í þessum tillögum. Hér eftir getur að minnsta kosti enginn sagt, að menntamálaráðuneytið hafi ekki stefnu í upplýsingamálum. Nú kemur að því að hrinda henni í framkvæmd.


Flutningur grunnskólans
Mánudaginn 26. febrúar féllst ég á þá ósk þingflokka stjórnarandstöðunnar að fresta umræðum á Alþingi um frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla. Gerði ég þetta í fyrsta lagi vegna þess að almennt er venja að verða við slíkum óskum nema eitthvað sérstakt hindri, að þá sé unnt, og í öðru lagi er enn ósamið við sveitarfélögin um skiptingu kostnaðar vegna flutnings grunnskólans. Viðræður um það mál hafa staðið þessa viku og eru þær á viðkvæmu stigi.
Óskina báru stjórnarandstæðingar fram á þeirri forsendu, að deilt væri um stöðu opinberra starfsmanna og þennan sama mánudag sætu þeir á fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og ræddu réttindamál sín. Ég ítrekaði vegna þessa það sjónarmið mitt, að ekki ætti að tengja þessi óskyldu mál saman, því að réttindi grunnskólakennaranna væru tryggð með því frumvarpi, sem ég hefði flutt á Alþingi.

Þetta frumvarp mitt verður til umræðu á Alþingi fimmtudaginn 7. mars en daginn eftir 8. mars verður ráðstefna í Borgarnesi, þar sem sveitarstjórnarmenn koma saman til að ræða málið. Er þess vænst, að fyrir þann fund liggi fyrir niðurstaða varðandi skiptingu kostnaðarins milli ríkis og sveitarfélaga.


Heimsóknir
Fimmtudaginn 29. febrúar notaði ég til að þiggja þrenn boð til ólíkra aðila.
Í fyrsta lagi fór ég til Hafnarfjarðar og heimsótti Hafnfirska fjölmiðlun eða Almiðlun, sem er fyrirtækið er stundar útvarps- og sjónvarpsrekstur auk útgáfu staðarblaða í Hafnarfirði og Kópavogi. Er sú starfsemi til marks um þá þróun, sem á eftir að setja enn meira mark á fjölmiðlun, að þörfin fyrir byggðarlaga- eða nærsveitarfréttir verður meiri eftir því sem fréttastreymið almennt eykst. Fyrir þá sem búa utan Hafnarfjarðar er þetta ágæta fyrirtæki líklega næsta lítið þekkt, mér var boðið þangað, eftir að ég opnaði Sýn, því að forráðamennirnir vildu kynna mér alíslenska fjölmiðlastarfsemi.

Ég lít á þessa heimasíðu mína sem þjónustu á borð við það, sem Hafnfirsk fjölmiðlun veitir. Varla er unnt að vera með þrengra svið í fréttamiðlun sinni en athafnir eins manns og það, sem á hans fjörur rekur. Raunar undrast ég, að enginn skuli hafa ráðist í að gefa út staðarblað í Reykjavík. Menn þurfa ekki að hafa starfað lengi að stjórnmálum í höfuðborginni eða taka þátt í starfi á sviði menningar- og menntamála til að átta sig á því, hve reykvískir fjölmiðlar gefa í raun yfirborðskennda mynd af því, sem er að gerast í höfuðborginni.

Þykir mér enn ástæða til að endurtaka það, sem ég hef líklega áður sagt, að ekki er unnt annað en dást að áhuganum, sem víða kemur fram, þegar menning eða menntun er til umræðu. Þar er um margt fréttnæmt að ræða, sem aldrei er sagt frá í neinum fjölmiðli en vekur þó áhuga margra.

Laugardaginn 2. mars fór ég til dæmis fyrst um morguninn á 300 manna ráðstefnu menntamálaráðuneytisins um málefni nemenda með sérþarfir. Var aðsóknin og áhuginn mun meiri en vænst hafði verið. Í hádeginu var ég í Perlunni sem var troðin af fólki, sem var að kaupa bækur á hinum árlega Bókamarkaði, upp úr kl. 14 fór ég á Skrúfudag Vélskólans, þar sem var margmenni og klukkan 15.00 var opnuð listasýning ungmenna í Listasafni Íslands og var það troðfullt.

Eftir að hafa heimsótt Hafnfirska fjölmiðlun fór ég fimmtudaginn 29. febrúar til Iðnnemasambands Íslands á skrifstofur þess við Skólavörðustíg. Þar kynntist ég því eins og svo víða annars staðar, hve ungt fólk er sjálfstætt og duglegt. Til dæmis held ég, að fáir geri sér grein fyrir því, hve stórtækir iðnnemar eru í húsbyggingum fyrir félagsmenn sína. Byggja þeir þar á sömu grunvallarsjónarmiðum og liggja að baki Félagsstofnun stúdenta, sem komið var á laggirnar í lok sjöunda áratugarins, þegar ég var í hópi forystumanna stúdenta. Er ljóst, að það er eitt af þeim fyrirtækjum, sem skilað hefur góðum árangri, af því að það hjálpar mönnum til sjálfsbjargar. Það sjónarmið hafa forystumenn iðnnema greinilega að leiðarljósi.

Síðdegis þennan fimmtudag fór ég í heimsókn til SÁÁ að Vogi og kynntist starfseminni þar undir leiðsögn forystumanna þar. Er ógnvekjandi að heyra lýsingar þeirra á því, hvernig amfetamínneysla hefur stóraukist undanfarið. Er augljóst, að dreifing þessa efnis er nú meðal yngri aldurshópa en áður og að henni stendur einnig yngra fólk en áður, virðist kerfi landasölumanna vera notað í þessum tilgangi. Kom hið sama fram á föstudagskvöldið 1. mars á samkomu, sem Félag framhaldsskólanema stóð fyrir í Hinu húsinu til að hefja jafningjafræðsluna formlega.

Mánudagskvöldið 26. febrúar sá ég kvikmyndina Vesalingana á kvikmyndahátíð SAM-bíóanna, miðvikudagskvöldið 28. febrúar hlýddi ég á hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík flytja tvö frumsamin verk eftir nemendur skólans, fimmtudagskvöldið 29. febrúar fór ég á tónleika Mezzoforte í Loftkastalanum og föstudagskvöldið 1. mars á frumsýningu á Tröllakirkjunni í Þjóðleikhúsinu.