4.2.1996

Verðlaun - réttindamál - framtíð Háskólans

Mánudaginn 29. janúar var boðað til samkomu í Listasafni Íslands til að afhenda bókmenntaverðlaun. Þau hlutu Steinunn Sigurðardóttir fyrir skáldsögu sína Hjartastað og Þór Whitehead fyrir bók sína Milli vonar og ótta, sem er sagnfræðilegt rit um síðustu mánuðina og dagana áður en Ísland var hernumið. Fyrir nokkru sagði ég frá því hér á þessum stað, að mér þætti fagnaðarefni, að þeir Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefðu sent frá sér bækur fyrir jólin. Varð þetta Ólafi Ragnari Grímssyni árásarefni á mig í þingræðu hinn 13. desember síðastliðinn. Birti ég hér kafla úr þessari ræðu Ólafs en menn geta nálgast hana í heild á vefsíðu Alþingis, umræðurnar snerust um skrásetningargjöld í Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Frumvarpið var þá til fyrstu umræðu, sem lauk ekki. Var það tekið aftur fyrir á fundi Alþingis 30. janúar og þá afgreitt umræðulaust til nefndar. Það er flutt vegna álits umboðsmanns Alþingis og á grundvelli tillagna frá háskólunum.

Hér koma kaflar úr þessari ræðu Ólafs Ragnars:


"Að vísu hefur hæstv. menntmrh., á öðrum vettvangi, gerst brautryðjandi nýjunga. Hann hefur annars vegar tekið að sér í íhlaupum stefnumótandi verk fyrir utanrrh. og svo hefur hann tekið það að sér, eini menntmrh. á Vesturlöndum, að mæla með tilteknum bókum í opinberum fjölmiðli sínum. Ég hélt satt að segja að það væri liðinn sá tími á Íslandi að valdsmenn væru að mæla með bókum og gefa út opinbera línu um það hvað væru góðar bækur. Það eru aðeins tvær bækur af öllum þeim mikla fjölda ritverka, fræðirita, bókmenntaverka, ljóðabóka, sem hæstv. menntmrh. telur þess virði að vekja athygli alþjóðar á í þeim sérstaka miðli sem hann hefur komið sér upp --- og er í sjálfu sér þakkarvert og ber að hæla honum fyrir það að nýta sér tæknina til að eignast þennan sérstaka miðil. En óneitanlega finnst manni það nú sérkennilegt að hæstv. ráðherra skuli nýta hann með þessum gamla hætti. Ég hélt satt að segja að forræðishyggja valdsmanna af þessu tagi heyrði liðinni tíð til. En það er greinilega ekki. Það er bara gamla frjálshyggjuhugmyndafræðideildin sem hæstv. menntmrh. mælir með en ekki ljóðskáldin, ekki höfundar skáldsagnanna, ekki aðrir fræðimenn. Ekki þýðendur á erlendum gullaldarbókmenntum. Það er bara gamla frjálshyggjudeildin....
Og mér finnst það miður ef nýr hæstv. menntmrh., sem kannski fyrstur manna í því embætti um langa hríð hefði getað treyst því að ná breiðri samstöðu allra flokka á Alþingi til stuðnings mikilli sókn í menntamálum, skuli svo vera að dunda við það að setja inn á Internetið sérstök meðmæli með útgáfuritum frjálshyggjudeildarinnar í stað þess að vera hér á þingi til að hafa forustu um raunverulegar þjóðfélagsbreytingar í þessum efnum."


Svo mörg voru þessi orð. Ég birti þau einnig hér til að sýna, hve langt menn geta seilst í þingræðum, farið um víðan völl. Eins og menn sjá af þeim er krafa gerð til þess, að menntamálaráðherra láti ekki í ljós neina skoðun, hann má ekki gera neitt, sem unnt er að túlka á þann veg, að hann hafi skoðun á mönnum og málefnum. Þessari skoðun hafna ég eindregið. Ég tel, að stjórnmálamenn séu ekki sviptir skoðanafrelsi sínu, þótt þeir verði ráðherrar. Mér finnst sjónarmiðið í ræðu Ólafs Ragnars ekki aðeins gamaldags heldur út í hött.
Réttindamál

Mikill árangur náðist í hinu vikvæma og flókna starfi, sem nú er unnið vegna tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna, þegar samkomulag náðist um efnis- og formsatriði varðandi réttindamál kennara, en það var endanlega undirritað í verkefnisstjórn vegna flutningsins 1. febrúar 1996.

Kennarar halda sama rétti sem starfsmenn sveitarfélaga og þeir hafa haft sem ríkisstarfsmenn. Um það verður flutt sérstakt lagafrumvarp. Þegar upp er staðið, kann ýmsum að þykja hér um sjálfsagðan og eðlilegan hlut að ræða. Ekkert liggur þó í hlutarins eðli, þegar farið er höndum um viðkvæm mál af þessum toga. Raunar hafa kennarar ætíð talið, að það yrði helsti farartálmi á leiðinni til sveitarfélaganna, að gengið yrði á rétt þeirra. Samkomulag náðist um hið gagnstæða milli kennara og sveitarfélaganna og lagafrumvarpið er ekki annað en staðfesting á því.

