17.1.1996

Afsagnir - áróðursfréttir ofl.

Sú saga er sögð af föður mínum, þegar hann var dómsmálaráðherra fyrir rúmlega 40 árum, að til hans hafi komi sýslumaður. Hann hafi borið sig illa, líklega undan einhverju, sem ráðherrann hafði ákveðið, og sagt, að færi svo fram sæi hann sér ekki annan kost en segja af sér. Þá hafi ráðherrann ýtt á hnapp við skrifborð sitt og inn gengið ritari. Við hann hafi ráðherrann sagt: Hér er sýslumaður, sem hefur sagt af sér, vinsamlega ganga frá lausnarbréfi.

Þessi saga var rifjuð upp við mig á dögunum, þegar fréttir bárust um það, að formaður skólanefndar Menntaskólans við Sund og skólastjóri Vesturhlíðarskóla, skóla heyrnarlausra, hefðu sagt af sér. Hinn fyrrnefndi, vegna þess að ég fór ekki að tillögu hans um ráðningu skólameistara við MS og hinn síðarnefndi vegna ráðagerða um notkun á húsi, sem er í þeirri þyrpingu, sem myndar Vesturhlíðarskóla.

Fréttin um skólanefndarformanninn kom í fjölmiðlum, eftir að bréf hans til borgarráðs varð opinbert í fundargerð þess. Heyrði ég hana fyrst á leið í Sundhöllina klukkan sjö einn morguninn. Formlegt erindi um brotthvarf skólanefndarformannsins hefur aldrei borist mér, en hann er fulltrúi borgarstjórnar í skólanefndinni. Telur hann það til marks um geðþótta, að ég hafi ekki farið að tillögu skólanefndar, sem hafi vandað sig í allri meðferð málsins. Ekki dreg ég það í efa og lýsti því raunar í tveimur símtölum við skólanefndarformanninn, eftir að ég tók ákvörðun mína. Lögum samkvæmt er skipunarvaldið hins vegar í höndum ráðherra og er næsta undarlegt, ef það er kennt við geðþótta, þegar hann beitir því. Fer ekki á milli mála, að sá, sem ég valdi, er vel hæfur til að gegna starfinu og nýtur auk þess meiri stuðnings kennara en sá, sem fékk flest atkvæði í skólanefnd. Ef menn ætla að nota orðið "geðþótti" í þessu samhengi finnst mér nær að nota það um þá ákvörðun að segja af sér í þessu tilviki en hitt að komast að niðurstöðu og velja einn af hæfum umsækjendum um starf. Skóalnefndarmenn hljóta að gera sér ljóst, að þeir hafa ekki annað en tillöguvald að því er skólameistara varðar.

Skömmu fyrir lok maí barst mér tölvupóstur frá skólastjóranum í Vesturhlíðarskóla, þar sem hann boðaði, að hann hefði í hyggju að segja af sér frá og með 1. júní vegna þess, að embættismenn menntamálaráðuneytisins hefðu heimilað skólastjóra Öskjuhlíðarskóla, sem er í næsta nágrenni Vesturhlíðaskóla, að skoða húsnæði í Vesturhlíðarþyrpingunni, sem var að losna vegna brottflutnings Samskipatmiðstöðvar heyrnarlausra. Eftir þá skoðunarferð var ljóst, að þetta húsnæði gæti bætt úr brýnni þörf Öskjuhlíðarskóla en sem betur fer hefur heyrnarlausum frekar fækkað undanfarin ár, þótt þeir telji auðvitað eins og eðlilegt er, að þeir geti haft full not af öllu lausu húsnæði, í þessu tilviki vilja þeir fá aðstöðu fyrir gerð myndbanda. Taldi skólastjórinn í Vesturhlíð sér svo freklega misboðið, að hann yrði að segja af sér. Ég hafði áður gert honum grein fyrir því, að ég teldi, að um skynsamlega ráðstöfun á opinberu húsnæði væri að ræða, ef Öskjuhlíðarskóli gæti nýtt umrætt hús og ekki þyrfti að koma til árekstra við heyrnarlausa eða brjóta upp samfélag þeirra. Við tölvutilkynningunni um væntanlega uppsögn brast ég á þann veg að þakka skólastjóranum góð kynni og óska honum velfarnaðar í nýju starfi, sjálfur hefði ég skipt um starf oftar en einu sinni á lífsleiðinni, slíkt væri í senn tregablandið og spennandi. Segi ég frá þessu hér, því að ég heyrði skólastjórann vitna í þessi tölvusamskipti okkar í útvarpsviðtali á Rás 2. Var það viðtal tekið við hann, eftir að hann hafði sent öllum fjölmiðlum tilkynningu um afsögn sína og rakið hana til þess, að embættismenn í menntamálaráðuneytinu sýndu sér og heyrnarlausum "lítilsvirðingu".

Áður en þessi sérkennilega fréttatilkynning skólastjórans fór á fjölmiðla (mér barst hún í faxi frá einum blaðamannanna, sem leituðu til mín eins og ákærendur í nafni skólastjórans vegna lítilsvirðingar gagnvart honum), hafði ég með formlegum hætti staðfest uppsögn hans. Eftir 1. júní er mannahald í grunnskólum úr höndum menntamálaráðuneytisins og kemur því í hlut sveitarstjórnar, líklega Reykjavíkur, að ráða nýjan skólastjóra. Eftir 1. ágúst fara bæði Vesturhlíðarskóli og Öskjuhlíðarskóli frá menntamálaráðuneytinu til sveitarfélaga. Það er því ekki í höndum ráðuneytisins að ráða húsamálum skólanna til lykta. Þeim mun sérkennilegra er að segja upp störfum á þeirri forsendu, að ekki sé unnt að starfa með menntamálaráðuneytinu, nokkrum vikum áður en ráðuneytið sleppir höndum af skólanum.

