12.11.1995

Akureyrarfundur með framhaldsskólanemum

Í dag, sunnudag, skrapp ég norður á Akureyri til fundar við Félag framhaldsskólanema, sem hér þar aðalfund sinn. Vélar Flugleiða voru á áætlun í góða veðrinu.

Var ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða málefni framhaldsskólans við fulltrúa nemenda í 20 skólum. Ég tel brýnt, að frumvarp til framhaldsskólalaga nái fram að ganga á þessu þingi. Raunar gerði ég frumvarpið ekki sérstaklega að umtalsefni í ávarpi, sem ég flutti við upphaf aðalfundar Hins íslenska kennarafélags (HÍK) föstudaginn 10. nóvember. Síðan heyrði ég í útvarpsfréttum á laugardagskvöld, að HÍK hefði lagst gegn því, að frumvarpið næði fram að ganga.

Nemendur hafa ekki síður hagsmuna að gæta en kennarar. Þeir nálgast málið hins vegar úr ólíkum áttum. Mér fundust sjónarmið nemenda öll skiljanleg frá þeirra sjónarmiði, til dæmis að því er varðar greiðslu félagsgjalda til nemendafélaga. Höfðu forystumenn félaganna áhyggjur af því, að ekki skyldi vera lögfest, að nemendum bæri að greiða gjöld til félaganna. Ég tel, að slíkt ákvæði brjóti í bága við rétt manna til að standa utan félaga.

Við svipaðan vanda er glímt á háskólastiginu. Hef ég lýst þeirri skoðun minni, að ekki sé um skylduaðild að Stúdentaráði Háskóla Íslands eða Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri að ræða. Á hinn bóginn hef ég samþykkt, að yfirvöldum háskólanna sé heimilt að semja um verkefni við SHÍ og félag stúdenta á Akureyri og greiða fyrir þá þjónustu af skrásetningargjöldum. Er það von mín, að sæmileg sátt náist um þetta og menn átti sig á því, að það getur ekki verið verkefni menntamálaráðherra að svipta stúdentafélög tekjustofnum, þótt honum sé skylt að tryggja frjálsa félagsaðild.

Viðræður mínar við framhaldsskólanemana stóðu í næstum tvo tíma á Akureyri. Voru þær málefnalegar. Sérstaka athygli mína vakti, að nemendur telja ekki skipulega staðið að útgáfu námsbóka á framhaldsskólastiginu og vilja gjarnan, að menntamálaráðuneytið tryggi betur réttarstöðu nemenda að þessu leyti. Finnst þeim það of mikið undir duttlungum kennara komið, hvaða námsbækur eru lagðar til grundvallar. Skipti á námsbókum séu of tíð og almennt ekki nægilega vel að námsgagnagerð staðið.

Ég lýsti þeirri skoðun minni, að ríkið ætti ekki að taka að sér útgáfu námsbóka á framhaldsskólastiginu. Hins vegar væri sjálfsagt að huga að þessu hagsmunamáli nemenda eins og öðrum.

Mér finnst með ólíkindum, ef samtök kennara ætla að reyna að bregða fæti fyrir því, að Alþingi samþykki framhaldsskólafrumvarpið. Telji þau, að með því verði komið í veg fyrir, að horfið verði frá æviráðningu kennara, er um misskilning að ræða. Þetta mál er á döfinni á öðrum vettvangi.

Fyrir framhaldsskólastigið skiptir miklu, að ný lög verði sett. Að slá því á frest er til þess eins fallið að auka óvissu þeirra, sem skólastigið á að þjóna, nemendanna.