12.1.1996

Jerúsalem - Kaupmannahöfn - París - Kaupmannahöfn

Undanfarna daga hef ég verið á ferðalagi til þriggja landa. Vildi svo til, að erindi féllu saman í Jerúsalem, Kaupmannahöfn og París á þann veg, að unnt var að nota sömu ferðina héðan til að sinna þeim öllum á 11 dögum. Við heimkomuna sannaðist það, sem fylgdarmaður okkar í Ísrael sagði. Hann er yfirmaður sálfræðideildar ísraelska menntamálaráðuneytisins og tók að sér eins og háttsettir starfsbræður hans í ráðuneytinu að vera fylgdarmaður erlendra ráðherra á ráðstefnunni. Þegar við kvöddumst eftir fjögurra daga samfylgd, sagðist hann þurfa jafnmarga daga til að koma vinnuferli sínu í ráðuneytinu í samt lag aftur. Málum væri nefnilega þannig háttað með okkur embættismenn í stjórnunarstörfum, að það hlypi enginn í skarðið fyrir okkur. Skjalabunkarnir biðu okkar á skrifborðinu, þegar við kæmum aftur. Ég þarf þó ekki 11 daga til að vinna það upp, sem beið við heimkomuna.


Jerúsalem
Í Jerúsalem var boðað til ráðstefnu um kennslu í vísindum og tækni 8. til 11. janúar. Ríkisstjórn Ísraels undir forystu Amnons Rubinsteins, lagaprófessors og menntamálaráðherra, bauð til fundarins í samvinnu við UNESCO. Hana sóttu gestir frá 84 löndum þar af ráðherrar frá 27. Eru Ísraelar miklir og góðir gestgjafar og liggja ekki á liði sínu við að kynna sögu sína og menningu.
Hér ætla ég ekki að fjalla um það, sem gerðist á ráðstefnunni, en í stuttu máli var mjög fróðlegt að taka þátt í umræðum ráðherranna vegna þess hve aðstæður eru ólíkar í löndum þeirra. Voru góðir fyrirlesarar kallaðir á vettvang til að hefja umræðurnar. Fer ekki á milli mála, að Ísraelar standa mjög framarlega í menntamálum. Þeir hafa tekið pólitíska ákvörðun um að fjárframlög til þeirra mála séu besta fjárfestingin til að tyggja vöxt og viðgang þjóðarinnar. Ef til vill þurfa þjóðir að vera án lítilla náttúruauðlinda til að skilja til hlítar, hve langt er unnt að ná með hugvitinu.

Rubinstein ráðherra kom hingað til lands á alþjóðaþing frjálslyndra flokka í september 1994 og hafði mörg orð um það, hve hann og kona hans hefðu hrifist af landinu. Shimon Peres forsætisráðherra flutti ræðu í hátíðarkvöldverði, sem allir 1000 þátttakendur í ráðstefnunni sátu. Þegar ég skiptist á nokkrum orðum við hann, minntist hann einnig með hlýju komu sinnar til Íslands í boði Davíðs Oddssonar. Ræða Peres er mjög eftirminnileg. Hann flutti hana blaðalaust og ræddi af innsæi um menntamál og gildi menntunar í samskiptum þjóða og fyrir hvern og einn.

Umfang öryggisgæslu kringum Peres og Weizmann, forseta Ísraels, er gífurlegt. Hefur það að sjálfsögðu margfaldast eftir morðið á Rabin. Sögðu gestgjafar úr ísraelska menntamálaráðuneytinu, að það kostaði svo mikið umstang að fá forsætisráðherrann sem ræðumann, að fljótlega myndi enginn líklega treysta sér til þess að fara fram á það.

Okkur var sagt, að háspenna ríkti í Ísrael þessa daga, sem við dvöldumst þar vegna fyrirhugaðra kosninga hjá Palestínumönnum og einnig morðsins á höfuðpaurnum í sjálfsmorðs-hryðjuverkasveitum Hamas-skæruliða. Morðið á honum var tæknilega meira "afrek" en framleiðendum James Bond mynda hefur til hugar komið til þessa. Hryðjuverkaforingjanum var gefinn GSM-sími, sem geymdi sprengjuhleðslu. Eftir að hann hafði hætt að hræðast tólið, var almenna símakerfið á Gaza tekið úr sambandi, svo að hann neyddist til að nota GSM-símann. Þegar hann gerði það var sprengjan gerð virk úr þyrlu. Sagt er, að ísraelska leyniþjónustan eða öryggislögreglan hafi viljað sýna þessa getu sína eftir skuggann, sem féll á hana eftir morðið á Rabin. Yfirmaður öryggislögreglunnar sagði af sér, á meðan við dvöldumst þarna.