Er ég þá kominn að þeim punkti, hve auðvelt er í raun að stýra því, hvernig fjölmiðlar taka á málum. Send er fréttatilkynning um eigin afsögn á alla fjölmiðla með dylgjum í garð ráðuneytis og hún er gagnrýnislaust lögð til grundvallar í allri fréttalegri meðferð. Fjölmiðlar spyrja ekki: Hvernig getur það verið að maður segi af sér út af menntamálaráðuneytinu, sem er að láta af stjórn málefna mannsins? Ekki er farið á staðinn til að kynna sér aðstæður og átta sig á því, hvort umrædd ráðstöfun á húsi til Öskjuhlíðarskóla sé í raun innrás í friðheilagt samfélag heyrnarlausra. Ekki er leitað til annarra fagmanna en skólastjórans, sem segir upp. Ekki er talað við skólastjóra Öskjuhlíðarskóla til að fá viðhorf þaðan.

Nei, ekkert af þessu er gert. Fréttatilkynningin er lögð til grundvallar, einhliða áróðursskjal annars málsaðila, og síðan leitast við að stilla hinum upp við vegg sem einskonar sökudólgi fyrir að "lítilsvirða" skólastjóra, skóla og heyrnarlausa. Á Rás 2, þar sem skólastjórinn var dagskrárgerðarmaður um skeið, er birt viðtal við hann. Daginn eftir er hringt í ráðherrann og tekið við hann viðtal, sem vonandi var sent út í heild, ég hlustaði ekki, sama kvöld kemur smáglefsa úr því í fréttatíma hljóðvarps RÚV, sem mér fannst ekki gefa rétta mynd af viðhorfi mínu, eftir það tekur fréttastofan (Kristrún Heimisdóttir) annað viðtal við skólastjórann. Var það gert til að tryggja, að hann ætti síðasta orðið? Hvers vegna hringdi fréttastofan ekki í ráðherrann, úr því að hringt var í skólstjórann í stað þess að birta glefsu úr Rásar 2 samtali við hann?

Nefni ég annað dæmi frá hljóðvarpi RÚV en fréttastofa þess nýtur mesta traustsins, ef marka má kannanir. Í hádegi 16. júní (síðan var það líklega endurtekið í öllum fréttatímum hljóðvarps RÚV þann dag eins og stórfrétt, að minnska kosti heyrði ég þetta aftur í fréttum kl. 22.00) flutti Þórólfur Jónsson fréttamaður pistil í fréttatíma, sem kynntur var með þeim hætti, að á Alþingi væri meiri hluti fyrir því, að breyta lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á þann veg, að upp yrðu teknar svokallaðar samtímagreiðslur og endurgreiðslur lækkaðar. Lagði ég við hlustir, því að ég vissi, að ekkert sérstakt var að frétta af þessu máli þennan dag, því að nefnd, sem ég skipaði til að fjalla um málið, hefur ekki lokið störfum. Formaður nefndarinnar staðfesti þetta í samtali við fréttastofuna en Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins og einn nefndarmanna, sagði, að frumvarp um breytingar á lögum LÍN yrði lagt fram næsta haust. Ekki var þess getið í fréttinni, að í kringum stúdentaráðskosningarnar í vetur sagði Hjálmar, að frumvarp um LÍN yrði lagt fram á nýloknu vorþingi. Þess var ekki heldur getið, að fyrir nýloknu þingi lá tillaga frá Alþýðubandalaginu um samtímagreiðslur, sem stundum var á dagskrá en flutningsmenn knúðu aldrei á um umræður. Látið var undir höfuð leggjast að geta þess, að ýmsir forystumenn stúdenta hafa sett fram þá skoðun opinberlega, að krafan um samtímagreiðslur sé ekki lengur sama forgangsmál og áður. Þá var þess ekki getið, sem vissulega er fréttnæmt, að meiri samstaða er nú innan LÍN en oftast áður eftir hörð átakaár. Hefur við nýsettar úthlutunarreglur verið tekið á ýmsum viðkvæmum málum, sem valdið hafa deilum, náðist samstaða um niðurstöðuna. Loks var að sjálfsögðu látið undir höfuð leggjast að skýra hlustendum frá því, að samtímagreiðslukerfið aflagða reyndis eyðslukerfi, sem var að setja LÍN á hausinn. Auðvitað var ekki gerð nein tilraun til að ná sambandi við mig vegna þessa máls, það hefði líklega komið í veg fyrir, að unnt yrði að segja frá því með þeim formerkjum, sem valin voru af fréttastofunni. "Fréttin" var ekki annað en áróður og klykkt út með því, að meiri hluti væri á Alþingi fyrir samstímagreiðslum nema framsóknarmenn yrðu beygðir af sjálfstæðismönnum, þeir væru hinir einu andstæðingar samtímagreiðslnanna. "Fréttin" þannig að hluta sami söngurinn og stjórnarandstaðan hefur sungið undanfarna mánuði., þegar hún hefur viljað gera framsókn lífið leitt.

17. júní hitti ég fleiri en einn og fleiri en tvo, sem botnuðu ekkert í þessari "frétt" hljóðvarps RÚV og töldu raunar, að einhverjir baráttumenn stúdenta væru við sumarafleysingar á fréttastofunni og nýttu sér hinn opinbera miðil til áróðurs.

Míns skoðun er sú og hana hef ég óhikað látið í ljós, að það sé með öllu ástæðulaust að taka að nýju upp gamla eyðslu- og óráðsíukerfið í LÍN eins og ég kalla samtímagreiðslukerfið - hafi menn efni á slíkum fjáraustri, væri þá nær að nýta fjármunina betur í þágu menntunar, rannsókna og vísinda.