26.11.1995

Leiklistarþing, Fósturskóli og nýjar bækur

Mikil gróska er í leiklist eins og annarri listastarfsemi í landi okkar. Laugardaginn 25. nóvember var Leiklistarráð með aðalfund sinn og stóð hann allan daginn í Borgartúni 6. Kom í minn hlut að ávarpa ráðið upp úr hádeginu og stóð ég þar við í um það bil tvo klukkutíma og tók þátt í umræðum, sem voru fróðlegar fyrir mig. Leyfði ég mér undir lokin að rifja upp, að á sínum tíma, líklega skömmu eftir að Leiklistarráð var stofnað með lögum frá 1977, ritaði ég Rabb í Lesbók Morgunblaðsins, þar sem ég undraðist, að stjórnmálamenn væru að samþykkja lög um ráð af þessu tagi, sem síðan kæmu saman til fundar í því skyni að samþykkja kröfugerð á hendur stjórnmálamönnunum og saka þá, um að vilja ekki veita nægu fjármagni til listastarfsemi. Kannski mætti kenna þetta við pólitískan masókisma, þótt einnig bæri að líta á þetta sem lið í lýðræðislegu stjórnarfari okkar. Eitt er víst, að ég var minntur rækilega á það á fundi Leiklistarráðs á laugardaginn, að meira fé þyrfti til leiklistarstarfsemi, sérstaklega þyrfti að koma til móts við óskir atvinnuleikhópa.

Lögin um leiklistarráð hafa verið í endurskoðun og liggja fyrir rökstuddar tillögur um breytingar á þeim, sem verið er að skoða í menntamálaráðuneytinu. Í tengslum við það mál og afgreiðslu fjárlaga hefur athygli mín beinst sérstaklega að stöðu Íslenska dansflokksins, sem fær rúmar 40 milljónir á ári úr ríkissjóði án þess þó að geta látið enda ná saman hjá sér, óvissa er um stjórnsýslustöðu hans og húsnæðismál auk þess sem töluverðar umræður eru um listræna stefnumörkun flokksins, hve mikið hann eigi að færast í fang. Hafa málefni hans verið á mínu borði um nokkurra mánaða skeið og tími kominn til þess að taka af skarið um framtíðina. Skýrði ég Leiklistarráði frá þessum vanda, sagði ekki haldið áfram á sömu braut. Þá lagði ég einnig mikla áherslu á nauðsyn þess, að sjónvarp ríkisins sýndi í dagskrárstefnu sinni, að unnt væri að rökstyðja sérstöðu þess á sjónvarpsmarkaði með vísan til menningarlegrar dagskrár, þar sem íslensk menning væri höfð að leiðarljósi.

Ræðan hjá Leiklistarráði var sú síðasta, sem ég flutti í þessari vinnuviku, en fyrr þennan sama laugardag hafði ég flutt stutt ávarp hjá Flugbjörgunarsveitinni, sem hélt upp á 45 ára afmæli sitt. Föstudaginn 24. nóvember flutti ég ávarp við upphaf ráðstefnu á vegum félaga tæknifræðinga og verkfræðinga, sem haldin var undir fyrirsögninni: Verður Tækniháskóli Íslands orðinn að veruleika fyrir aldamót? Fimmtudaginn 23. nóvember flutti ég ræðu um grunnskólann á fjármálaráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga. Lengstu ræðu vikunnar flutti ég hins vegar á ráðstefnu fjármálaráðherra 21. nóvember um nýskipan í ríkisrekstri. Þessum þremur ræðum geri ég ekki skil hér, því að þær eiga allar að vera tiltækar á heimasíðu minni.

Síðdegis þriðjudaginn 21. nóvember heimsótti ég Fósturskóla Íslands ásamt Ásdísi Höllu Bragadóttur. Er ekki ofsögum sagt, að hann búi við mikil þrengsli í húsnæði sínu við Laugalæk. Aðsókn að skólanum er mjög mikil enda mikil þörf fyrir menntaða leikskólakennara. Þá er ráðgert, að skólinn verði hluti af Uppeldisháskóla Íslands en lög um hann eru í smíðum. Er skiljanlegt, að sú breyting valdi nokkurri óvissu meðal kennara skólans um framtíð sína. Ræddum við þetta á fundi með kennurum.

Tveir vinir mínir gáfu út bækur í vikunni, þeir dr. Þór Whitehead og dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Bækurnar eru ólíkar, því að Þór er að gefa út þriðja bindi af sögu sinni um Ísland í síðari heimstyrjöldinni en Hannes gefur út safn af fleygum setningum. Að baki báðum liggur gífurleg vinna og þess vegna ástæða til að fagna, þegar afraksturinn kemur í ljós. Eftir að hafa flett bókunum er ég ekki í vafa, um að þær eru höfundum sínum til sóma. Undanfarin ár hef ég tekið að mér að rita umsagnir um bækur fyrir Morgunblaðið á jólavertíðinni. Þessum skyldum hefur nú verið velt yfir á herðar annarra.