3.12.1995

Frá Bessastöðum til Bond

Vikan var óvenjulega viðburðarík.
Mikilvægar stjórnmálaákvarðanir voru teknar undir öruggri forystu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Kjaramál, búvörulagafrumvarp og afstaðan til veiða á Flæmska hattinum, allt eru þetta stórmál, sem leyst voru á farsælan hátt.

Skoðanakönnun DV sýndi, að R-listinn nýtur alls ekki meirihluta Reykvíkinga. Ingibjörg Sólrún brást þannig við, að þessi afstaða snerist ekki í raun um R-listann heldur endurspeglaði afstöðu almennings í garð stjórnvalda á tímum erfiðleika. Daginn eftir birti DV hins vegar könnun, sem sýndi vaxandi fylgi Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar. Þar með féll kenning borgarstjórans um sjálfa sig. Skoðanakannanir mæla auðvitað ekki annað en afstöðu almennings, þegar þær eru framkvæmdar. R-listinn kemst ekki hjá því að taka mið af því. Það þýðir ekki fyrir borgarstjóra að skjóta óvinsældum sínum á herðar Davíðs, á sama tíma og vinsældir hans vaxa. Að vísu sagði hún á dögunum, að Davíð myndi ekki frekar en hún fara í forsetaframboð (!) og einnig, að hún mundi fá hærri laun sem borgarstjóri, ef laun Davíðs forsætisráðherra hækkuðu.

Ég heimsótti tvo framhaldsskóla í vikunni: Ármúlaskólann þriðjudaginn 28. nóvember og Fjölbrautarskólann á Akranesi daginn eftir, en á miðvikudagskvöldið efndu sjálfstæðismenn á Akranesi síðan til fundar, þar sem ég hafði framsögu um skólamál og stjórnmál og svaraði síðan fyrirspurnum. Var það líflegur fundur og fjölsóttur. Hið sama er að segja um fund í Sagnfræðingafélaginu að kvöldi þriðjudagsins, þar sem fjallað var um nýtt hefti af tímaritinu Ný saga, en meðal efnis í því er grein eftir mig um gildi sagnfræðinnar. Var ég undrandi á því, hve margir sóttu sagnfræðingafundinn í sal Þjóðskjalasafnsins, sem reyndist varla rúma fundarmenn.

Heimsóknirnar í framhaldsskólana eru ánægjulegar. Þar gefst ekki aðeins tækifæri til að fara um skólahúsin heldur einnig til að ræða við kennara, en bæði í Ármúla og á Akranesi voru formlegir fundir á kennarastofum. Næg umræðuefni eru, því að málefni framhaldsskólana eru í deiglunni. Frumvarp að nýjum framhaldskólalögum er til meðferðar í menntamálanefnd Alþingis og skólarnir hafa verið að fjalla um hugmyndir frá ráðuneytinu um verkaskiptingu milli þeirra, hvoru tveggja er tilefni skoðanaskipta á fundum með kennurum, auk þess sem vakið er máls á sérmálum hvers skóla.

Fimmtudaginn efndi forseti Íslands til árlegrar síðdegisveislu fyrir þingmenn og maka þeirra. Hefjast þessi boð klukkan 16 og standa fram undir 19. Var þetta í síðasta sinn, sem frú Vigdís er gestgjafi í slíku hófi.

1. desember var fjölbreyttur. Fyrir hádegi klukkan 11 bauð Námsgagnastofnun til athafnar í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem kynntur var margmiðlunardiskur, sem byggður er á efni Íslandshandbókarinnar. Finnst mér margmiðlunartæknin einstakt undur. Síðar um daginn var mér sagt, að næstu daga kæmi diskur með hæstaréttardómum síðustu ára og væri ætlunin að gefa þá alla út með þessu formi. Létti mér við að heyra þetta, því að ég hef trassað að halda dómasafninu við og því vaxið í augum að kaupa viðbótarbindi og stofna til umtalsverðra útgjalda við bókband. Nú leystist þetta með diski.

Klukkan 14 1. des. efndu stúdentar til hátíðar sinnar í Háskólabíói, stofnuð voru Hollvinsasamtök Háskólans og Matthías Johannessen flutti góða ræðu. Þaðan fór ég í 70 ára afmæli Óskars Guðmundssonar, sem farið hefur með iðnfræðslumál í menntamálaráðuneytinu. Eftir að hafa árnað honum heilla lá leiðin á 50 ársþing Knattspyrnusambands Íslands, þar sem mér var óvænt boðið að ganga í ræðustól og flytja ávarp. Þá tóku við tvenn jólaboð hjá fyrirtækjum. Má því segja, að yfirferðin þennan dag hafi verið mikil.

2. desember lá leiðin niður í Alþingishús klukkan 14.30 til að taka við stuðningsyfirlýsingu Tónlistarráðs Íslands vegna afstöðu minnar til tónlistarhúss. Var hátíðlegt að hlýða á blásara leika á hljóðfæri sín og taka þátt í þessari stuttu athöfn.

Að kvöldi 2. desember var svo glæsileg frumsýning á nýjustu James Bond myndinni í Bíóborginni. Stóð hún vel undir þeim væntingum, sem ég hafði. Nýi Bondinn nær þó ekki að slá Sean Connery við, í mínum huga er hann alltaf hinn sanni Bond, en sá nýi er vissulega góður, hinn næstbesti!