18.2.1996

Kennarar, grunnskólinn, Orator, Karlakór Reykjavíkur ofl.

Fæstir hafa líklega búist við því, að jafnmikill friður yrði um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og raun hefur verið undanfarna mánuði. Menn hafa unnið að því í sátt og samlyndi að taka á hverju málinu eftir öðru með því hugarfari að komast að niðurstöðu. Síðan gerist það allt í einu föstudaginn 16. febrúar, að forráðamenn Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags koma á fund okkar fjármálaráðherra og tilkynna okkur, að nú sé friðurinn rofinn. Fulltrúar kennara muni firra sig allri ábyrgð á flutningnum og ekki taka frekari þátt í samstarfi um hann, að minnsta kostis ekki fyrst um sinn. Var þessi afstaða síðan áréttuð í samþykktum stjórna þessara félaga.

Að morgni 17. febrúar sat ég málþing um flutning grunnskólans sem SSH, Samtök sveitarafélaga á höfuðborgarsvæðinu, höfðu boðað til í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar kom fram, að friðrof kennara virðist síður en svo hafa dregið úr áhuga manna á því að vinna áfram að þessu mikla verkefni. Að mínu áliti eiga þeir, sem að málinu starfa almennt erfitt með að skilja afstöðu kennara. Var ég að minnsta kosti hvattur til að hverfa ekki í neinu frá settu marki.

Að mínu áliti er mér ákaflega þröngur stakkur sniðinn til að bregðast við þessum aðgerðum kennara, því að til þessa hef ég farið að öllum óskum þeirra um réttindamálin vegna flutningsins og náð samstöðu um það mál með sveitarfélögunum. Er ég fremur gagnrýndur fyrir að ganga of langt til móts við kennara en hitt. Leiðarljósið er, að staða kennara breytist ekki við flutninginn, þeir fái hvorki meiri né minni rétt. Þetta er í samræmi við niðurstöðu þeirrar nefndar, sem hefur unnið að því í sambandi við flutninginn að skilgreina réttindi kennara og hvernig best verði staðinn vörður um þau í samræmi við ákvæði í 57. grein grunnskólalaganna.

Nú er því haldið fram, að það komi kennurum á óvart, að í lok almennra athugasemda með frumvarpinu um réttindi grunnskólakennara sé greint frá því, að af hálfu ríkisstjórnarinnar sé unnið að endurskoðun á starfsmannastefnu ríkisins og lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stefnt að því að leggja fram frumvarp um það efni á vorþingi 1996. Í lok athugasemdanna stendur: „Ef það frumvarp [þ.e. um ný lög um réttindi og skyldur grunnskólakennara] nær fram að ganga er ríkisstjórnin reiðubúin til að breyta lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarps þessa um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla, ef ósk kemur um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða hvorum tveggja." Á fundinum í Ráhúsinu vildi formaður Kennarafélags Reykjavíkur gera tortryggilegt, að í þessum texta stæði, að um þetta gæti komið fram ósk frá sveitarfélögunum. Þar með væri réttur kennara settur í óbærilega óvissu og mátti skilja, að þetta væru brigð á rétti kennara.

Ég mótmæli þessu og tel, að í athugasemdunum sé gætt fulls jafnræðis milli sveitarafélaga og kennara að því er þetta varðar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, lýsti því raunar yfir, að hann teldi þessa setningu í raun markleysu, því að hver sem er gæti haft frumkvæði að breytingu á lögum og enginn gæti svipt alþingismenn þeim rétti. Sín vegna mætti setningin hverfa úr athugasemdununum. Ég sagði, að með þessari klausu í athugasemdunum væri verið að koma til móts við óskir kennara, því að hún hefði orðið til hjá mér, þegar ég tók af skarið um að flutt yrðu sérlög vegna réttindamála grunnskólakennara. Ég hefði talið eðlilegt að þessar upplýsingar kæmu fram í frumvarpinu og öllum, sem ég hefði átt samskipti við um þetta mál, hefði verið ljóst, að slík yfirlýsing yrði gefin. Menn gætu ekki bundið hendur löggjafans. Þó er ríkisstjórnin þarna að lýsa yfir, hvernig hún muni standa að málum. Vilji menn ekkert gera með slíka yfirlýsingu eða telji hana hættulega er einfalt að draga hana til baka.

Í þessu sambandi er rétt að minnast þess, sem varð niðurstaða réttindanefndar, að flutningurinn eigi „í sjálfu sér ekki að leiða til grundvallarbreytinga á högum kennara og skólastjórnenda." Það yrði svo sannarlega grundvallarbreyting, ef menn teldu, að lög um réttindi og skyldur grunnskólakennara og skólastjóra hefðu aukið vægi fram yfir önnur lög. Þá væru kennarar í raun að öðlast miklu meiri rétt en aðrir við flutninginn. Það skiptir máli hér, að grunnskólakennarar og skólastjórar tapa engum réttindum við flutninginn. Þeir öðlast hins vegar ekki aukinn rétt.

