29.1.1996

Ársafmæli - Uppeldisháskóli - rannsóknarstofnanir HÍ

Í vikunni (23. janúar) var liðið eitt ár, frá því að ég opnaði þessa heimasíðu mína með aðstoð Miðheima. Ég hef ekki nákvæma tölu yfir það, hve margir hafa komið í heimsókn til mín á þessum tólf mánuðum. Að komast að raun um það kostar meiri vinnu og fyrirhöfn en hæfilegt er að leggja á sig af þessu tilefni. Lausleg athugun sýnir hins vegar, að þeir ná líklega 30.000. Finnst okkur Miðheimamönnum talan gefa til kynna, að það sé þess virði að halda samstarfinu áfram enn um sinn.

Nýlega las ég í dönsku blaði, að Finnlandsforseti hefði opnað heimasíðu. Þar var notað sem rök fyrir þessari ákvörðun forsetans, að aðgangur almennings að netinu væri aðeins á Íslandi meiri en í Finnlandi og því ekki að ástæðulausu, sem forsetinn kysi að koma á þessari samskiptaleið við landa sína.

Ég hef áður látið þá skoðun í ljós, að mér finnst lítils virði að hafa heimasíðu, ef ekki er lögð rækt við hana. Í því felst meðal annars að sjá til þess, að efnið úreldist ekki og þar megi finna eitthvað nýtt og jafnvel nýtilegt.


Uppeldisháskóli
Þriðjudaginn 23. janúar fór ég í heimsókn í Kennaraháskóla Íslands. Þar kynnti nefnd, sem unnið hefur að skipulagi skólabyggðar á Rauðarárholti niðurstöður sína fyrir mér. Reykjavíkurborg hefur fyrir sitt leyti samþykkt deiliskipulag, sem sameinar lóðir Stýrimannaskóla og Kennaraháskóla. Í skipulaginu er gerð grein fyrir hugmyndum um nýbyggingar bæði fyrir skólastarf og nemendaíbúðir auk þess sem ætlunin er að reisa einskonar þjónustumiðstöð fyrir svæðið í heild. Nefndin hefur starfað í tæpt ár undir formennsku Þóris Ólafssonar, rektors KHÍ, með þátttöku skólastjóra Sjómannaskólans og Vélskólans.
Er nú unnið að kynningu á þessum skipulagstillögum gagnvart nágrönnum.

Í ráði er að sameina í einum skóla, Uppeldisháskóla Íslands, fjóra skóla: KHÍ, Þroskaþjálfaskólann, Fóstruskólann og Íþróttakennaraskóla Íslands. Framtíðaraðstaða þess skóla yrði á þessu svæði, nema Íþróttakennaraskólans, sem yrði áfram á Laugarvatni.

Samið hefur verið álit um það, hvernig best verði staðið að því að koma Uppeldisháskóla á fót. Um það álit hefur náðst bærileg samstaða. Nú er unnið að því að draga upp mynd af því, hvernig lög um skólann gætu verið. Í því undirbúningsstarfi innan menntamálaráðuneytisins hefur komið í ljós, að skynsamlegt er að líta samtímis til almennrar löggjafar um háskólastigið.

Á það hefur verið bent af forráðamönnum þeirra skóla, sem í hlut eiga, að nauðsynlegt sé að ráðast í að reisa nýtt hús við Kennaraháskólann samhliða því sem ákvörðun er tekin um Uppeldisháskólann.