Af hálfu ríkisins er því lýst yfir í greinargerð með frumvarpinu, að það breyti engu um þann ásetning ríkisins að breyta starfsmannastefnu sinni. Hugmyndir um breytingar hníga í þá átt að afnema rétt til skipunar í opinber störf og láta ráðningu koma í staðinn. Hvort sveitarfélög og kennarar taka þetta upp í sínum samskiptum er undir þeim aðilum komið en ekki ríkinu, eftir að kennarar hætta að vera ríkisstarfsmenn.

Þótt samkomulag hafi tekist um réttindamálin, er björninn ekki unninn varðandi tilfærsluna. Enn er ósamið um fjármálin. Þar eigast við talsmenn ríkissjóðs og sveitarfélaganna og liggja öll meginatriði málsins þegar fyrir. Vonandi tekst jafnvel hjá þeim og í réttindamálunum, að allsherjarsátt verði að lokum.

Framtíð Háskólans

Stúdentar boðuðu okkur nokkur til pallborðsumræðna um framtíð Háskóla Íslands í hádeginu á föstudag. Þar kom fátt nýtt fram. Svavar Gestsson, fulltrúi Alþýðubandalagsins, er enn fastur í svipuðum sporum og hann var, þegar hann hætti sem menntamálaráðherra 1991 og talar eins og ekkert hafi gerst síðan þá. Vonandi á það ekki fyrir mér að liggja að festast þannig í einhverju fari og komast ekki upp úr því. Á fundinum gafst mér tækifæri til að kynna viðhorf mín til matvælafræðslu við Háskólann á Akureyri. Tel ég hana síður en svo ógna Háskóla Íslands á nokkurn hátt.

Allt tekur breytingum og einnig hugmyndir um menntun. Sjáum umræðurnar í Bretlandi, eftir að menntamálaráðherrann í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins ákvað að senda barn sitt í einkaskóla. Er engu líkara en konan hafi verið að fremja drottinsvik, Tony Blair flokksformaður tekur þó málstað hennar. Hér hamast vinstrisinnaðir stjórnmálamenn enn gegn því eins og um heilagt mál sé að ræða, að nemendur greiði sjálfir nokkurn hluta af kostnaði við starfsemi skóla sinna með skrásetningargjöldum. Ég varð þó ekki var við að málflutningur Svavars Gestssonar í þessa veru hefði mikinn hljómgrunn meðal háskólamannanna á föstudaginn.

Hér á landi gætir þess í málflutningi vinstrisinna eins og erlendis, að þeir telja sjálfa sig geta sent börn sín til dæmis í einkaskóla, þótt þeir telji öllum almenningi fyrir bestu að senda afkvæmi sín í almenna ríkisskóla, þar sem allt á að vera ókeypis. Þessi árátta að þurfa alltaf að hafa vit fyrir öðrum er auðvitað undirstaða forræðishyggjunnar, þar sem ópersónulegt ríkisvald á að létta öllum áhyggjum af okkur. Vandinn er hins vegar sá, að hvergi er að finna þá ótæmandi hít, sem unnt er að ausa úr til að greiða kostnaðinn við þessi “góðverk" á kostnað annarra. Að lokum kemur að því, að skattheimtan fer út fyrir öll sanngirnismörk og setur einstaklingum og fyrirtækjum þær skorður, að kyrkingur verður í atvinnu- og efnahagslífi.

Menntamálaráðherra má oft sitja þögull undir ræðum þeirra, sem bera ábyrgð á opinberum stofnunum og sjá þá leið eina, að auka álögur á aðra til að standa straum af kostnaði við stofnanirnar. Er eins og menn gleymi því á slíkum stundum, að við erum í raun ætíð að tala um byrðar, sem leggjast á okkar eigin herðar og við kveinkum okkur gjarnan undan við önnur tækifæri eða veltum viljandi og óviljandi á herðar afkomenda okkar með lántöku. Þegar rætt er um fjármál og framtíð Háskóla Íslands, má ekki gleyma því, að fjáveitingarvaldið, Alþingi, hefur veitt honum algjöra sérstöðu meðal ríkisstofnana með happdrættisleyfinu. Á Alþingi hefur einnig verið skilningur á því til þessa, að þetta fé sé notað til að byggja hús, kaupa tæki og halda við húsum Háskóla Íslands. Aðrir ríksskólar á háskólastigi sitja ekki við þetta borð, en Verslunarskóli Íslands, sem er einkaskóli, telur sig hafa bolmagn til þess einn og óstuddur að reisa hús yfir háskólastarfsemi sína í Kringlunni.