1.1.1996

Annir við áramót

Gleðilegt nýtt ár!

Ég settist við skriftir á milli mála á nýársdag, ef svo má að orði komast. Í morgun fórum við Rut í Dómkirkjuna og vorum við messu, þar sem herra Ólafur Skúlason biskup flutti nýarsprédikun. Var þetta í 200. sinn, sem prédikað er í Dómkirkjunni á nýársdag. Eftir hádegið var síðan móttaka hjá frú Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands, á Bessastöðum.

Allt frá því að Sveinn Björnsson var forseti hefur tíðkast, að til Bessastaða er boðið á nýársdag ríkisstjórn, Hæstarétti, forseta Alþingis, sendiherrum og ræðismönnum erlendra ríkja og íslenskum sendiherrum auk embættismanna og fulltrúa félagasamtaka. Hefst móttakan kl. 14.30 og stendur langt fram eftir degi, því að auk þeirra, sem fyrst voru nefndir og eru í fyrsta gestahópnum koma margir fleiri til Bessastaða þennan dag til að flytja forseta nýársóskir. Var þetta 16. og síðasta móttaka frú Vigdísar.

Með þessari móttöku á Bessastöðum má segja, að ljúki opinberum skylduverkum, sem tengjast áramótunum. Á gamlársdag fer ríkisstjórn til ríkisráðsfundar kl. 11.00 f.h. á Bessastöðum, en ríkisráð er myndað af forseta Íslands og ríkisstjórn. Var á gamlársdag 1995 haldinn 364. fundur ríkisráðsins. Eftir hádegi þennan dag eða kl. 14.00 er venja, að menntamálaráðherra taki þátt í athöfn, þegar úthlutað er styrkjum úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins, og var nú úthlutað úr honum í 40. sinn. Fögnuðum við Rut að þessu sinni með þeim Þóru Jónsdóttur og Gyrði Elíassyni, sem hlutu styrki úr sjóðnum að þessu sinni, 400 þús. kr. hvort.

Laugardaginn 30. desember tókum við Rut þátt í því að minnast 50 ára afmælis Tónskáldafélags Íslands, sem efndi til mótttöku í Sigurjónssafni. Föstudaginn 29. desember vorum við viðstödd, þegar Guðmundur E. Sigvaldason fékk verðlaun úr sjóði Ásu Wright. Fimmtudagskvöldið 28. desember vorum við á frumsýningu í Borgarleikhúsinu á Mafíunni. Fyrr þann sama dag var ég viðstaddur, þegar veittar voru viðurkenningar úr Menningarsjóði VISA. Þriðjudagskvöldið 26. desember vorum við á frumsýningu á Don Juan í Þjóðleikhúsinu.

Eins og af þessu má sjá er betra að hafa tímaskipulagið í góðu lagi milli hátíðanna og um þær ekki síður en endranær, til að unnt sé að sinna jafnt því, sem nefnt hefur verið og öðrum opinberum skylduverkum eða einkamálum sínum.

Hér ætla ég að sleppa því að leggja dóm á leikritin, svo að ekki sé minnst á áramótaskaupið. Um skaupið get ég þó ekki stillt mig að segja, að það var græskulaust og annar og skaplegri blær yfir því en fyrir ári, þegar einstaklingar voru beinlínis lagðir í einelti. Hitt er ljóst, að hið sama á við um skaupið og leikritin, að smekkurinn er misjafn og sumum finnst eitthvað fyndið, sem öðrum þykir ömurlegt.