Kennarafélögin rökstyðja nýtt viðhorf sitt og brotthvarf frá samvinnu um flutning grunnskólans meðal annars með því, að þau hafi innan vébanda sinna kennara, sem verði áfram starfsmenn ríkisins. Með breyttri stefnu í starfsmannamálum ríkisins gjörbreytist staða þeirra kennara, sem starfi áfram hjá ríkinu. Það komi þeim í opna skjöldu nú, að taka eigi upp slíka starfsmannastefnu. Þessi röksemdafærsla stenst ekki gagnrýni, því að í frumvarpi til nýrra framhaldsskólaga, sem legið hefur fyrir síðan 1994, er gert ráð fyrir afnámi skipunarréttar framhaldsskólakennara. Þetta hefur einmitt verið eitt helsta gagnrýnisatriði kennara á frumvarpið. Kennarar vissu því um þessa stefnu ríkisins, þegar gengið var frá samkomulaginu um réttarstöðu grunnskólakennara við flutninginn. Þeir geta ekki nú komið fram og sagt, að breytingar í þessa átt hafi áhrif á afstöðu þeirra til flutning grunnskólans.

Í Morgunblaðsgrein, sem birtist 30. janúar 1996, komst ég þannig að orði:

"Frá því að frumvarpið [til framhaldsskólalaga] var fyrst lagt fram vorið 1994 hefur það tekið nokkrum breytingum í samræmi við rökstuddar athugasemdir. Kennarar telja, að með frumvarpinu sé vegið að kjörum þeirra með breytingum á réttarstöðu þeirra gagnvart ríkisvaldinu. Í ljósi þess, að nú er markvisst unnið að almennri stefnumörkun í starfsmannamálum ríkisins, er tæplega tilefni til átaka um framhaldsskólafrumvarpið vegna starfsmannamála. Ágreining vegna nýrrar starfsmannastefnu ber að leysa á þeim vettvangi, þar sem aðilar þess máls eiga bein samskipti."

Í þessari klausu kemur fram viðhorf mitt, sem rétt er að árétta nú með þeim orðum, að deilur um réttarstöðu kennara á að leysa á þann veg, að það standi ekki nauðsynlegum breytingum á skólakerfinu fyrir þrifum.
Ég er almennt innilega ósáttur við að tengja saman óskyld mál, því að það gefur ekki tækifæri til að leysa hinn raunverulega ágreining á efnislegum forsendum. Staðreynd er, að það er enginn ágreiningur milli ríkisins, sveitarfélaga og kennara um réttarstöðu grunnskólakennara og skólastjóra við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Þess vegna er okkur, sem vinnum að því máli, í raun ókleift að koma frekar til móts við óskir kennara á þeim vettvangi.



--------------------------------------------------------------------------------

16. febrúar átti ég þess kost að rifja upp hefðbundin hátíðarhöld laganema. Þennan dag er þess minnst, að hinn 16. febrúar 1920 hélt Hæstiréttur Íslands fyrsta dómþing sitt.

Ortator, félag laganema, heldur upp á daginn fræðilega fyrir hádegi og með skemmtun síðdegis og um kvöldið. Vorum við Rut heiðursgestir laganema á árshátíð þeirra í Skíðaskálanum eftir að hafa verið gestgjafar þeirra síðdegis. Kom það í minn hlut að segja nokkur orð, sem ég birti annars staðar á heimasíðunni.

Fór hátíðin hið besta fram á meðan við vorum á svæðinu.



--------------------------------------------------------------------------------

Sídegis 17. febrúar hélt Karlakór Reykjavíkur upp á 70 ára afmæli sitt með mikilli sönghátíð í Háskólabíói, þar sem ég flutti stutta afmæliskveðju, sem einnig birtist annars staðar á heimasíðunni.



--------------------------------------------------------------------------------

Við gátum ekki verið nema hálfa sönghátíð Karlakórs Reykjavíkur, því að næst lá leiðin norður á Akureyri til að sitja þar fund með menningarmálaráðherrum Færeyja og Grænlands. Fórum við í tæka tíð til að komast í leikhúsið á Akureyri að kvöldi laugardagsins 17. febrúar og sjá þar Sporvagninn Girnd. Er það eftirminnileg og ánægjuleg kvöldstund.

Fyrir hádegi sunnudaginn 18. febrúar sátum við á fundi ráðherrarnir þrír: Sámal Petur i Grund frá Færeyjum og Konrad Steenholdt frá Grænlandi undir stjórn Jakobs Björnssonar, bæjarstjóra á Akureyri. Er ætlunin að gera samning milli ríkisstjórna landanna þriggja um samstarf í menningar-, mennta- og rannsóknarmálum og fela bæjarstjórn Akureyrar að annast framkvæmd þess í umboði menntamálaráðuneytisins.

Tókum við sunnudags-síðdegisvélina til baka heim til Reykjavíkur.