Kynnisferð í Háskóla Íslands
Að morgni fimmtudagsins 25. janúar fór ég í heimsókn í fimm rannsóknarstofnanir Háskóla Íslands (Líffræðistofnun, Félagsvísindastofnun, Raunvísindastofnun, Sjávarútvegsstofnun og Lyfjafræðistofnun) auk þess var staldrað við í Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins og hlýtt á kynningu á Rannsóknaþjónustu háskólans. Loks hlotnaðist mér sá heiður í ferðinni að verða fyrstur gesta utan Háskólans að opna heimasíðu Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Þegar rætt er um málefni Háskóla Íslands, staldra menn einkum við þá kennslu, sem hann veitir. Það er til hennar, sem stærstur hluti fjármagnsins, sem mælt fyrir um á fjárlögum, rennur. Innan Háskólans er hins vegar stunduð margvísleg önnur starfsemi, sem stendur í sumum tilvikum undir sér af eigin rekstrartekjum eins og Félagsvísindastofnun. Hún minnist 10 ára afmælis síns í ár. Forvígismenn hennar höfðu lagt á borð meginhluta þess, sem stofnunin hefur gefið út á starfsferli sínum, ber það vitni um blómlegt starf. Líffræðistofnun aflar einnig töluverðra tekna og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi. Þar bíða menn að sjálfsögðu með eftirvæntingu eftir að komast í nýtt hús í Vatnsmýrinni. Aðstaðan fyrir lyfjafræðinámið er til mikillar fyrirmyndar í ný-innréttuðu húsnæði í Haga, þar sem áður var verksmiðja Coca Cola. Sjávarútvegsstofnun hefur sérstöðu, því að hún spannar í raun margar deildir og veitir aðstöðu til meistaranáms. Raunvísindastofnun er stærst, þannig að aðeins gafst tækifæri til að fá nasasjón af tveimur verkefnum hennar, annars vegar í stjarneðlisfræði og hins vegar að því er varðar rannsóknir undir jöklum bæði með borunum á Grænlandsjökli og mælingum á Mýrdalsjökli. Við sannfærðumst um að hlýskeiðið núna er undantekning frá reglunni og veðrabrigði geta gerst á skemmri tíma en ætla mætti og fyrir aðrar ástæður en af manna völdum.


Ávörp og helgarvinnan
Síðdegis fimmudaginn las ég upp, hvern Aflvaki, eigandi klassísku stöðvarinnar á 108.6, hefði heiðrað með viðurkenningu fyrir besta hljómsdiskinn 1995, en það var Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir leik sinn á Söfusinfóníu Jóns Leifs. Notaði ég tækifærið til að flytja stutt ávarp og koma á framfæri ábendingum um efnistök stöðvarinnar!
Morguninn eftir flutti ég ræðu við upphafi ráðstefnu, sem skólastjórar tónlistarskóla efndu til um stöðu skóla sinna um þessar mundir. Birtist ræðan væntanlega annars staðar hér á heimasíðunni.

Föstudagskvöldið 26. janúar var opnuð glæsileg sýning á rússneskum íkonum í Listasafni Íslands. Segja má, að sýning þessi komi hingað fyrir útsjónarsemi Listasafnsins, því að ekki er um farandsýningu að ræða, en listasafn í Arkangelsk hafði sett hana upp í Tromsö í Noregi og þaðan kemur hún hingað, ef rétt er skilið hjá mér. Var margt um manninn í Listasafninu um kvöldið. Einnig munu margir Íslendingar hafa komið til tveggja rússeskra sérfræðinga daginn eftir með íkona sína til að fá úr því skorið um hve mikla dýrgripi væri að ræða.

Klukkan 8.45 á laugardagsmorguninn 27. janúar var ég kominn í Perluna til að standa að upphafi á keppni bakara í kökuskreytingarlist. Er það til marks um að allt lífið er maður að læra, að ekki hafði ég fyrr gert mér grein fyrir, hve hér er um mikið og vandasamt starf að ræða og alþjóðlega keppnisgrein, þar sem við Íslendingar eigum áreiðanlega eftir að láta að okkur kveða. Þegar við kvöddum Perluna rétt fyrir 10 voru hinir vösku bakarar komnir að stað við að skreyta kransakökur og annað, sem var á borðum þeirra.

Allt laugardagssíðdegið var ég á fundi sjálfstæðismanna í Reykjavík, fyrst aðalfundi Fulltrúaráðsins og síðan ráðstefnu um fíkniefnavandann, þar sem ég var meðal ræðumanna og birtist ræðan annars staðar hér á heimasíðunni.

Laugardagskvöldið var síðan frumsýning í Borgarleikhúsinu á verki Hlínar Agnarsdóttur, Konur skelfa, sem gerist á kvennklósetti á skemmtistað. Gerðu frumsýningargestir góðan róm að því.