23.2.1996

Verkefnaáætlun - símenntun - afmæli Gunnars

Mánudaginn 19. febrúar var stutt umræða utan dagskrár á Alþingi um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Var gott að fá þar tækifæri til að sk‡ra fyrir þingheimi og öðrum, hvernig málið stendur, eftir að kennarar hafa að svo stöddu hætt þáttttöku í starfi vegna flutningsins. Setti ég fram svipuð viðhorf og koma fram í pistli mínum frá því fyrir viku.

Grænlenski menntamálaráðherrann Konrad Steenholdt var í Reykjavík ásamt með tveimur aðstoðarmönnum sínum þriðjudaginn 20. febrúar og bauð ég honum óformlegan hádegisverð í Ráðherrabústaðnum þann dag. Að öðru leyti notaði hann tímann til að skoða söfn og sýningar.

Síðdegis þennan sama þriðjudag efndi ég til fundar með samstarfsfólki í menntamálaráðuneytinu og kynnti því verkefnaáætlun ráðuneytisins fyrir kjörtímabilið, sem ég kalla Menning menntun, forsenda framtíðar. Tel ég, að þetta sé í fyrsta sinn, sem menntamálaráðherra kynnir stefnu sína með þessum hætti.

Undanfarin tvö kjörtímabil hefur verið staðið þannig að verki, að í upphafi starfsferils síns hafa forverar mínir sett á laggirnar nefndir til að fjalla um stefnumörkun í menntamálum. Þessar nefndir hafa verið misjafnlega lengi að störfum en á meðan hafa ýmsar ákvarðanir beðið. Ekkert slíkt starf hef ég sett af stað, enda sætti ég mig vel við niðurstöðu nefndar um mótun menntastefnu, sem Sigríður Anna Þórðardóttir stýrði á síðasta kjörtímabili. Ég er að vinna að framkvæmd þeirrar stefnu og hef lagt á það áherslu, að næsta stórverkefnið lúti að innra starfi skólanna, það er með því að semja nýjar aðalnámskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla.

Það plagg, sem ég kynnti á þriðjudag, er verkefnaáætlun ráðuneytisins. Þar koma fram þær áherslur, sem ég vil að móti starf ráðuneytisins á komandi misserum. Ég tel mjög brýnt, að í jafnstóru ráðuneyti og menntamálaráðuneytinu liggi fyrir stefnumótun af þessu tagi, því að hún er þar eins og annars staðar forsenda þess, að skipulega sé tekið á málum. Lykilorð í gæðastjórnun er, að markmið séu skýr. Menn viti, að hverju skuli stefnt.

Er ljóst, að ekki er auðvelt að framfylgja stefnu í menntamálum. Fyrst þarf Alþingi að leggja blessun sína yfir hana, ef um lagasetningu er að ræða, síðan þarf að huga að framkvæmdaskyldum ráðuneytis, þá er nauðsynlegt að ræða við þá, sem málið varðar og loks hrinda því í framkvæmd. Við sjáum, að meðalvegurinn er vandrataður eins og kemur fram við flutning grunnskólans og nú í umræðum um framhaldsskólana, bæði nýtt lagafrumvarp um þá og verkaskiptingu milli þeirra. Þá þarf að berjast fyrir nauðsynlegum fjármunum.

Aðalatriðið er, að menn missi ekki sjónar á því, að skólinn er rekinn fyrir nemendurna og í þeim tilgangi að mennta þá sem best. Missi menn sjónar á þessu eða hafi þetta meginhlutverk að engu getur skólinn auðveldlega breyst í átakavöll um alls óskyld mál. Ég tel, að um þau mál eigi að takast utan veggja skólans.

Á þirðjudagskvöldið flutti ég erindi um utanríkismál í Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins. Þetta hef ég gert um langt árabil og ætíð haft mikla ánægju af því. Stjórnmálaskólinn er meðal þeirra stofnana innan flokksins, sem mér finnst hafa mest gildi. Þar er miðlað fróðleik og skipst á skoðunum við fólk, sem er komið af sönnum áhuga og er reiðubúið til að leggja nokkuð á sig til að fræðast almennt um stjórnmál og stefnu Sjálfstæðisflokksins sérstaklega.

Síðdegis á miðvikudag ætlaði ég til Egilsstaða með Agli Jónssyni og Arnbjörgu Sveinsdóttur alþingismönnum og halda þar almennan fund um kvöldið. Veðrið kom í veg fyrir þá ferð.

Fimmtudagskvöldið þáði ég boð Sam-bíóanna um að sjá myndinia Bréfberinn. Sé ég ekki eftir því. Myndin er ein af perlum kvikmyndasögunnar.

Klukkan 8.15 að morgni föstudagsins 23. febrúar flutti ég ræðu á fundi Kvenréttindafélags Íslands um jafnréttisfræðslu. Birtist ræðan annars staðar hér á heimasíðunni.

Laugardagurinn 24. janúar var helgaður símenntun og hófst á ráðstefnu um málið klukkan 10, sem ég setti með ræðu (hún birtist líka annars staðar hér á heimasíðunni). Var ráðstefna þessi vel skipulögð eins og annað þennan dag og fróðleg fyrir þátttakendur, ekki síst fyrir þá sök, að kallaðir voru til aðrir en þeir, sem sinna skóla- eða menntamálum. Eftir hádegi gat ég skotist í heimsókn til Guðrúnar Halldórsdóttur í Námsflokkum Reykjavíkur í Miðbæjarskólanum, áður en ég hélt til Selfoss. Þar var í senn kynning í tilefni dags símenntunar og hátíð vegna þess að opnað var bókasafn skólans í framtíðarhúsnæði þess. Klukkan 23 hófst síðan 70 ára afmælishátíð vinar míns Gunnars Eyjólfssonar leikara í Kristalsal Þjóðleikhússins og var ánægjulegt að fá að taka þátt í henni. Þótti mér það vel við hæfi á degi símenntunar, því að fáir hafa undanfarin ár verið duglegri en Gunnar við að fræða mig um ýmislegt, sem mér var áður hulið.