Ég nefni þetta hér, því að þessi óhugnanlegi atburður setti svip sinn á gæsluna umhverfis okkur, sem vorum í Jerúsalem þessa daga. Eftir tveggja daga fundahöld, var okkur boðið að heimsækja skóla og kynnast starfi þeirra, síðasta daginn var síðan farið í skipulega skoðunarferð til Galelíu-vatns. Þar sáum við staðinn, þar sem talið er, að Jesú hafi flutt fjallræðuna og einnig þar sem hann mettaði mannfjöldann með fáeinum brauðum og fiskum. Loks fórum við að þeim stað, þar sem áin Jórdan rennur úr vatninu, en þar getur fólk látið skírast með niðurdýfingu. Allt var þetta áhrifaríkt og eftirminnilegt. Vatnið er nokkur hundruð metra undir sjávarmáli og fjallið, þar sem ræðan var flutt, nær ekki yfir sjávarmál. Við komumst ekki að Dauðahafinu vegna tímaskorts og ekki heldur til Nazaret. Ætlunin var að aka í gegnum Jeríkó, sem er á leiðinni frá Jerúsalem til vatnsins, í um 25 mínútna fjarlægð frá Jerúsalem. Rútunni var hins vegar bannað að aka inn í Jeríkó vegna spennu, en borgin lýtur nú stjórn Palestínumanna samkvæmt îsólarsamkomulaginu.

Við áttum þess kost að fara í skipulagða ferð um gamla borgarhlutann í Jerúsalem þennan síðasta dag en kusum heldur að fara til vatnsins. Þeir, sem fóru um borgarhlutann, voru undir vernd hóps af vopnuðum hermönnum. Ísraelsku gestgjafarnir töldu ógjörlegt að við færum til Betlehem vegna spennunnar, þeir skipulögðu alls engar ferðir þangað.

Okkur þótti ferðin til Ísraels missa marks, ef við gætum ekki skoðað gamla borgarhlutann í Jerúsalem og Betlehem. Við ákváðum því að sleppa hádegisverði einn fundardaginn. Rut hafði samið við leigubílstjóra, um að hann æki okkur til Betlehem fyrir 50 dollara. Gekk það allt eftir. Ferðin frá Jerúsalem tekur um 20 mínútur, þegar komið var til Betlehem skiptum við um bíl og ókum síðasta spölinn að Fæðingarkirkjunni undir leiðsögn Palestínumanns, sem einnig sýndi okkur kirkjuna eða réttara sagt kirkjunnar, því að þarna hafa Armenar, Orþodoxar og kalþóskir sambyggðar kirkjur eða bænahús. Frá Betlehem fórum við beint í gamla borgarhluta Jerúsalem og gengum um hann, fórum eftir Via Dolorosa að Golgata, þar sem reist hefur verið kirkja. Skoðuðum við allt, sem þar var að sjá á þeim stutta tíma, sem við höfðum. Auk þess fórum við að Grátmúrnum og hlýddum á gyðinga lýsa harmi sínum, gráta, yfir því að musteri þeirra er horfið, en múrinn er við Musterishæðina. Þar stóð musterið, sem var eyðilagt 70 eftir Krist.

Á sama tíma og við vorum í Ísrael var þar hópur íslenskra laganema á ferð undir forystu Stefáns Más Stefánssonar prófessors. Hafði ég tækifæri til að hitta þann hóp í stutta stund. Létu þau mjög vel af móttökunum.


Kaupmannahöfn
Í Kaupmannahöfn var formlega hafist handa við menningarstarf undir merkjum menningarborgar Evrópu 1996 föstudaginn 12. janúar. Jytte Hilden menningarmálaráðherra hafði boðið menningarmálaráðherrum í Evrópu til að taka þátt í upphafi hátíðarinnar. Sátum við einmitt til borðs með henni, Henrik Danaprins, forsætisráðherrafrú Dana, menningarmálaráðherra Tékklands og fleir gestum í kvöldverði í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn þetta föstudagskvöld, þar sem Margrét Danadrottning lýsti formlega yfir því, að menningarárið væri hafið í Kaupmannahöfn.
Daginn eftir var okkur boðið að skoða nýtt safnhús fyrir nútímalist, sem er að rísa í Ishöj, skammt fyrir sunnan Kaupmannahöfn. Er ætlunin að opna safnið í mars nk. Síðan var farið með okkur gamlan kastala í Vallö, skammt frá bænum Koge. Kastalinn er frá því á 15. öld og var í eigu aðalsmanna til 1708, þegar Danakonungur keypti hann. Síðan 1737 hefur kastalinn hýst ógiftar hefðarkonur, 10 hverju sinni, sem helga líf sitt góðgerðarstarfi. Við kastalann er krá, þar sem snæddur var danskur frokost. Síðan var haldið til Hróarskeldu, þar sem við skoðuðum víkingasafn. Um kvöldið var síðan hátíðarsýning í Konunglega leikhúsinu á óperunni Hamlet. Þar byggir franska tónskáldið Ambroise Thomas á verki Shakespeares. Hlutverk Hamlets er í höndum danska söngvarans Bo Boje Skovhus.

