10.12.1995

Heiður þeim sem ber

Lesendur Helgarpóstsins, sem kom út 7. desember, geta lesið lof um þessa síðu eftir Stefán Hagalín, sem nú er orðinn ritstjóri blaðsins. Um leið og það er þakkað, verð ég að láta þá skoðun í ljós, að mér kemur á óvart, hve mikla athygli þetta framtak vekur. Virðist það fremur fara vaxandi en hitt og á líklega rætur að rekja til þess, að sífellt fleiri átta sig á gildi netsins.

Ég vil, að gestir á heimasíðu mína viti, að án aðstoðar og frumkvæðis Miðheimamanna hefði ég aldrei ráðist í þetta fyrirtæki. Það var Arnþór Jónsson, framkvæmdastjóri Miðheima, sem vakti máls á því við mig í janúar síðastliðnum, hvort ég vildi ekki koma mér upp síðu. Hún er hönnuð af Gunnari Grímssyni hjá Miðheimum og það er verk hans og annarra Miðheimamanna, hve vel hefur tekist. Hinn 23. janúar 1995 tilkynnti Gunnar mér, að hann hefði sett fyrstu greinina upp og síðan þróaðist þetta stig af stigi. Það segir sína sögu um tæknina, að ég hef aldrei heimsótt þá Miðheimamenn, eftir að þetta samstarf hófst, heldur höfum við aðeins haft samskipti í tölvupósti og allt gengið eins og í sögu.

Var ég minntur á þessi upphafsskref föstudaginn 8. desember, þegar þau komu í heimsókn til mín í ráðuneytið Lára Stefánsdóttir, Lars H. Andersen og Odd de Presno, en hann er frá Noregi. Þau eru þrjú höfundar nýrrar bókar, Netheimar, sem fjallar um tölvusamskipti. Voru þau svo vinsamleg að gefa mér fyrsta eintakið af bókinni og árita það. Er ljóst, að í henni er að finna miklar og mikilvægar upplýsingar um netið. Í formála kemur fram, að kaupendur bókarinnar fá ókeypis aðgang að öllum texta hennar á ensku á Veraldarvefnum, en þaðan er einstaklega þægilegt að tengjast mörgum þeirra þjónustuveitna, sem sagt er frá í bókinni.

Ég minnist þess, að hinn 9. apríl síðastliðinn, daginn eftir þingkosningarnar, sendi Lára mér tölvubréf vegna vinnu hennar við bókina. Vitnar hún til þessara bréfaskipta í bókinni. Þegar ég fletti bókinni, blasir við hafsjór af upplýsingum, sem áhugamenn um netheima hljóta að fagna.

Mánudaginn 4. desember sótti ég tvo ráðherrafundi í Kaupmannahöfn, annars vegar með norrænum menningarmálaráðherrum og hins vegar menntamálaráðherrum. Enginn tími gafst til annars en fundarsetu, því að ég kom til Kaupmannahafnar á sunnudagskvöld og fór aftur með kvöldvélinni á mánudag. Í flugvallarbókabúðinni keypti ég nýju bókina eftir Bill Gates, töluvsnillinginn og milljarðamæringinn, en hún heitir The Road Ahead. Af henni má ráða, að við séum aðeins á byrjunarreit, þegar litið er til tölvusamskipta.

Það gladdi mig á Spástefnu Stjórnunarfélagsins þriðjudaginn 5. desember, hve ræðumenn lögðu allir mikla áherslu á nauðsyn menntunar, til að Íslendingar gætu sótt fram á næstu árum. Ræða mín á stefnunni á að vera á heimasíðu minni einnig ávarp, sem ég flutti í Þjóðminjasafni 6. desember, þegar kveikt var á jólatré þar.

Fimmtudaginn 7. desember hitti ég stjórn Hins íslenska kennarafélags og ræddi mest um frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga. Strax eftir þann fund hitti ég nýkjörna stjórn Bandalags íslenskra listamanna og fórum við yfir mörg sameiginleg mál. Loks sótti ég þennan sama dag kvöldverð verkefnisins Ungt fólk í Evrópu, sem hefur tekist vel að framkvæma hér á landi.

Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík kom saman til fundar síðdegis föstudaginn 8. desember. Liggur dagskrá hátíðarinnar næsta sumar nú fyrir.

Nú er unnið að því að leggja síðustu hönd á fjárlagafrumvarp næsta árs. Fóru fram umræður um málið á mörgum fundum í vikunni. Að sjálfsögðu eru fáir ánægðir og við blasir, að enn er nokkur vandi fyrir höndum, sé ætlunin að ná settu hallamarkmiði.