26.12.1995

Lamið á þingmönnum vegna fjárlaga

Síðustu sólarhringar á jólaföstu snúast um fjálagaákvarðanir hjá alþingismönnum. Þá eru til lokaafagreiðslu á Alþingi frumvörp, sem hafa verið á döfinni allt haustþingið og snerta alla starfsemi ríkisins með einum eða öðrum hætti, því að í þeim er ákveðið, hve miklir fjármunir verða til hennar á komandi ári.

Það fór ekki framhjá neinum, sem fylgdist með þessum umræðum undanfarnar vikur, að læknar töldu sérstaklega að sér vegið vegna krafna um sparnað í rekstri sjúkrahúsa. Í byrjun síðustu viku fyrir jól fóru síðan háskólamenn af stað og gerðu skyndisókn í því skyni að fá auknar fjárveitingar til Háskóla Íslands. Var dregin upp heldur dökk mynd af stöðu Háskólans og gefið til kynna, að hann kæmist í þrot yrðu fjárveitingar til hans ekki auknar um 70 milljónir króna milli annarrar og þriðju umræðu fjárlaga. Nokkrir úr Stúdentaráði Háskóla Íslands stilltu sér upp fyrir fram Alþingishúsið eftir hádegi miðvikudaginn 20. desember og afhentu þingmönnum kubbakassa, sem á stóð: Háskóli í molum eða eitthvað slíkt, áttu menn að raða kubbunum saman. Haft var samband við ritstjóra blaðanna. Morgunblaðið birti forystugrein og hvatti til aukinna útgjalda til Háskólans, þótt nokkrum dögum síðar birtist önnur forystugrein í sama blaði, þar sem því var fagnað, að ríkissjóðshallinn yrði samkvæmt fjárlögum undir 4 milljörðum 1996. Helgarpósturinn birti einnig leiðara, þar sem hvatt var til aukinna útgjalda til Háskóla Íslands.

Ég veit ekki, hvort læknar eða kröfugerðarmenn í Háskóla Íslands séu þannig skapi farnir, að þeir bregðist við skömmum eða árásum fyrir að þeir standi ekki við orð sín eða skilji almennt ekki hvað til síns friðar heyri, með því að kúvenda og ganga þvert á það, sem þeir hafa áður sett sér sem markmið. Á hinn bóginn finnst mér andrúmsloftið meðal þingmanna ekki þannig, að þeir láti undan hótunum eða skömmum, sem stundum byggjast á ákúrum um það, að þeir kæri sig kollótta um mannslíf eða almenna velferð meðborgara sinna. Tal um að Háskóli Íslands sé að komast í greiðsluþrot eða hann sé annars flokks skóli í molum hefur ekki heldur þau áhrif á þingmenn, að þeir rjúki upp til handa og fóta og breyti fyrri tillögum eða ákvörðunum.

Raunar finnst mér það umhugsunarefni, að þeir, sem mest eru menntaðir í þjóðfélaginu, læknar og aðrir háskólaborgarar, skuli telja það bestu baráttuaðferðina til að fá skilning á sjónarmiðum sínum að lemja á stjórnmálamönnum og gera almennt lítið úr orðum þeirra og gjörðum. Gagnvart mér hefur slíkur bægslagangur öfug áhrif og hið sama held ég, að segja megi um marga fleiri, sem standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um fjármál ríkisins. Væri farin sú leið, að horfast ekki í augu við erfiðleika vegna niðurskurðar, yrði einfaldlega gengið til þess verks að hækka skatta. Þegar forráðamenn opinberra stofnana, sem ekki starfa innan ramma fjárlaga, taka ekki á vandanum með niðurskurði heldur krefjast aukinna fjárveitinga, eru þeir að biðja um aukin útgjöld almennings vegna stofnana sinna, það er hækkun skatta, eða um aukinn halla á ríkissjóði, sem leiðir til vandræða í hagkerfinu öllu.

Þeir, sem líta á fjárlög ársins 1996, geta ekki með rökum sagt, að þar sé gengið gegn hagsmunum þeirra, sem starfa á sviði mennta- eða menningarmála. Auðvitað geta menn óskað sér meira fjármagns en þeir verða að taka tillit til heildarmyndarinnar og almennra markmiða í fjármálum ríkisins.

Fjárlaganefnd Alþingis tók á ýmsum málum í mennta- og menningarmálum, sem sættu gagnrýni, eftir að fjárlagafrumvarpið sá dagsins ljós hinn 1. október síðastliðinn. Þannig var hækkuð fjárveiting til Kvikmyndasjóðs og verður hún hin sama á næsta ári og í ár. Þá var fjárveiting til Listskreytingarsjóðs tvöfölduð, þannig að hún verður 8 mkr. á næsta ári í stað 4 mkr. í ár. Loks hækkuðu framlög til Háskóla Íslands um 15 mkr. í meðferð Alþingis. Hef ég þó ekki orðið var við, að fjölmiðlar hafi sérstaklega skýrt frá þessum breytingum á frumvarpinu í meðferð Alþingis.

Það hefur verið lærdómsríkt að ganga í gegnum gerð fjárlagafrumvarps og meðferð þess á Alþingi, kynnast í senn viðbrögðum innan þings og utan. Nýtist sú reynsla vafalaust á næsta ári, þegar að nýju verður tekist á við þetta meginverkefni. Er ljóst, að margir telja störf sín ekki metin að verðleikum nema þess sjáist merki í fjárlögum. Í þessu efni gildir hins vegar áreiðanlega hið sama og við mat á launagreiðslum, að annars konar viðurkenning en hin fjárhagslega vegur jafnvel meira að lokum, þegar að því er hugað, hvað knýr menn helst til dáða og gerir þá glaða og ánægða.


--------
Jólahelgin hefur verið friðsöm hjá mér og mínum. Jólakveðjur og góðar gjafir hafa borist úr mörgum áttum, meðal annars á tölvupósti. Yfir hátíðardagana hefur mér hefur tekist að komast áfram með verkefni utan embættisstarfa, sem setið hefur á hakanum. Nú taka við alls kyns hátíðarhöld og skyldur, sem fylgja jólum eða eru hluti af áramótauppgjöri. Fæ ég þar efni í næsta vikulega pistil fyrir ykkur, góða gesti á heimasíðu minni, flyt ég ykkur öllum bestu óskir um gleðileg jól!