11.2.1996

Af flokksstarfi - landsfundur - ESB og háskólamál

Umræðurnar um landsfund Sjálfstæðisflokksins og tímasetningu hans tóku nýja stefnu í vikunni, þegar Tíminn birti viðtal við Matthías Bjarnason, fyrrverandi þingsmann Sjálfstæðisflokksins, sem réðst á eftirmenn sína í þingflokknum, barði sér á brjóst og sagði okkur þingmenn bölvaða aumingja, af því að við hefðum ekki uppi mótmæli gegn því, að ekki hefði verið tekin ákvörðun um landsfundinn. Leitaðist hann einnig við að gera það tortryggilegt, ef landsfundur yrði ekki fyrr en næsta haust, þá væri núverandi forysta flokksins að framlengja kjörtímabil sitt um eitt ár og gaf Matthías til kynna, að til þess hefðu menn ekki leyfi. Jafnframt sagði Matthías í þessu Tímaviðtali, að hann hefði fyrirlitningu á stjórnmálum og gaf fleiri yfirlýsingar í sama dúr, meðal annar um meðferð á opinberu fé.

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við Matthías Bjarnason en að mínu mati er ástæðulaust fyrir okkur, sem nú sitjum í þingflokki sjálfstæðismanna að kippa okkur upp við tilefnislaust reiðikast hans. Vilji hann mana menn til andstöðu við formann, framkvæmdastjórn og miðstjórn flokksins, er þetta ekki rétta aðferðin til þess. Framkvæmdastjórnin hélt fund síðastliðinn föstudag og næsta föstudag kemur miðstjórnin saman og tekur ákvörðun um það, hvenær landsfundur verður haldinn. Þegar honum var frestað vegna snjóflóðsins á Flateyri, var ekki nein dagsetning nefnd. Til hins er að líta, að flokkstarfið allt snýst á milli kosninga að miklu leyti um landsfundinn, kjör fulltrúa á hann og málefnaundirbúning undir hann. Þess vegna er nauðsynlegt að fá sem fyrst ákvörðun um það, hvenær fundinn skuli halda.

Það voru andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, sem tóku til við að blanda tímasetningu landsfundar inn í ákvarðanir um forsetaframbjóðendur. Síðan hafa þau rök verið nefnd fyrir því, að fundurinn verði ekki haldinn í vor, að hann kunni að falla í skugga forsetakosninga. Hvorugt er haldbært finnst mér, þegar rætt er um það, hvenær fundurinn verður. Það hefur löngum þótt skynsamlegt að halda hann í þann mund, sem Alþingi er að hefja störf að hausti og síðan eftir áramót, þegar kosningar eru á næsta leiti við lok kjörtímabils. Þessi rök eru fullgild, ef menn hafa hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í huga. Ekki er með neinum rökum unnt að halda því fram, að núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins þurfi að fresta landsfundi til að framlengja umboð sitt. Miklir og ólíklegir atburðir þurfa að gerast til að þeim, sem landsfundur hefur kosið til forystu, sé ógnað innan flokksins.--------------------------------------------------------------------------------

Þriðjudagskvöldið 6. febrúar tók ég þátt í fundi um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu (ESB) á vegum sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi. Auk mín var Víglundur Þorsteinsson frummælandi. Mín rök í þessu máli eru helst þau, að ESB hafi lokað aðildardyrum sínum 1992 til 1993. Þá hafi enginn stjórnmálaflokkur talað fyrir aðild. Nú sé ESB að huga að breytingum á stjórnskipun sinni og aðildarkjörum. Ráðstefna um þetta hefjist í Tórínó í næsta mánuði og kunni að standa í nokkur ár. Þar verði einnig rætt um sameiginlega mynt ESB-ríkja og sameiginlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Í öllum þessum málum ríki mikil óvissa. Við þessar aðstæður sé ekki unnt að slá neinu föstu um það, hvernig ESB verði eftir ríkjaráðstefnuna. Þess vegna sé skynsamlegt að bíða og sjá, hvers konar ESB það verður, sem opnar aðildardyr sínar.
Ég mótmælti því einnig, að við sjálfstæðismenn vildum ekki ræða þessi mál. Þau hafa verið og verða til umræðu innan flokksins.--------------------------------------------------------------------------------

Laugardaginn 10. febrúar var kjördæmisþing sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi haldið í Hafnarfirði. Um 100 manns sóttu þingið, sem fór þannig fram, að menn skiptust í 7 umræðuhópa og síðan fóru þingmenn flokksins í kjördæminu og við Friðrik Sophusson fjármálaráðherra á milli hópanna og ræddum einstaka málaflokka við þá. Kom í minn hlut að ræða menntamálin.
Er þetta skemmtilegt fundarform og gefur öllum þátttakendum tækifæri til að taka þátt í óformlegum og persónulegum umræðum á þeim forsendum, sem þeir sjálfir kjósa.

Sérstaklega kom mér á óvart, hve margir spurðu um samskipti Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Er greinilegt, að það hefur komist til skila hjá almenningi, að forystumenn þessara skóla séu ekki á einu máli. Að mínu mati er hér um ríg að ræða, sem stendur báðum skólunum fyrir þrifum og ættu forystumenn þeirra frekar að taka höndum saman en deila.