Dagskráin, sem Danir buðu okkur gestum sínum, var þannig mjög glæsileg og vel heppnuð. îperuferðin verður ekki síst eftirminnileg.


París
Í París var menntamálaráðherrafundir á vegum OECD 16. og 17. janúar. Umræðuefnið var símenntun, sem nú er alls staðar til umræðu. Ljóst er, að þeir, sem ekki eru til þess búnir að tileinka sér nýjungar og læra ætíð eitthvað nýtt, eiga á hættu að dragast aftur úr og einangrast. Leyfi ég mér í því sambandi að benda á erindi, sem ég flutti hjá lögfræðingum á aðventunni og birt er undir Ræðum menntamálaráðherra, en þar lýsi ég því, hvernig ég varð að tileinka mér tölvutæknina, þegar ég hóf störf á Morgunblaðinu. Hefði ég ekki aflað mér þessarar þekkingar, væri ég verr staddur á nútímavinnumarkaði.

Kaupmannahöfn
Að morgni 18. janúar hittust menntamálaráðherrar Norðurlandanna í Kaupmannahöfn og ræddu tvö málefni:
Í fyrsta lagi skýrsluna um "Nordisk Nytte", það er úttekt á nytsemd norrænna stofnana. Skýrsla um það efni hefur verið samin í því skyni að leita leiða til sparnaðar. Eins og við er að búast snúast talsmenn þessara stofnana til varnar. Ráðherrarnir komust að sameiginlegri niðurstöðu um álit á skýrslunni. Er málið nú í höndum samstarfsráðherra Norðurlanda og er stefnt að því að ljúka málsmeðferðinni í byrjun mars.

Í öðru lagi reglur um greiðslu kostnaðar við háskólanám norrænna námsmanna í öðru Norðurlandi. Þar er málum þannig háttað, að Danir og Svíar taka við námsmönnum frá Noregi, Finnlandi og Íslandi. Hefur í nokkur ár verið deilt um það, hvort ekki skuli greiddur kostnaður móttökuríkis vegna þessara námsmanna af heimaríki þeirra. Fyrir nokkrum árum var ákveðið, að Íslandi yrði haldið utan við þennan ágreining, það er að ekki kæmi til greiðsluskyldu íslenskra stjórnvalda vegna íslenskra námsmanna annars staðar á Norðurlöndunum en hér. Norðmenn og Finnar hafa samþykkt að inna greiðslur af hendi. Á hinn bóginn hefur ekki náðst samkomulag um það, hvernig að greiðslum skuli staðið. Á fundinum í Kaupmannahöfn náðist ekki samkomulag um þetta viðkvæma mál.

*

Hér ætla ég ekki að hafa þessa ferðasögu lengri. Mér þótti hins vegar við hæfi að gera gestum á heimasíðu mína grein fyrir þessum þætti í störfum ráðherra. Menntamálaráðherra á Íslandi hefur óteljandi tilefni til að vera á ferðalögum erlendis. Minnumst þess, að hann er í raun með fimm hatta: menntamálaráðherra, menningarmálaráðherra, rannsókna- og vísindamálaráðherra, íþróttamálaráðherra og æskulýðsmálaráðherra. Undir þessum merkjum er efnt til alþjóðafunda og móta. Er til þess ætlast, að menn sýni sig á slíkum mótum, ef kostur er.

Til hins er að líta, sem í upphafi sagði, að heimaverkefnin hverfa ekki, á meðan menn eru að ferðast í útlöndum. Menn kunna hins vegar að taka þau öðrum tökum eftir að hafa kynnst viðhorfum annarra þjóða, því að einnig með þessum hætti er stuðlað að símenntun. Þá má ekki gleyma því, að við stjórnmálamenn sitjum undir gagnrýni vegna ferðalaga, einkum til útlanda. Er því jafnan slegið fram, þegar rætt er um þröngan fjárhag ríkissjóðs, að mönnum væri nær að spara við sig ferðalögin og draga úr risnu en þrengja að einhverju, sem talið er meira virði.